Alþjóðleg samvinna um fullnustu refsidóma

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 13:51:07 (6555)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma á þskj. 776. Í því er lagt til að lögfest verði ákvæði sem nauðsynleg eru til að unnt sé að fullgilda tvo samninga um fullnustu refsidóma sem gerðir hafa verið á vegum Evrópuráðsins og undirritaðir voru af hálfu Íslands 19. sept. 1989, þ.e. samning um alþjóðlegt gildi refsidóma sem gerður var í Haag 28. maí 1970 og samning um flutning dæmdra manna sem gerður var í Strassborg 21. mars 1983.
    Hæstv. utanrrh. mun á næstunni leggja fram þáltill. um fullgildingu þessara samninga. Í frv. er auk þess gert ráð fyrir að unnt verði að fullnægja hér á landi öðrum erlendum viðurlagaákvörðunum er falla undir framangreinda samninga samkvæmt tvíhliða eða marghliða samningum sem kunna að verða gerðir í framtíðinni við erlend ríki og einnig samkvæmt einstökum dómum eða ákvörðunum sem íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi hafa hlotið í ríki sem ekki hefur gert samning við Ísland um gagnkvæma fullnustu refsidóma. Jafnframt eru hliðstæð ákvæði um heimildir til að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum erlendis.
    Megintilgangur Evrópuráðssamninganna er að gera fullnustu viðurlagaákvörðunar mögulega í öðru ríki en þar sem ákvörðunin var tekin. Fullnusturíki er þá oftast heimaríki dómþola. Að baki samningunum búa mannúðarsjónarmið og refsigæslusjónarmið. Það eru annars vegar hagsmunir dómþola að fá að afplána refsingu í heimalandi sínu og jafnframt það sjónarmið að með þeim hætti sé auðveldara að vinna að félagslegri endurhæfingu hans og búa hann undir komu út í þjóðfélagið á ný. Hins vegar er það sjónarmið að samningarnir stuðli að því að unnt sé að láta mann, sem flúið hefur land eða sætt útivistardómi, taka út refsingu sem hann hefur hlotið í öðru ríki. Á þessu sviði sem og mörgum öðrum hefur þörf á alþjóðlegri samvinnu aukist undanfarin ár í kjölfar aukinna samskipta og ferðalaga milli ríkja sem m.a. leiða til þess að afbrot eru oftar en áður framin af mönnum sem eru ekki búsettir í því ríki sem afbrotið er framið í.
    Efni samninganna er nátengt og er því lagt til að sett verði í ein lög ákvæði sem gera það mögulegt að fullgilda þá báða. Efni þeirra skarast að nokkru leyti en að öðru leyti hafa þeir hvor fyrir sig séreinkenni þannig að gild rök eru til þess að fullgilda þá báða.
    Eldri samningurinn hefur mun víðtækara gildissvið en sá yngri. Þannig á hann við um fullnustu fleiri viðurlagategunda, þ.e. refsivistar, öryggisráðstafana, fésekta, eignaupptöku og réttindasviptinga, en yngri samningurinn tekur aðeins til refsivistar og öryggisráðstafana. Í eldri samningnum eru ítarlegar reglur um málsmeðferð og skilyrði fyrir flutningi á fullnustu. Samkvæmt honum er meginreglan sú að samningsríki sé skylt að verða við beiðni um fullnustu nema einhver af þeim synjunarástæðum sem tilgreindar eru í samningnum eigi við. Í samningnum um flutning dæmra manna eru mun einfaldari reglur sem veita svigrúm til mats. Samkvæmt honum er samningsríki aldrei skylt að verða við beiðni um flutning á fullnustu. Samkvæmt eldri samningnum getur eingöngu það ríki þar sem dómur er kveðinn upp óskað eftir flutningi á fullnustu, en samkvæmt hinum samningnum geta einnig ríki sem dómþoli er ríkisborgari í og dómþoli sjálfur sett fram slíka beiðni. Það er ófrávíkjanlegt skilyrði samkvæmt yngri samningnum að dómþoli samþykki flutning en það er ekki áskilið í eldri samningnum. Hvorugur samninganna gerir ráð fyrir að ríki geti verið skylt að leggja fram beiðni um flutning á fullnustu.
