Sjávarútvegsskóli

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 15:08:45 (6540)

     Flm. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um stofnun sjávarútvegsskóla á þskj. 673. Flm. ásamt mér er hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa sameiningu Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði, Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands í einn sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi. Skal undirbúningurinn miða að því að skólinn verði til húsa í Sjómannaskólanum í Reykjavík. Stefnt skal að því að skólinn taki til starfa haustið 1994.``
    Það leikur ekki vafi á því að þeir skólar sem nú eru starfandi og annast kennslu og fræðslu á framhaldsskólastigi fyrir íslenskan sjávarútveg hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki í fræðslu og í því að mennta fólk í gegnum tíðina. En þessir skólar eru þeir skólar sem ég vitnaði í áðan og þáltill. gerir ráð fyrir að séu sameinaðir. Auk þess má segja að útgerðartæknibraut Tækniskóla Íslands sé að hluta til á framhaldsskólastigi og að hluta til á háskólastigi.
    Tilgangur flm. með þáltill. er að efla og styrkja fræðslu á framhaldsskólastigi fyrir íslenskan sjávarútveg. Það er mikilvægt að búa vel að menntunarskilyrðum þeirra sem stunda nám á þessu sviði því vaxandi alþjóðleg samkeppni krefst vel menntaðs fólks til starfa, fólks með breiða þekkingu á öllum þáttum sjávarútvegsins allt frá veiðum að markaðs- og sölustarfi. En með því að sameina þessa þrjá skóla í einn sterkan og öflugan sjávarútvegsskóla sem starfar á framhaldsskólastigi er hægt að okkar mati að ná þessu markmiði.
    Upphaf þessa máls má rekja allt aftur til ársins 1986 þegar þáv. menntmrh., Sverrir Hermannsson, og þáv. sjútvrh., Halldór Ásgrímsson, skipuðu starfshóp um stofnun sjávarútvegsskóla. Hópurinn skilaði áliti sínu í október sama ár og skýrsla hans fylgir með þáltill. sem fylgiskjal þar sem gerð er grein fyrir tillögum starfshópsins og nefndarstarfinu. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í allar helstu niðurstöður starfshópsins.
    Í fyrsta lagi: Stofnaður verði sjávarútvegsskóli í Reykjavík er taki við hlutverkum Stýrimannaskólans í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði.
    Í öðru lagi að stofnað verði fræðsluráð sjávarútvegsins, skipað fulltrúum hagsmunasamtaka, rannsóknastofnana og og ráðuneyta, sem verði stefnumarkandi í fræðslumálum sjávarútvegsins.
    Í þriðja lagi: Sjávarútvegsskólinn fái til umráða húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands í Reykjavík og hið nýja verknámshús Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði sem er tiltölulega nýtt hús. Hins vegar er bóknám Fiskvinnsluskólans á hrakhólum um þessar mundir þó þeir séu í færanlegri kennslustofu sem er við enda verknámshússins núna.
    Í upphafi árs 1992 skipaði núv. menntmrh. nefnd til þess að gera tillögur um hagræðingu í framhaldsskólanum. Nefndin skilaði af sér áliti í mars 1992. Þar komst nefndin að sömu niðurstöðu, þ.e. Stýrimannaskólinn í Reykjavík, Vélskóli Íslands og Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði skyldu sameinaðir í einn sjávarútvegsskóla. Sú nefnd taldi að af þessu hlytist veruleg hagræðing og hefði í för með sér aukinn sparnað í ríkisútgjöldum.

