Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 17:03:50 (6514)


     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Mér þykir það lofsvert og er þakklátur hæstv. utanrrh. fyrir að vekja athygli góðra nemenda á ræðum mínum. Það er ekki nema lofsvert og verður ábyggilega lærdómsríkt fyrir þennan góða nemanda að fara yfir þær. Ég held að hann sé ekki mikill verkmaður eða að hinu leytinu, sem mér þykir líklegra, að hann sé enn að leita eftir þrjár vikur að einhverju sem ég hafi farið rangt með vegna þess að það hef ég ekki gert. Það hefur hugsanlega komið einu sinni eða tvisvar fyrir mig að fara með eitthvað sem ekki stóðst en að mestu leyti held ég að það hafi nú gengið eftir.
    Hitt er annað mál að ef hæstv. utanrrh. hefði sett hann í það að fara yfir það sem hann er búinn að segja um þetta EES-mál í gegnum árin þá hygg ég að það væri efni í heila doktorsritgerð fyrir nemandann.