Almenn hegningarlög

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 14:04:12 (6556)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum á þskj. 775. Frv. er lagt fram sem fylgifrv. með frv. til laga um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma. Meginefni þess varðar breytingar á 8. gr. almennra hegningarlaga um heimildir til að reka sakamál hér á landi þegar hlutaðeigandi maður hefur hlotið refsidóma í öðru ríki vegna sama brots. Breytingar á þessari grein, sbr. 4.--6. gr. frv., eru taldar nauðsynlegar vegna væntanlegrar fullgildingar á samningi frá 28. maí 1970, um alþjóðlegt gildi refsidóma.
    Í 1.--3. gr. frv. er auk þess lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á ákvæðum I. kafla almennra hegningarlaga til leiðréttingar og skýringar. Samningurinn frá 28. maí 1970 um alþjóðlegt gildi refsidóma skiptist í fjóra hluta eins og gerð hefur verið grein fyrir í umræðum um það mál.
    Í 3. mgr. 8. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um ,,ne bis in idem`` áhrif erlendra refsidóma. Ákvæðið er efnislega skylt 53. gr. samningsins, en gildissvið þess er þrengra þar sem það takmarkast við að sakborningur hafi verið sýknaður, refsidómi yfir honum fullnægt eða refsing felld niður í því ríki sem brot var framið í. Vegna ákvæða 53. gr. samningsins er nauðsynlegt að rýmka gildissvið 8. gr. Er í 5. gr. frv. lagt til að í stað 3. mgr. 8. gr. hegningarlaga komi sjálfstæð grein sem verði 8. gr. a. Greinin er samin með hliðsjón af 53. gr. samningsins, en felur einnig í sér efnisatriði núgildandi 3. mgr. 8. gr.
    Í frv. eru enn fremur lagt til vegna þeirra breytinga á 3. mgr. 8. gr. almennra hegningarlaga, sem frv. felur í sér, að núverandi 4. mgr. 8. gr. laganna verði sjálfstæð grein, 8. gr. b, og ákvæðið verði rýmkað efnislega þannig að í stað þess að taka eigi tillit til refsinga, sem maður hafi hlotið í öðru ríki þegar refsing er ákveðin hér á landi, skuli taka tillit til viðurlaga sem hann hefur hlotið. Með þessu móti er heimilt að taka tillit til viðurlaga sem ekki teljast til refsinga svo sem öryggisráðstafana og upptöku eigna. Er þessi breyting gerð til samræmis við ákvæði samningsins.
    Aðrar breytingar en hér hafa verið raktar sbr. 5. og 6. gr. eru ekki taldar nauðsynlegar vegna ákvæða III. hluta samnings um alþjóðlegt gildi refsidóma.
    Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.