Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:46:47 (6507)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Nú tók hæstv. ráðherra það fram að hann væri að tala í alvöru. ( Utanrrh.: Áður var ég að tala til þín.) Þegar hann talaði í alvöru kom í ljós að það sem hann hafði sagt um þá vörn sem Íslendingar eiga í því að vera örþjóð eins og hann orðaði það svo skemmtilega --- sú málsvörn er engin. Það stendur ekki fyrir gagnvart því að komast inn í EB ef menn ætla sér þar inn. Það verður einfaldlega leyst á þann einfalda hátt að enskan verður látin vera það tungumál sem Íslendingar sitja uppi með í því sambandi að fá pappíra þýdda á en ekki á íslensku. Þetta veit hæstv. ráðherra. Þess vegna er það billeg lausn sem kom fram fyrr á þessum fundi að halda því fram að einhverjir embættismenn væru þeirrar skoðunar að það yrði aldrei samþykkt að Íslendingar færu inn vegna þess að þeir töluðu íslensku og þeirra kvaða sem því fylgdu að þýða. Þetta veit hv. þm. Karl Steinar Guðnason. Hann gerir sér fulla grein fyrir því að það er hægt að fara þarna inn ef við viljum og einfaldasti hlutur í heimi. Spurningin er bara sú, og það vona ég að sé samstaða um hjá meiri hluta íslenskrar þjóðar, að menn hafi engan áhuga á slíku.