Samningsveð

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 14:16:37 (6557)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samningsveð. Upphafleg drög að frv. voru samin af prófessor Þorgeiri Örlygssyni. Af hálfu dómsmrn. hefur verið leitað umsagnar fjölmargra aðila svo sem Lögmannafélags Íslands, sýslumannsins í Reykjavík, sjútvrn., landbrn., viðskrn., réttarfarsnefndar, Verslunarráðs Íslands, Landssambands ísl. iðnrekenda.
    Frv. hefur síðan að fengnum athugasemdum verið yfirfarið af þeim prófessor Þorgeiri Örlygssyni og prófessor Markúsi Sigurbjörnssyni, m.a. með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram komu á undirbúningsstigi málsins.
    Við samningu frv. var nokkur hliðsjón höfð af þeirri endurskoðun sem Norðmenn gerðu á sínum veðlögum árið 1980, bæði hvað varðar efni réttarreglna og framsetningu þeirra. Þá hefur og verið litið til þeirra breytinga sem Danir hafa á undanförnum árum gert á réttarreglum þeim um veðsetningar sem fram koma í dönsku þinglýsingalögunum. Að öðru leyti er frv. sniðið að íslenskum aðstæðum og er nánar gerð grein fyrir því í skýringum við einstakar greinar frv.
    Frv. þessu fylgir frv. til breytinga á þinglýsingalögum. Mælir það frv. fyrir um stofnun sérstakrar lausafjárskrár sem nær til landsins alls og halda skal við embætti sýslumannsins í Reykjavík. Eru ástæður þess nánar raktar í athugasemdum með því frv. og í athugasemdum við 1. gr. frv. þessa og vísast til þeirra umsagna.
    Þetta frv. hefur að markmiði að bæta úr vanköntum þeim sem eru á gildandi íslenskum veðlögum og laga veðreglurnar að breyttum atvinnu- og viðskiptaháttum en gildandi lög um veð eru að stofni til frá árinu 1887. Munu flestir sem til þekkja sammála um að veðlögin með þeim breytingum sem á þeim hafa verið gerðar nægi ekki til að svara nútímaþörfum. Er þá einkanlega átt við það að gildandi íslenskar réttarreglur á sviði veðréttar svari hvorki þörfum atvinnuveganna til aukinna veðsetningarheimilda og þar með eftirspurn þeirra eftir lánsfé, né heldur veiti reglurnar lánastofnunum og öðrum lánveitendum nægjanlegt öryggi við lánveitingar. Þá má og segja að gildistaka nýrra laga um aðför og nauðungarsölu 1. júlí 1992 kalli á ýmsar breytingar á reglum um samningsveðsetningar eins og nánar er rakið í skýringum við einstakar frumvarpsgreinar.
    Í raun er efni íslensku veðlaganna frá 1887 afar fábrotið, bæði hvað varðar efnisreglur um veðsetningar og reglur um fullnustu veðkrafna. Þegar frá eru talin ákvæði 6.--8. mgr. 4. gr. laganna um heimild til lækkunar þinglestrar- og stimpilgjalda og um undanþágur frá slíkum gjöldum, má flokka efni laganna með eftirfarandi hætti:
    a. Fyrst er að geta ákvæða laganna um handveð. Er þar annars vegar um að ræða þá réttarfarsreglu 1. gr. laganna, sem veitir handveðhafa beina uppboðsheimild, en lagaákvæði þetta féll reyndar úr gildi 1. júlí 1992 við gildistöku laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Hins vegar er hvað handveð varðar það efnisákvæði 2. gr., að lánardrottinn missi eigi kröfu sína, þótt handveð glatist, nema vangæslu hans sé um að kenna.
    b. Í annan stað hafa veðlögin að geyma reglur um bann við allsherjarveðsetningu, sbr. ákvæði 1. mgr. 4. gr., og reglur um bann við sjálfsvörsluveðsetningu í heildarsafni muna, sbr. 2. mgr. 4. gr.
    c. Í þriðja lagi hafa lögin að geyma ýmsar undantekningar frá reglu 2. mgr. 4. gr. um bann við sjálfsvörsluveðsetningu í heildarsafni muna. Er hér annars vegar um að ræða ákvæði 3.--4. mgr. 4. gr. og 9. gr., og hins vegar ákvæði 5. og 6. gr.
    Um önnur atriði en þau, sem greind eru í a--c-liðum hér að framan, fjalla íslensku veðlögin ekki en rétt er að taka fram að mikilvægar veðsetningarheimildir er að finna í sérlögum, t.d. lögum nr. 47/1972, um veðtryggingu iðnrekstrarlána, og lögum nr. 21/1966, um skrásetningu réttinda í loftförum.
