Sjávarútvegsskóli

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 15:28:28 (6545)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Þessi þáltill. fjallar um þær undirstöðustofnanir sem þjóðfélagið ætlast til að sinni þáttum er lúta að menntun í sjávarútvegi. Það er út af fyrir sig ágætt að efna til umræðu um þessar stofnanir en þá væri æskilegt að það væri á þeim grunni að menn ætluðu að sú umræða færi til jákvæðs árangurs.
    Tillagan sem hér er um að ræða er afturför að mínu mati og má færa mörg rök að því. Í uppsetningu tillögunnar er ruglað saman ýmsum atriðum og svo virðist sem tillögumenn hafi hvorki kynnt sér grundvallaratriði í uppbyggingu viðkomandi skóla né hvaðan þeir koma sem stunda nám í þeim og hvernig þeir skila sér áfram inn í námskerfið, ýmist beint úr öðru námi eða utan úr atvinnulífinu. Látið er að því liggja að aðsókn hafi dregist saman í ákveðnum þáttum sjávarútvegsskólanna vegna aðstöðu þeirra sjálfra en það er ekki rétt. Það eru rök fyrir því að þar sem hefur dregið úr aðsókn er það vegna þess þjóðfélagið í heild mælir ekki með slíku námi. Menntun í sjávarútvegsfræðum, hvort sem það er í fiskvinnslu, skipstjórnarmenntun eða vélstjórnarmenntun, hefur dregist saman vegna þess að ungt fólk er ekki hvatt til þess að öllu jöfnu af foreldrum sínum að fara í nám í þessum skólum. Það er hvatt til þess að fara í nám í öðrum greinum. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að fjöldi nemenda er sveiflukenndur, sérstaklega í Stýrimannaskólanum.
    Það er lögð áhersla á það í þáltill. að draga úr sérhæfingu hvers skóla. Öðruvísi verður tillagan ekki skilin því að fyrst og fremst eru þetta þrír sérskólar á sérsviði sem hafa markað sér sess með því að sinna sínu fagi innan sjávarútvegsfræðslunnar eins vel og kostur er á. Það er alveg augljóst að þetta er ekki hugsað ofan í kjölinn með tilliti til þess að ná árangri fyrir þessar stofnanir í heild.
    Það er alveg augljóst að mínu mati að með sameiningu slíkra skóla í eina stofnun mundi draga úr úr sérkennslu og mikilvægi þeirra sem sérskóla á hverju sviði. Reynslan hefur líka sýnt sérstaklega á undanförnum árum að það er enn meiri ástæða til þess en áður að fara einmitt út í sérkennsluna og sérstöðuna í hverjum skóla fyrir sig. Það sem liggur fyrir að verður að gera er að það verður að styrkja hvern einasta af þessum skólum og styrkja sjálfstæði þeirra frá öðrum þó svo þeir hljóti að hafa samstarf um ýmsa þætti í sínu námi.
    Það vekur athygli að í þáltill. er ekkert fjallað um skipstjórnarskólana utan Reykjavíkursvæðisins, hvorki á Norðurlandi né Suðurlandi. Það er eins og þeir hafi gleymst og það er eins og ýmislegt fleira hafi gleymst í þessu máli. Það er raunar fullyrt í þáltill. að húsnæði Sjómannaskólans sé illa nýtt. Það er alrangt. Húsnæði Sjómannaskólans er ekki illa nýtt. Það mætti tína til mörg atriði.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði í grein í Morgunblaðinu fyrr í þessum mánuði eftir skólastjóra þessara þriggja skóla sem málið varðar: Björgvin Þór Jóhannsson, Guðjón Ármann Eyjólfsson og Sigurð B. Haraldsson. Það er svolítið merkilegt að stjórnendur þessara þriggja skóla eru sammála um það í niðurstöðu sinni að þessi þáltill., sem hv. þm. Finnur Ingólfsson mælti fyrir, sé bæði illa undirbúin og vanhugsuð. Og ef hv. þm. Finnur Ingólfsson ber mikla virðingu fyrir þessum mönnum, eins og hann sagði í sinni ræðu, þá hlýtur hann að taka mark á því sem þeir segja í þessu efni. En þetta er niðurstaða þeirra í allítarlegri umfjöllun um þessa tillögu sem er full af röngum fullyrðingum.
    Það getur verið sjónarmið hv. flytjenda tillögunnar að það eigi að steypa þessum skólum saman í eitt miðstýringarapparat en það hefur sýnt sig hvarvetna í námi í vélstjórnarfræðum og skipstjórnarfræðum að þar sem það er sett inn á almennu brautina og sérsviðið dregið undan, þá dregur það verulega úr aðsókn. Ég get nefnt sem dæmi að þegar Vélskóli Vestmannaeyja var lagður af og gerður að braut í Framhaldsskóla Vestmannaeyja, þá fækkaði nemendum úr um það bil 20 á ári niður í 1--2. Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum hefur hins vegar haldið sjálfstæði sínu og sérstöðu og hefur gengið vel og skilað árangri fyrir landið i heild því að þangað sækja menn úr öllum landshlutum jafnvel þó svo nám sé komið á svipaðan hátt uppi á Norðurlandi.
    Þannig hefur reynslan sýnt að sérstaða þessara skóla er styrkur þeirra. Þó svo menn vilji vekja máls á sameiningu eins og hér er gert, þá segir það æðimikið, sem ég benti á, virðulegi forseti, í niðurstöðu skólastjóra þessara þriggja skóla að þessi þáltill. sé illa undirbúin og vanhugsuð.