Framhaldsskólar

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 14:39:06 (6534)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um framhaldsskóla. Ég get sagt að mér fannst þetta mjög dularfullt frv., svo ekki sé meira sagt, þegar ég leit það fyrst og alveg jafndularfullt eftir þær umræður sem fóru fram síðast þegar málið var tekið á dagskrá en nú hefur málið skýrst nokkuð eftir aðra ræðu hæstv. ráðherra um það.
    Ég hef miklar efasemdir um þetta frv. því það heimilar ráðherra að taka lögin um framhaldsskóla úr gildi og gera það sem honum eða fulltrúum iðnaðarins kann að sýnast í sambandi við framhaldsskólann og það alveg án samráðs við stjórnendur framhaldsskólanna. Þetta finnst mér vera mjög hæpin lagasetning, þó ekki sé meira sagt, og nánast ómöguleg og spurning hvort hv. menntmn. getur ekki reynt að finna einhvern annan farveg fyrir þessar hugmyndir sínar sem mér finnst að sumu leyti skiljanlegar og geta leitt gott af sér. Því eins og málin eru í dag og eins og allir eru mikið að ræða þessa dagana þá þurfum við að leggja mikla áherslu á starfsnámið, á iðnfræðsluna, ekki síst með tilliti til þess að við erum að fara út í aukna samkeppni við aðrar þjóðir á vinnumarkaðinum og íslenska starfsmenntakerfið okkar hefur ekki

verið nógu skilvirkt eftir því sem álit ýmissa aðila er.
    En satt að segja finnst mér að með því að opna svona lögin, eins og hér er gert ráð fyrir, þá séum við að taka allt of stórt skref. Ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki hugsað þetta til enda. Það er verið að flytja mikið vald frá skólunum og yfir til atvinnulífsins. Hæstv. ráðherra vildi meina að það væri verið að flytja eitthvert vald til skólanna. Ég get alveg ómögulega séð það því miðað við frv., ef að lögum verður, má hugsa sér að það komi upp tvöfalt stjórnkerfi innan framhaldsskólanna. Annars vegar sé það hið opinbera kerfi og hins vegar séu það atvinnurekendur, iðngreinarnar, sem reki hluta skólans. Það held ég að geti ekki boðið upp á annað en árekstra og erfiðleika. Það held ég að við verðum að reyna að koma í veg fyrir. Ég er alveg sammála að iðnrekendur og iðngreinarnar þurfa að hafa mikið um það að segja hvernig námið í framhaldsskólunum er. Þeir þurfa að fá tækifæri til þess. Þar hefur verið vitnað til danska kerfisins sem mikillar fyrirmyndar í þessum efnum og þá skulum við kynna okkur það kerfi og reyna að laga okkar verkmenntakerfi að því. En að hugsa sér þessa leið og þá fyrst og fremst vegna einnar iðngreinar, prentiðnaðarins, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, finnst mér útilokað.
    Það var minnst á starfsþjálfun. Er ekki einmitt þar sem pottur er brotinn, að verkþátturinn, starfsmenntunin, sem að einhverju leyti fer fram á vinnustöðum, er ekki í nægilega góðu formi og ekki nægilega mikið eftirlit með henni? Þar sem ég hef kynnst starfsnámi mest er innan bændaskólanna, þó ég hafi ekki setið þar sjálf, en ég þekki það kerfi allvel og þar fer fram mjög virkt starfsþjálfunarkerfi úti á bóndabæjum sem er vel uppbyggt. Það er mikið eftirlit með því af hálfu skólans en það kostar að sjálfsögðu peninga og þeir hafa svo sannarlega verið af skornum skammti í menntakerfinu síðustu árin. Það er í sjálfu sér dapurleg aðferð að svelta t.d. Iðnskólann fjárhagslega þannig að hann hafi ekki aðstöðu til að búa skólann tækjum eins og ástæða væri til og eðlilegt væri og segja síðan að hann sé ekki nógu góður og standist ekki kröfur og þess vegna þurfi að stofna til einhverra einkaskóla þar sem þessi kennsla eigi síðan að fara fram.
    Það hefur verið minnst á að fræðslunefndirnar þjóni ekki þeim tilgangi sem þeim var ætlað í upphafi. Ég held að það sé alveg rétt en þá hlýtur ráðið að vera að breyta þeim og koma því þannig fyrir að iðnaðurinn hafi meiri ítök í fræðslunefndunum og kerfinu, sem hæstv. ráðherra kom inn á að væri þungt í vöfum og seinvirkt. Það er fyrst og fremst innan menntmrn. sem það er þungt í vöfum. Það hlýtur að vera hægt að taka á því á annan hátt en lagt er til með þessu frv.
    Hæstv. forseti. Ég hef mjög miklar efasemdir um þetta frv. eins og það liggur fyrir og sérstaklega vegna þess að mér sýnist það bjóða upp á tvöfalt kerfi innan framhaldsskólans, annars vegar hið opinbera kerfi, sem við þekkjum og ég viðurkenni að þarf að endurbæta, en hins vegar kerfi sem sé rekið af einkaaðilum og lúti annarri stjórn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái þetta fyrir sér. Ef við tökum dæmi af Norðurlandi. Á Akureyri er verkmenntaskóli og ef Félag málmiðnaðarmanna vildi síðan samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður, efna til kennslu í málmiðnaði innan verkmenntaskólans og hafa það algjörlega á sinni hendi og stjórna því námi hvernig ætti það að fara fram? Eða yrði það frekar þannig að sú kennsla færi fram einhvers staðar annars staðar í samkeppni við það nám sem verkmenntaskólinn býður upp á.
    Það er frekar hægt að hugsa sér þetta ef það væri verið að tala um að þessi lög ættu bara að gilda í tvö ár. Þá væri útséð um hvernig til hefði tekist. Samkvæmt 1. gr. frv. er verið að tala um tveggja ára tilraun í framhaldsskólum. Með því að ný grein komi í framhaldsskólalögin fyrir alla framtíð þá finnst mér þetta nánast alveg útilokað. En ég er frekar til viðræðu um að opna þessar heimildir um eitthvert árabil en samt í samráði við skólastjórnendur þannig að þetta yrði samstarfsverkefni skóla og atvinnulífs en ekki eingöngu atvinnulífið sem ætti að skipuleggja tilraunirnar.