Framhaldsskólar

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 14:34:40 (6530)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var miklu ítarlegri framsöguræða fyrir frv. sem hæstv. ráðherra flutti núna og er ástæða til að þakka fyrir það í sjálfu sér en hún kallar líka á ítarlegri umræðu á eftir. En ég ætla aðeins að inna hæstv. ráðherra eftir því í andsvarstíma hvort það er rétt skilið hjá mér að tilefni frv. sé að það eigi að flytja prentnámið að einhverju leyti til prenttæknistofnunar. Þar eigi að fara að reka einhver tveggja ára námskeið utan við iðnfræðslukerfið eins og það hefur verið og þá í samkeppni við prentdeildina í Iðnskólanum í Reykjavík sem er tiltölulega myndarleg verktæknideild miðað við það sem kostur er á í verkmenntaskólum í landinu. Mig langar jafnframt að spyrja ráðherra hvort frv. sé flutt í samráði við skólastjórn Iðnskólans í Reykjavík eða jafnvel í andstöðu við skólastjórn Iðnskólans í Reykjavík.