Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:40:11 (6504)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú er illt í efni ef landseti Snorra í Reykholti skilur hlutina rétt og hefur þegar afsalað sér íslenskri tungu. En ef hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson skildi það sem hann var að segja, þá var það þetta: Þegar hann mætir í Norðurlandaráði eða einhverri nefnd í Norðurlandasamstarfi, þá er honum gert að tala þar eitthvert af tungumálum eða mállýskum annarra þjóða Norðurlanda, norsku, dönsku, sænsku eða jafnvel breyta skóladönskunni sinni með íslenskri áherslu yfir í finnska sænsku. Þá er spurningin: Hefur hv. þm. þar með afsalað sér móðurmáli sínu, íslenskri tungu? Hingað til hef ég ekki heyrt t.d. hv. þm., sem er nú handgengnastur norrænu samstarfi, Pál Pétursson frá Höllustöðum, sem sjaldan hallar réttu máli sem kunnugt er, halda því fram að ef hann skildi íslenskuna sína eftir heima og talaði prentsmiðjudönskuna þar ytra, hefði hann þar með afsalað sér íslenskri tungu. Nú verðum við að játa að í þeim félagsskap sem Íslendingar hafa starfað frá 1970 og tengt er við EFTA þá hafa menn orðið að hafa ensku sem vinnumál. Þar tala menn því ekki eigið mál. Þar er þó hlutum þannig fyrir komið að allir sitja við sama borð því að þeir verða að tala erlenda tungu, ekki móðurmál sitt og eru því betur settir en við hið samnorræna veisluborð. Þetta er ekki að afsala sér íslenskri tungu. Auðvitað var þetta allt misskilningur hjá hv. þm. eins og gjarnan fyrr.
    Það sem ég var að segja var þetta: Það sem Evrópubandalaginu ægir væri sú kvöð samkvæmt reglum þess að þýða allar ræður, sem yrðu fluttar á íslensku, yfir á níu önnur tungumál. Ef ég man rétt hafa þeir svolítið kvartað undan pappírsflóði en þetta verða menn að reyna að skilja réttum skilningi.