    Þörfin fyrir setningu nýrra veðlaga hér á landi er því mikil og eru það því einkum eftirtalin atriði sem gera það aðkallandi:
    Í fyrsta lagi er það svo, að ákvæði íslenskrar löggjafar um samningsveð er að finna á víð og dreif í löggjöfinni, og eru ákvæði þessi frá ýmsum tímum. Hið elsta þessara ákvæða var lengi opið bréf frá 11. desember 1869 handa Íslandi, er nákvæmar kveður á um innheimtu á kröfum með forgangsréttindi hjá þeim mönnum, sem hafa látið aðra fá sjálfsvörsluveð í lausafé sínu, en ákvæði þetta féll reyndar úr gildi 1. júlí 1992 við gildistöku laga nr. 90/1989. Nýjasta breyting, sem gerð hefur verið á veðlögunum, er hins vegar frá árinu 1989, sbr. lög nr. 9/1989. Má telja af því réttarbót, ef helstu ákvæðum íslenskrar löggjafar um samningsveð verður safnað saman í einn lagabálk.
    Í öðru lagi ber að hafa í huga, að íslensku veðlögin verða tæpast talin almenn veðlög í eiginlegum skilningi, svo sem yfirlitið í kafla III ber með sér, því lögin láta ósvarað mörgum helstu álitaefnum á sviði veðréttarins. Er í nýjum veðlögum full þörf á að taka til úrlausnar ýmis veðréttarleg álitaefni, sem réttarframkvæmdinni einni hefur verið látið eftir að móta.
    Í þriðja lagi er það svo, að breytingar þær, sem gerðar hafa verið á veðlögunum frá setningu þeirra og áður eru nefndar, eru margar til komnar vegna þrýstings frá einstöku atvinnugreinum, sem hafa mikla þörf fyrir rekstrarfé, t.d. sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði, og óskað hafa eftir auknum heimildum til þess að veðsetja rekstrartæki sín og vörubirgðir. Hefur löggjafinn með breytingum þessum smátt og smátt verið að rýmka undanþágurnar frá ákvæðum 2. mgr. 4. gr. um bann við sjálfsvörsluveðsetningu í heildarsafni muna.
    Heimildin nær hins vegar ekki til þeirra sem reka hótel, veitingahús, verslanir og líkamsræktarstöðvar, svo einhver dæmi séu nefnd.
    Þótt lagabreytingar þessar hafi án efa komið þeim atvinnugreinum til góða, sem breytingarnar gagngert varða, og þær því verið réttlætanlegar á sínum tíma, verður ekki fram hjá því horft, að þær hafa þegar til lengri tíma er litið leitt til þess að einstakar atvinnugreinar í landinu búa við ólík kjör hvað varðar veðsetningarheimildir. Verður sá munur, sem nú er á aðstöðu atvinnugreinanna að þessu leyti, tæpast réttlættur. Má og benda á dæmi þess úr réttarframkvæmdinni, að óljósar heimildir í þessum efnum hafa haft óheppilegar afleiðingar í för með sér. Virðist við framangreindar breytingar á veðlögunum meira hafa verið hugsað um að leysa bráðan vanda tiltekinna atvinnugreina eða veita ákveðnum lánveitendum aukið öryggi, í stað þess að huga að heildstæðum lausnum, er kæmu öllum jafnt til góða.
    Í fjórða lagi er það svo, að með breyttum atvinnu-og viðskiptaháttum hafa skapast nýjar aðstæður og þarfir, sem gildandi lög svara ekki. Þá hafa orðið til réttindi, sem höfundar veðlaganna árið 1887 leiddu eðlilega ekki hugann að, hvort og þá jafnframt að hvaða marki unnt væri að veðsetja, eins og t.d. greiðslumark í landbúnaði og veiðiheimildir í sjávarútvegi. Er full þörf á því að bregðast við slíkum nýjum aðstæðum og setja reglur um veðsetningu slíkra réttinda, sem ekki þekktust áður.
    Eins og fram hefur komið er meginmarkmið þessa frv. að aðlaga íslensk veðlög nútíma atvinnu- og viðskiptaháttum en það er ekki hægt að segja að samþykkt frv. komi til með að bylta ríkjandi réttarástandi. Um sumt hvílir frv. á sjónarmiðum og reglum sem hér á landi hafa verið taldar gilda, lögfestar og ólögfestar. Á það við um velflestar reglur I. og II. kafla en þó ekki allar. Um önnur atriði hefur frv. ýmsar breytingar í för með sér frá gildandi rétti. Á það einkum við um ýmsar greinar III. kafla frv. Það á annars vegar við um heimild manna til að veðsetja lausafé ósundurgreint með fasteign. Felst í því veruleg rýmkun þeirrar reglu sem stundum hefur verið kölluð verksmiðjuverðsregla í 6. gr. gildandi laga.