    Báðir samningarnir byggja á þeirri forsendu að verknaður sem viðurlög eru ákvörðuð fyrir, verði að vera refsiverður, bæði í dómsríki og fullnusturíki og á þeirri meginreglu að ekki skuli endurskoða niðurstöðu hins erlenda dómstóls um sakarmat. Samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma er meginreglan sú að dómstólar hvers ríkis þar sem fullnusta á að fara fram eigi að ákvarða ný viðurlög í stað þeirra sem dæmd hafa verið í erlenda ríkinu í samræmi við innlend, en samkvæmt hinum samningum getur fullnusturíkið einnig ákveðið að halda áfram fullnustu þeirra viðurlaga sem dæmd hafa verið í erlenda ríkinu. Báðir samningarnir byggjast á því að ekki sé heimilt að þyngja viðurlög frá því sem ákvarðað hefur verið í hinum erlenda dómi og að taka skuli tillit til viðurlaga sem þegar hefur verið fullnægt í hinu erlenda ríki. Eins og kemur fram í athugasemdum með frv. er mun víðtækari aðild að yngri samningnum en þeim eldri. Búast má þó við að aðildarríkjum að eldri samningnum eigi eftir að fjölga á næstu árum þar sem mörg ríki hafa undirritað hann. Er það í samræmi við þróun alþjóðasamvinnu á þessu sviði sem er í þá átt að auka möguleika á fullnustu fleiri viðurlaga en eingöngu viðurlaga sem fela í sér óskilorðsbundna refsivist.
    Samkvæmt íslenskum lögum er ekki heimilt að fullnægja erlendum refsidómum hér á landi nema dómum sem falla undir ákvæði laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð. Frv. mun ekki hafa áhrif á gildi þessara laga. Lögin um fullnustu norrænna refsidóma gilda ekki um öryggisráðstafanir, sbr. VII. kafla almennra hegningarlaga, og því eiga samningarnir við um þær í samskiptum Norðurlandaþjóðanna innbyrðis.

    Frv. skiptist í fjóra hluta. Í 1. hluta, 1.--5. gr., eru ákvæði um gildissvið. Í 1. gr. er ákvæði um það hvaða erlendum viðurlagaákvörðunum sé heimilt að fullnægja hér á landi á grundvelli samninga við önnur ríki og gagnkvæmt hvaða íslenskum viðurlagaákvörðunum væri heimilt að fullnægja erlendis. Þegar fullnusta fer fram samkvæmt öðrum samningum en Evrópusamningunum tveimur er gert ráð fyrir að dómsmrn. ákveði hvernig fari um könnun þess, hvort fullnægja megi erlendri ákvörðun hér á landi og íslenskri ákvörðun erlendis. Er gert ráð fyrir að ekki verði þörf á sérstakri löggjöf þótt aðrir samningar um flutning á refsifullnustu verði fullgiltir af Íslands hálfu. Í 3. gr. er lagt til að heimilt verði að fullnægja erlendri viðurlagaákvöðun hér á landi og íslenskri ákvörðun erlendis þótt ekki sé fyrir hendi samningur við hlutaðeigandi ríki enda mæli sérstakar ástæður með því. Fullnusta á erlendum viðurlögum hér á landi er bundin því skilyrði að dómþoli sé íslenskur ríkisborgari eða með fasta búsetu hér á landi og gagngert er gert ráð fyrir að eingöngu verði heimilt að óska eftir fullnustu á íslenskum viðurlögum erlendis þegar dómþoli er ríkisborgari hlutaðeigandi lands eða með fasta búsetu þar. Í 4. gr. kemur fram að ákvæði frv. gilda ekki um fullnustu viðurlaga sem falla undir lög nr. 69/1963, um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp á Norðurlöndunum.
    2. hluti samningsins fjallar um fullnustu erlendra viðurlagaákvarðana hér á landi. Hann skiptist í fjóra kafla. Í I. kafla eru ákvæði um fullnustu viðurlagaákvarðana sem falla undir samninginn um alþjóðlegt gildi refsidóma. Í undirkafla A er fjallað um skilyrði þess að heimilt sé að fullnægja evrópskum refsidómi hér á landi. Í undirkafla B eru ákvæði um það hvernig beiðni um fullnustu skuli könnuð og um meðferð mála í því sambandi. Í samræmi við samninginn er gert ráð fyrir að beiðni um fullnustu verði send dómsmrn. sem gerir nokkurs konar forkönnun á því hvort heimilt sé að fullnægja ákvörðun samkvæmt samningnum sbr. 9. gr. frv. Ef það verður niðurstaðan skal ráðuneytið senda ríkissaksóknara málið sem leggur það fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til endanlegrar ákvörðunar um hvort heimilt sé að fullnægja ákvörðun hér á landi og til ákvörðunar nýrra viðurlaga í samræmi við íslensk lög. Í undirkafla C eru ákvæði um í hvaða tilvikum og að uppfylltum hvaða skilyrðum sé heimilt að beita dómþola þvingunaraðgerðum svo sem handtöku eða gæsluvarðhaldi vegna beiðni um flutning á fullnustu. Í undirkafla D eru sérákvæði um málsmeðferð þegar beðið er um fullnustu á útivistardómi eða dómi þar sem dómþoli hefur ekki verið viðstaddur réttarhöld í málinu.
