Sjávarútvegsskóli

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 15:37:09 (6546)


     Flm. (Finnur Ingólfsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Árna Johnsens að þáltill. væri full af röngum fullyrðingum. Þáltill. er lítið annað en sú greinargerð og þær tillögur sem samdar voru árið 1986 og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi voru nokkuð sammála um og skólastjórar skólanna á þeim tíma voru nokkuð sammála um. Hins vegar fór minna fyrir því í máli hv. þm. að hann gerði grein fyrir því hverjar þessar röngu fullyrðingar væru og hefði verið fróðlegt að fá að heyra slíkt.
    Hins vegar bar ræða hans öll þess merki að hann hefur ekki einu sinni lesið þáltill. Hann hafði því sökkt sér þetta djúpt ofan í hana þar sem fullyrðingar hans um að það sé verið að draga úr sérhæfingu með þessari sameiningu sem hér er lögð til er alröng. Í fyrsta lagi vegna þess að ef hv. þm. hefði flett upp á bls. 5 í þáltill. og litið á það skipulag sem gert er ráð fyrir að byggja upp með slíkum skóla sem sjávarútvegsskóli á framhaldsskólastigi yrði, þá er einmitt gert ráð fyrir meiri sérhæfingu en er í skólunum í dag vegna þess að það er gert ráð fyrir því að þessi skóli starfi á ákveðnum brautum: vélstjórnarbraut, fiskvinnslubraut, skipstjórnarbraut og fiskeldisbraut ásamt endurmenntunarbraut sem ég rakti í minni framsögu áðan og ég tel mikilvægt að koma þarna inn. Tillagan gerir hins vegar ráð fyrir sameiginlegu bóknámi að langstærstum hluta til þar sem 40--45% af kennsluskránni er sameiginleg öllum þessum skólum. Þess vegna er eðlilegt að það sé tekið saman og kennslukraftar og húsnæði nýtt í þeim efnum.
    Varðandi það að ekkert sé minnst á þá stýrimannaskóla og vélskóla sem starfa úti um land þá er það alveg hárrétt, enda eru það allt saman sjálfstæðar stofnanir og ekki hluti af þessu, en þeir gætu auðvitað verið í samstarfi og samvinnu við nýjan sjávarútvegsskóla sem þarna er talað um.