    Hins vegar gerir frv. ráð fyrir rýmkuðum heimildum manna til þess að veðsetja sérstök heildarsöfn eins og t.d. bústofn, afurðir, afla og vörubirgðir, svo einhver dæmi séu nefnd.
    Í þriðja lagi hefur frv. að geyma ýmis nýmæli sem skráðar reglur skortir um í gildandi rétti. Á það sérstaklega við um þær reglur III. kafla sem fjalla um eignarréttarfyrirvara, sem nefndur er söluveð í frumvarpinu, og reglur IV. kafla um veð í viðskiptabréfum, innlausnarbréfum, almennum fjárkröfum og vörureikningum.
    Ef frv. þetta verður óbreytt að lögum munu helstu breytingar á íslenskum reglum um samningsveðsetningar verða þessar:
    1. Gildi taka almenn lög, sem að meginstefnu til ná til allra samningsveðsetninga, en lagaákvæði um samningsveðsetningar er nú að finna dreifð í ýmsum lögum, eins og áður er rakið, og eru þau frá ýmsum tímum. Þannig er við það miðað að úr gildi falli lög nr. 47/1972, um veðtryggingu iðnrekstrarlána. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir því að lög um skrásetningu réttinda í loftförum, nr. 21/1966, haldi óbreytt gildi sínu og eru ástæður þess nánar raktar í skýringum við 2. gr.     2. Heimildir til veðsetninga í þágu atvinnuveganna verða rýmkaðar til mikilla muna ef frumvarpið verður að lögum. Felast breytingarnar annars vegar í því að heimildin til þess að veðsetja lausafé með fasteignum atvinnurekstrar sem sérstakt fylgifé verður gerð almenn og tekur til allra þeirra, sem atvinnurekstur stunda, sbr. ákvæði 24. gr., en nær ekki einungis til tiltekinna rekstraraðila eins og nú er. Verður með þessu eytt því mikla misræmi sem nú ríkir í þessum efnum milli einstakra atvinnugreina. Hins vegar felst breytingin í því að fleiri lausafjárverðmæti verða sett að sjálfsvörsluveði sem heildarsöfn muna en gildandi réttarreglur heimila. Þá verður og heimild til slíkra veðsetninga hvorki tímabundin né einskorðuð við það að bankar og aðrar lánastofnanir eigi í hlut heldur á hún við hver svo sem lánveitandinn er.
    3. Lögfestar verða reglur um stofnun, réttarvernd og framsal handveðréttinda, en skráð efnisákvæði hefur skort í íslenskan rétt um handveð ef frá er talið ákvæði 2. gr. veðlaganna sem áður er getið.
    4. Lögfestar verða reglur um ýmis þýðingarmikil almenn atriði, sem sett ákvæði skortir um í gildandi rétt. Skal í því sambandi t.d. bent á ákvæði frumvarpsins um töku arðs af veði, afnotarétt, viðhalds- og vátryggingarskyldu, áhættu og ábyrgð vegna tjóns á hinu veðsetta, eindögun veðkröfu, framsal og veðsetningu á veðrétti, framsal veðandlags, sameiginlegt veð, útlausnarrétt og afmörkun veðréttar.
    5. Eytt verður óvissu um það hver er gildandi réttur í dag varðandi ýmis veðréttarleg álitaefni sem

gildandi löggjöf lætur ósvarað. Skal í því sambandi t.d. bent á ákvæði 20. gr. frumvarpsins um yfirtöku veðskulda í fasteignakaupum en í þeim efnum hefur íslensk dómaframkvæmd verið á reiki eins og nánar er rakið í skýringum við 20. gr. frumvarpsins.
    6. Lögfestar verða réttarreglur um eignarréttarfyrirvara, sem í frumvarpinu er kallaður söluveð, en skráðar réttarreglur skortir hér á landi um þess háttar tryggingarréttindi. Hér er um þýðingarmikil tryggingarréttindi að ræða, sem mikið er tíðkað að nota í viðskiptum með ýmsar algengar verslunarvörur, og því full þörf á að setja skýrar reglur um. Skipar frumvarpið söluveði (eignarréttarfyrirvara) í flokk ,,venjulegra`` veðréttinda, með ákveðnum frávikum þó. Eins er í frumvarpinu leyst úr ýmsum veðréttarlegum álitaefnum, sem upp geta komið í tengslum við leigusamninga og aðra samninga, sem í raun hafa það að markmiði að tryggja greiðslu endurgjalds.
