Sjávarútvegsskóli

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 15:24:55 (6543)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni að ég var því miður ekki viðstaddur upphaf hans ræðu. Það er afar miður. Ég reyni yfirleitt að hlusta á þingmanninn hvenær sem ég hef færi á. En spurning mín stafaði af því að í Morgunblaðinu 16. mars 1993 vill svo til að þrír gagnmerkir menn, skólameistarar þessara þriggja skóla, skrifa grein og þar taka þeir staðhæfingar í grg. hv. flm., og hrekja þær lið fyrir lið. Þeir segja síðan, með leyfi forseta: ,,Þessi þáltill. er illa undirbúin og vanhugsuð.`` Þeir segja jafnframt að það hafi vakið furðu að þeir sem standa að slíkri tillögu og þál. sem getur orðið afdrifaríkt mál fyrir menntun í undirstöðuatvinnuvegi okkar Íslendinga, skuli ekki kynna sér betur forsendur hjá þeim sem standa þessum stofnunum næst en fara þess í stað algerlega óundirbúið með villandi upplýsingar og rangt mál inn á Alþingi Íslendinga og í fjölmiðla.
    Nú er það svo að ég hef mikla trú á skólamönnum og tel að það eigi að fara eftir þeim sem best og þess vegna vildi ég spyrja hv. flm. hvort honum finnst ekki rétt eftir að hafa kynnt sér grein þessara heiðursmanna að draga tillöguna til baka og leggja hana síðan fram aftur þegar hann hefur komist að því sem sannara reynist.