Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:33:42 (6503)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Við búum svo vel í þessum sal að hér er íslenskan leyfð og af þeirri ástæðu er ég með DV fyrir framan mig. Hér hefur hæstv. utanrrh. sagt mjög stóra hluti sem eru fullkomlega þess virði að menn hugleiði hvað hefur komið fram.
    Í fyrsta lagi hefur hæstv. utanrrh. upplýst okkur, hina almennu þingmenn, um það að fyrir liggi að það sé gersamlega vonlaust að við komumst inn í EB nema íslensk tunga verði lögð niður í landinu. Það sé skilyrðið, það sé eitt af því sem sé kaupverð gæfunnar. ( Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) Nú er kallað utan þingsalar og er það svona í lengsta lagi að þetta sé ekki rétt. Hæstv. utanrrh. sagði að innan EB væri enginn vilji fyrir því að fá svokallaðar örþjóðir inn. Hann tilgreindi þær með nafni, það væru Íslendingar, Möltubúar og þeir sem búa á Kýpur. Þá á ég við Grikki. E.t.v. hafa það verið Tyrkirnir líka. Skýringin var sú að ef þeir fengju öll réttindi sem felast í því að vera í EB. Reglan er þessi: Ef þú gengur í félag, þá tekurðu við öllum skyldunum og færð öll réttindin, þá yrði sá þröskuldur á þeirri leið að það lægi fyrir að svo sterkir aðilar úti í Evrópu væri á móti því að tunga þessara þjóða yrði notuð til jafns við tungur hinna þjóðanna að það kæmi aldrei til greina að menn fengju að fara inn í EB. Í rökréttu framhaldi af því blasir við að kaupverð gæfunnar ef menn ætla inn er að afsala ser tungunni. Nú heyrist ekkert úr hliðarsal, enda málið svo skýrt að það er ekki hægt að misskilja það. ( Utanrrh.: Það er svolítill misskilningur hjá hv. þm.) Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh.: Hefur hann gert hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni grein fyrir því að í ósk hans um aðild að EB felst jafnframt ósk um það að íslensk tunga verði lögð niður ef hann meinar eitthvað með því sem hann er að segja? Hefur hann gert hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni grein fyrir því að ef hann meinar eitthvað með því að við eigum að ganga í EB þá sé hann jafnframt að lýsa því yfir að samkvæmt skilningi hæstv. utanrrh. verði að leggja niður íslenska tungu ella komumst við ekki inn? Þetta eru nefnilega þau gögn sem hafa verið sett fram af hæstv. utanrrh. og þetta er náttúrlega tímasprengja svo ekki sé meira sagt. Þetta er tímasprengja. Það þarf að fara aftur til Skálholtsskóla og þeirra tíma þegar menn brutu um það heilann hvort rétt væri að leggja niður íslenska tungu og taka upp dönsku. Hæstv. utanrrh. virðist enga grein hafa gert sér fyrir því hvaða tímasprengju hann setti inn í þingið. Hann virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að annaðhvort hefur hann vanrækt með öllu að fræða hv. þm. Karl Steinar Guðnason um það hvað hann væri að fara fram á eða hann er að segja okkur þau tíðindi að það sé upplýst að Karl Steinar Guðnason sé reiðubúinn að fórna tungunni til þess að komast inn. Það sama á að sjálfsögðu við um hv. þm. Vilhjálm Egilsson. Hins vegar horfir það nú svo við að ég lít nú kannski ekki á að það sé jafnmikil skylda hjá hæstv. utanrrh. að sjá um uppfræðslu á þeim bæ. Það er kannski sameiginlegt verkefni að nokkru leyti en þó er sá munurinn að í öðru tilvikinu er um að ræða þingmann úr Sjálfstfl. en í hinu er um að ræða þingmann úr Alþfl.
    Mér voru þetta nokkuð góð tíðindi að heyra yfirlýsingu hæstv. utanrrh. Ég held nefnilega að þrátt fyrir allt þurfi að safna nokkuð vel liði og það líði allmörg ár þangað til sjálfstæðisvitund Íslendinga verði svo brotin niður að menn séu reiðubúnir að fórna tungunni. Ég trúi í það minnsta ekki að það gerist á einum eða tveimur dögum.
    Ég hef varpað til utanrrh. spurningu um uppfræðsluna á hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni í þessu máli og óska eftir því að því verði svarað afdráttarlaust hvort sú fræðsla hefur farið fram þannig að ég fái

upplýsingar um afstöðuna til íslenskrar tungu á þessum fundi.