    Við undirbúning þeirra tillagna sem hér er vitnað til og skýrslu þeirrar nefndar sem skilaði áliti 1986 voru auk þeirra manna sem í nefndinni voru hafðir með í ráðum skólastjórar Vélskólans, Stýrimannaskólans og Fiskvinnsluskólans. Til þess að leita hugmynda og tillagna um það hvernig að slíkum sjávarútvegsskóla skyldi staðið voru staðir í Noregi, Danmörku og Nýfundnalandi heimsóttir þar sem leitað var fanga um fyrirmyndir að slíkum sjávarútvegsskóla. Þar voru fyrirmyndir til og tillögur nefndarinnar byggðu að verulegu leyti á þeim hugmyndum og á því skipulagi sem þar var við lýði.
    Það sem merkilegast var að mínu viti og kom út úr þessu nefndarstarfi, á þeim tíma átti ég sæti í nefndinni, var að í öllum þessum löndum var staðið allt öðruvísi að uppbyggingu verknáms en við stöndum að því hér, a.m.k. í sjávarútveginum. Fyrirtækin í sjávarútvegi gátu leitað til viðkomandi skóla, til viðkomandi rannsóknastofnana og óskað eftir því að ákveðin vandamál er steðjuðu að fyrirtækjunum, bæði stjórnunarleg, efnahagsleg og tæknileg væru leyst af viðkomandi menntastofnunum. Hér er það hins vegar svo að allar nýjungar og framfarir verða til í atvinnulífinu sjálfu og flyjast inn í skólana frá atvinnulífinu alveg öfugt við það sem gerist í þessum löndum.
    Tilgangurinn með stofnun eins sjávarútvegsskóla með sameiningu þessara þriggja gæti haft það í för með sér að hægt væri að styrkja og efla menntunina og snúa þessu við og koma henni í svipað fyrirkomulag og viðgengst í nágrannalöndunum.
    Í kjölfar þess að nefndin skilaði áliti var haldin í Reykjavík ráðstefna um niðurstöðu nefndarinnar þar sem þátt tóku skólameistarar þessara skóla, fulltrúar skólanna og fulltrúar helstu hagsmunasamtaka í sjávarútvegi. Í fáum orðum má segja að niðurstaðan af þeirri ráðstefnu hafi verið sú að a.m.k. allflestir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi töldu mikilvægt og að tillögur nefndarinnar væru skynsamlegar að því leyti að það bæri að stefna að því að sameina þessa þrjá skóla í einn öflugan sjávarútvegsskóla.
    Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir því hvernig slíkur skóli gæti starfað og á bls. 5 í þáltill. er skipurit fyrir slíkan skóla. Gert er ráð fyrir því að skólinn heyri undir menntmrn. og sé sérskóli á framhaldsskólastigi, enda hluti af hinu almenna skólakerfi í landinu. Fræðsluráð sjávarútvegsins verði stofnað og verði faglegur tengiliður milli skólans og atvinnulífsins, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og sjútvrn. Síðan fari einn skólastjóri með yfirstjórn skólans en í skólanum séu starfandi fimm deildir: Vélstjórnardeild, fiskvinnsludeild, skipstjórnardeild, fiskeldisdeild og endurmenntunardeild. Í raun og veru eru þetta sömu sér- og faggreinar sem eru starfandi í þessum skólum í dag nema gert var ráð fyrir því að sérstök endurmenntunardeild væri starfandi og hún tæki við því hlutverki sem starfsfræðslunefnd sjávarútvegsins er með á sinni könnu, þ.e. endurmenntun fyrir starfsfólk í fiskiðnaði sem var hluti af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins á sínum tíma. Líklega er búið að mennta og fræða á bilinu sex til sjö þúsund manns á þessum námskeiðum. Það væri eðlilegt að hafa þetta hluta af framhaldsskólakerfinu og flytja þetta fyrirkomulag inn í slíkan, sterkan sjávarútvegsskóla.
    Því miður er það svo að nemendum hefur fækkað í þessum þremur skólum, þ.e. Vélskólanum, Stýrimannaskólanum og Fiskvinnsluskólanum á undanförnum árum. Árið 1980 voru 331 nemandi í Vélskóla Íslands en árið 1992 voru þar 195 nemendur. Í Stýrimannaskólanum voru árið 1980 138 nemendur en árið 1992 76. Í Fiskvinnsluskólanum voru árið 1980 55 nemendur og urðu flestir á árunum 1982 og 1990 60 nemendur en voru árið 1992 37. Þetta er fækkun í þessum þremur skólum upp á 216 nemendur eða 41%, en á sama tíma gerist það, og tengist kannski örlítið því sem menn voru að ræða hér áðan um framhaldsskólann, að nemendum í framhaldsskólunum á árunum 1980 til ársins 1992 fjölgar úr 11.147 í 16.060. Þarna er um gríðarlega fjölgun að ræða. Á sama tíma verður í þessum verkmenntaskólum tveimur veruleg fækkun eða í kringum 41%.
    Hver ástæðan er er auðvitað erfitt að fullyrða en ég er sannfærður um að stór hluti þeirra skýringa er sú að þessir skólar hafa því miður ekki fylgst með kalli tímans, þeir hafa ekki aðlagað sig að þeim breyttu aðstæðum, þeir hafa búið við fjárhagslega örðugleika og hafa ekki verið í stakk búnir til þess að taka á móti þeim nýju hugmyndum og breytingum sem hafa átt sér stað í íslensku atvinnulífi og þar af leiðandi ekki aðlagað sig þeim aðstæðum á undanförnum árum. Því hafa þessir skólar ekki verið eins aðlaðandi fyrir unga nemendur og þeir voru hér áður þrátt fyrir að meginvaxtarbroddur í atvinnulífinu sé í íslenskum sjávarútvegi.
    Húsnæðisaðstaða þessara þriggja skóla hefur verið nokkuð mismunandi. Reyndar má segja að húsnæðisaðstaða Stýrimannaskólans og Vélskólans sé allþokkaleg, ekki síst þegar haft er í huga að nemendum hefur fækkað um 200 á síðustu 12 árum. Það er auðvitað rýmra um þá sem eftir eru en áður var. Þar að auki hefur verknámið verið byggt að nokkru leyti upp í þessum skólum. Hins vegar hefur Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði búið við mjög þröngan húsakost, sérstaklega hvað bóknámið varðar. En þar var byggt myndarlegt verknámshús sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill. að verði áfram starfrækt og verði hluti af því skólahúsnæði sem hinn nýi sameinaði sjávarútvegsskóli hefur til umráða. Í dag er það þannig að bæði í Stýrimannaskólanum og Vélskólanum er verið að kenna hálfsetnum bekkjum sömu námsgreinarnar á sitt hvorri hæðinni í sama húsinu. Með því að sameina þessa skóla í einn öflugan skóla væri hægt að ná fram verulegum sparnaði í kennslukostnaði, betri nýtingu á tækjum og búnaði og ekki síst að gera námið markvissara og sterkara en það er í dag.
    Starfsemi þessara skóla er að mörgu leyti mjög nátengt og það er skynsamlegt og hagkvæmt að okkar viti að reka skólana sem einn skóla þannig að spara megi í yfirstjórn, auka námsframboð, styrkja og

efla menntun og gefa nemendum skólanna fleiri og fjölbreyttari tækifæri til áframhaldandi náms. Þannig mun skólinn skila betur menntuðum starfsmönnum til starfa í íslenskum sjávarútvegi og íslensku þjóðinni til hagsbóta um leið.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.