Skýrsla um stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsóknar- og þróunarmálum.

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 13:41:47 (6524)

     Svavar Gestsson:
    Virðulegi forseti. Auðvitað geta verið takmörk fyrir því hvaða möguleika ráðuneytin hafa til þess að svara fyrirspurnum sem koma fram í skýrslubeiðnum frá þingmönnum. Sú skýrsla sem hér var beðið um varðandi rannsóknastarfsemi er hins vegar mjög einfalt mál eins og hún er lögð hér fyrir þar sem beðið er um skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsóknarmálum. Ég hélt satt að segja að það þyrfti ekki að taka svo langan tíma að ljúka því að það þyrfti að brjóta ákvæði þingskapa í þeim efnum. Hins vegar er það alvarlegt umhugsunarefni fyrir forsetann og forsætisnefndina ef það er svo að hæstv. ráðherrar ætli sjálfir að eigin geðþótta að meta það hvernig á að framkvæma ákvæði þingskapa að því er þessa fresti varðar. Ég tel að hæstv. heilbrrh. hafi dregið það gersamlega úr hömlu að svara skýrslu frá í fyrra um málefni aldraðra, gersamlega úr hömlu þannig að það tókst ekki að ræða þá skýrslu með eðlilegum hætti og er bersýnilega nauðsynlegt að gera til þess sérstakar ráðstafanir að málefni aldraðra verði rædd í þessari stofnun, ekki síst þar sem það hefur komið í ljós í fyrirspurnatíma að hæstv. heilbrrh.- og trmrh. er eini Íslendingurinn sem veit ekki að árið 1993 er ár aldraðra.