    Í II. kafla 2. hluta eru ákvæði um það þegar fullnægt er hér á landi viðurlagaákvörðun á grundvelli samnings um flutning dæmra manna. Í 22. gr. eru ákvæði um skilyrði fyrir fullnustu hér á landi samkvæmt samningnum. Samkvæmt ákvæðunum skal dómsmrn. kanna hvort skilyrði séu til að verða við beiðni um fullnustu. Dómsmrn. getur einnig óskað eftir því við erlend ríki að fullnusta fari fram hér á landi. Það er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir fullnustu hér á landi að dómþoli sé íslenskur ríkisborgari eða með fasta búsetu hér.
    Eins og getið hefur verið um er í samningnum gert ráð fyrir tvemur aðferðum við flutning á fullnustu, þ.e. annaðhvort verði haldið áfram að fullnægja þeim viðurlögum sem dæmd hafa verið í hinu erlenda ríki eða ný viðurlög verða ákveðin í samræmi við lög fullnusturíkisins. Samningsríkð getur með yfirlýsingu til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins einskorðað sig alfarið við aðra leiðina, en það hefur í för með sér að samningurinn hefur ekki gildi milli ríkja sem bundið hafa sig hvort við sína leiðina. Ekki er lagt til að Ísland notfæri sér þessa heimild.
    Í III. kafla eru ákvæði um það að þegar fullnusta fer fram samkvæmt öðrum samningum en alþjóðlegt gildi refsidóma og um flutning dæmdra manna og þegar fullnægt er hér á landi erlendri viðurlagaákvörðun án þess að fyrir hendi sé samningur um fullnustu refsidóma. Þegar um er að ræða samning um gagnkvæma fullnustu er gert ráð fyrir að dómsmrn. ákveði á grundvelli samkomulags við erlent ríki hvernig ákvæðum frv. verði beitt í samskiptum ríkjanna. Þegar um er að ræða fullnustu án þess að samningur liggi til grundvallar, ákveður dómsmrn. hvort ný viðurlög skuli ákvörðuð hér á landi og hvort mál skuli lagt fyrir dóm, sbr. 27. gr. frv.
    Í IV. kafla eru ýmis sameiginleg ákvæði um málsmeðferð þegar erlendum viðurlagaákvörðunum er fullnægt hér á landi. Samkvæmt 28. gr. skulu lög um meðferð opinberra mála gilda um meðferð mála og beitingu þvingunarúrræða eftir því sem við getur átt og að því leyti sem ekki er annað tekið fram í frv. Þegar mál er lagt fyrir dóm skal ekki gefa út ákæru í málinu. Ákvörðun dómstóls um fullnustu viðurlaga og ný viðurlög skal tekin með dómi sbr. 29. gr. Samkvæmt 30. gr. er ekki heimilt að grípa til aðgerða gagnvart dómþola hér á landi fyrir annað afbrot en beiðni er fullnustu varðar.
    3. hluti frv. fjallar um fullnustu íslenska viðurlagaákvæða erlendis. Í I. kaflanum eru ákvæði um fullnustu samkvæmt samningum um alþjóðlegt gildi refsidóma. Samkvæmt 35. gr. skal dómsmrn. ákveða hvort fara eigi þess á leit við samningsríki að íslenskum viðurlögum verði fullnægt í því ríki. Í því sambandi skal ráðuneytið gæta þess að skilyrðum samnings sé fullnægt.
    Í II. kafla, 38. gr., er fjallað um fullnustu samkvæmt samningnum um flutning dæmra manna. Á sama hátt og kveðið er á um í 35. gr. skal dómsmrn. ákveða hvort beiðni skuli lögð fram. Hliðstæð ákvæði gilda um fullnustu samkvæmt öðrum samningum eða einstökum ákvörðunum þegar ekki er í gildi samningur við viðkomandi ríki.
    Í IV. kafla eru sameiginleg ákvæði um málsmeðferð við fullnustu íslenskra viðurlagaákvarðana erlendis.

    Í 4. hluta frv., 43.--45. gr., eru síðan ákvæði um gildistöku og heimild til setningar reglugerðar. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Ekki er þó heimilt að flytja fullnustu á grundvelli samnings fyrr en hann hefur öðlast gildi milli Íslands og viðkomandi ríkis. Samkvæmt ákvæðum Evrópusamninganna verður það ekki fyrr en þremur mánuðum eftir að fullgildingarskjal Íslands hefur verið afhent. Í samræmi við samninginn um alþjóðlegt gildi refsidóma er gert ráð fyrir að ekki verði heimilt að fullnægja ákvörðun á grundvelli samningsins ef hún hefur verið tekin áður en samningurinn öðlaðist gildi milli Íslands og hlutaðeigandi ríkis. Þó er lagt til að dómsmrn. geti samkvæmt samningi við hlutaðeigandi ríki ákveðið að heimilt sé að fullnægja ákvörðun sem tekin hefur verið fyrir það tímamark. Samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna skiptir ekki máli hvenær ákvörðun var tekin. Ekki er heldur um sérstök tímamörk að ræða varðandi heimild til fullnustu skv. 3. gr. frv. þegar ekki er fyrir hendi samningur um refsifullnustu við hlutaðeigandi ríki.
    Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.