Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:54:00 (6509)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ástæða til að taka það fram ef einhver kynni að vera að fylgjast með þessum orðaskiptum að hv. þm. Páll Pétursson er nýkominn hingað í salinn og hefur ekki fylgst með þessum umræðum og veit sennilega ekkert hvað hér er á dagskrá frekar en venjulega.
    Í annan stað: Engan mann hef ég heyrt, fulltrúa smáþjóða, jafnmikið í keng af vanmetakennd, ef ekki ég segði sjálfsforakt, eins og lýsti sér í orðum þessa manns sem sagði: ,,Engu skiptir hverju þið smáþjóðamenn eruð að halda fram á alþjóðlegum málþingum.`` Hann undanskilur væntanlega einn, þ.e. Pál Pétursson frá Höllustöðum þegar hann hallar hvað mest réttu máli á norrænum málþingum. Samanber það sem hann sagði í hundraðasta sinn um að Evrópubandalaginu hefðu verið veittar einhliða veiðiheimildir. Þetta er búið að hrekja í hvert einasta skipti sem maðurinn segir þetta. Hann er búinn einu sinni m.a.s. í umræðunum að biðjast velvirðingar á þessu og viðurkenna að hann fer með fleipur og rangfærslur en hann heldur því áfram vegna þess að ósannindavaðallinn í hv. þm. er vanabindandi.
    Með leyfi að spyrja: Á hvaða tungumáli tala þeir á alþjóðaþingum framsóknarmanna ef það kynni að vera til?