Fjarskipti

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 13:49:07 (6528)

     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. samgn. um frv. til laga um fjarskipti og birtist álit nefndarinnar á þskj. 783.
    Frv. þetta var flutt á síðasta Alþingi en náði þá eigi afgreiðslu. Á hinn bóginn hófst þá þegar athugun á frv. í samgn. Það var síðan að nýju flutt á þessu þingi og hefur frv. fengið ítarlega umfjöllun í nefndinni að þessu sinni.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn frá samgönguráðuneytinu Þórhall Jósefsson, aðstoðarmann samgönguráðherra, og Ragnhildi Hjaltadóttur skrifstofustjóra. Þá komu á fund nefndarinnar Guðmundur Ólafsson, forstöðumaður Fjarskiptaeftirlits ríkisins, Ólafur Tómasson, póst- og símamálastjóri, og Þorvarður Jónsson, framkvæmdastjóri Póst- og símamálastofnunar, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Jón Ragnar Höskuldsson, frá Tölvumiðstöð sparisjóðanna.
    Ýmsir þessara aðila hafa einnig sent nefndinni umsagnir skriflega og hefur nefndin notið þeirra í starfi sínu við að móta afstöðu sína til frv. Nefndin hefur eins og áður sagði athugað frv. mjög vandlega og ég tel að það hafi fengið þar ítarlega meðferð.
    Í umsögnum hinna ýmsu aðila kemur fram að yfir höfuð er frv. talið vera til bóta frá því sem gildandi lög segja til um enda þótt einstakar athugasemdir hafi komið fram frá ýmsum þessara aðila.
    Þá leggur nefndin nokkra áherslu á að aðilar sem fá leyfi til að reka fjarskiptaþjónustu njóti jafnræðis að því er varðar gjaldskrá og annað þess háttar þannig að ekki verði aðilum mismunað, ekki síst þegar um er að ræða samkeppnisaðila sem í hlut eiga. Á það verður að leggja áherslu að samkeppnisaðilar sitji við sama borð þegar verðlögð er sú þjónusta sem þeir fá hjá Pósti og síma ellegar reka á eigin vegum.
    Frv. er flutt að verulegu leyti í tengslum við ákvæði EES-samningsins og að ýmsu leyti er frv. til þess að samræma reglur hér á landi við það sem gildir í Evrópulöndum. En skoðun nefndarinnar er sú að frv. sé þýðingarmikið og gildistaka þess eigi ekki að vera háð gildistöku EES-samningsins heldur skuli það taka gildi þegar í stað.
    Nefndin fékk umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um kostnað sem leiða mundi af samþykkt frv. En frv. gerir ráð fyrir að sjálfstæð stofnun, Fjarskiptaeftirlit ríkisins starfi að eftirlitsþætti þessara mála en áður var sá þáttur hluti af starfsemi Póst- og símamálastofnunar enda þótt í raun hafi þegar orðið breyting þar á. Samkvæmt áliti fjárlagaskrifstofu fjmrn. verður að gera ráð fyrir að kostnaður aukist um 5--10 millj. kr. við þessa breytingu og muni gjaldskrá Fjarskiptaeftirlits ríkisins hækka sem því nemur. Áður hafði orðið nokkur kostnaðaraukning við þær breytingar sem urðu við það sem þegar hefur verið unnið að því að skilja að Fjarskiptaeftirlit og starfsemi Póst- og símamálastofnunar.
    Samgn. hefur orðið sammála um að mæla með frv. með nokkrum breytingum og ritar öll undir álit nefndarinnar á þskj. 783 en hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir ritar undir með fyrirvara.
    Þær breytingar sem nefndin leggur til eru í fyrsta lagi við 1. gr., sem fjallar um orðaskýringar. Leggur nefndin til að felld verði brott úr skýringum við orðið fjarskipti orðin ,,eða með sjónmerkjum`` og teljum að það sé úrelt að greina fjarskipti með sjónmerkjum og leggjum til að það orð falli niður. Í öðru lagi leggur nefndin til að upp verði tekið í orðaskýringar orðið ,,fjarskiptavirki`` og skýringar á því orði verði í samræmi við það sem er í gildandi lögum.
    Í öðru lagi leggur nefndin til nokkrar breytingar við 2. gr. frv. Einkanlega er það í þá átt að gera hana skýrari og uppröðun efnis í greininni verði í meiri samfellu og eðlilegri röð en er í frv. sjálfu. Um þessa grein frv. urðu meiri umræður en um aðrar greinar þess en fór þó svo að það náðist samkomulag á milli þeirra aðila sem um hana hafa fjallað og mest eiga í húfi um að vinna eftir þessu frv. Þar á ég við samgrn. og Póst- og símamálastofnunina og Fjarskiptaeftirlit ríkisins.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 3. gr. sem felur í sér áréttingu þess að þegar fluttur er inn fjarskiptabúnaður sem skoðaður hefur verið af viðurkenndri prófunarstofu verði ekki gert ráð fyrir að Fjarskiptaeftirlitið endurmeti þá skoðun heldur nægi staðfesting þess á að viðkomandi prófunarstofa sé viðurkennd.
    Í fjórða lagi er lagt til að ný málsgrein bætist við 4. gr. þar sem ráðherra verði heimilað að ákveða með almennri reglugerð uppsetningu jarðstöðva til móttöku á sjónvarpsefni til eigin nota. Þannig mun ekki þurfa leyfi ráðherra fyrir hverja einstaka jarðstöð heldur nægir viðurkenning frá Fjarskiptaeftirlitinu um að hver stöð fyrir sig uppfylli tæknilegar kröfur.
    Í fimmta lagi er lögð til breyting á gildistökuákvæði frv. sem er eins og áður segir í því fólgin að nefndin leggur til að lögin öðlist þegar gildi án tillits til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ég árétta enn þann skilning nefndarinnar á gjaldtökuákvæðum þessa frv. að við ákvörðun gjalda verði jafnræðis gætt þannig að samkeppnisaðilum verði ekki mismunað og að mið verði tekið af kostnaði við fjarskiptaþjónustu. Ég nefni í þessu sambandi athugasemdir sem komið hafa frá Tölvumiðstöð sparisjóðanna sem líta svo til að þeim hafi verið gert að greiða hærri gjöld fyrir þjónustu á vegum þeirrar stofnunar en gert hefur verið gagnvart viðskiptabönkunum. Þar er um samkeppnisaðila að ræða sem ættu að njóta jafnræðis við gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem þar er innt af hendi. Ég lýsi þeirri skoðun nefndarinnar að frv. eins og það er úr garði gert eigi að tryggja að eftir þeim reglum sé farið. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um frv. eða þær brtt. sem nefndin gerir í lengra máli en legg til fyrir hönd samgn. að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem nefndin flytur á þskj. 784.