    7. Lögfestar verða almennar reglur um stofnun og réttarvernd samningsveðs í viðskiptabréfum, almennum fjárkröfum og innlausnarbréfum, en við skráðar réttarreglur í þeim efnum er ekki að styðjast hér á landi nema að takmörkuðu leyti. Er í frumvarpinu m.a. tekin afstaða til þess hverra tryggingaráðstafana er þörf þegar kröfuréttindi eru veðsett en full þörf er á að eyða óvissu í þeim efnum.
    8. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því, að lögfestar verði réttarreglur um svokallað ,,factoring`` eða vörureikningsveð, sem svo er nefnt í frumvarpinu, en þar er um það tilvik að ræða þegar rekstraraðili framselur, framselur í tryggingarskyni eða veðsetur þær almennu fjárkröfur, sem hann fær í rekstri sínum eða aðgreindum hluta rekstrarins.
    9. Enn má nefna, að í gildandi réttarreglur skortir ákvæði um það, að hvaða marki veðþola er heimilt að ráðstafa einstökum munum út úr heildarsöfnum, sem löglega hafa verið sett að sjálfsvörsluveði. Þar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir auknum heimildum til þess að setja heildarsöfn muna að sjálfsvörsluveði, er nauðsynlegt að byggja á samræmdum reglum í þeim efnum. Sér þess stað í ákvæðum 27. gr. frumvarpsins.
  10. Loks er þess að geta að í sérstökum kafla frumvarpsins, þ.e. II. kafla, er fjallað um samningsveð í fasteignum. Fasteignir eru án efa það verðmæti sem mesta þýðingu hefur við veðsetningar í dag en þrátt fyrir það skortir að mestu skráð efnisákvæði um veðsetningar þeirra ef frá eru talin ákvæði þinglýsingalaga um réttarvernd. Er í frumvarpinu tekin afstaða til þess hver réttindi yfir fasteignum verða veðsett, hvernig afmarka beri veðréttinn, fjallað er um veðsetningu í varanlegum afnotarétti lands og húsa, um veðsetningu aðgreindra eignarhluta og réttarvernd auk þess sem almenn ákvæði I. kafla um t.d. útlausnarrétt og skipti á veðskuldum eiga við um fasteignir.
    Nánari grein fyrir þeim atriðum, sem hér hafa verið nefnd, er gerð í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins og vísast til þeirra.
    Hér skal þó getið þeirra lagaákvæða sem fela í sér þýðingarmestu breytingarnar.
    1. Þar er að nefna þá breytingu sem lögfesting 24. gr. frv. hefði í för með sér um heimild til þess að veðsetja lausafé ósundurgreint með fasteign.
    2. Þá breytingu sem lögfesting 28., 30. og 33. gr. frv. hefði í för með sér um rýmkaðar heimildir til þess að sjálfsvörsluveðsetja þau heildarsöfn muna sem þar um ræðir.
    3. Reglur frv. um það hvernig sérgreina skal í verðbréfi þau heildarsöfn sem um ræðir í 28., 30. og 32. gr. frv.
    Rök þau er búa að baki 1. mgr. 24. gr. eru þessi:
    1. Þess er að geta að fasteignir þar sem atvinnurekstur er stundaður eru oft og tíðum mjög sérhæfðar og sérstaklega útbúnar með þarfir viðkomandi atvinnurekstrar í huga. Eru fasteignir og rekstrartæki þá hönnuð sem ein heild og því oft eðlilegt að veðréttur í fasteigninni nái einnig til rekstrartækja.
    2. Hafa ber í huga að það geti verið vandkvæðum bundið að skilja rekstrartækin frá fasteigninni án þess að slíkt hafi í för með sér eyðileggingu eða rýrnun á bæði fasteigninni og rekstrartækjunum.
    3. Þess ber að gæta að það yrði almennt til þess fallið að auka verðmæti veðréttar í fasteign ef rekstrartæki fylgja með og í raun má segja að veðréttur í fasteign þar sem atvinnurekstur er stundaður getur oft og tíðum verið harla lítils virði ef rekstrartækin eins og þau eru skilgreind í frumvarpsgreininni fylgja ekki með við veðsetningu fasteignarinnar.
    Ég hef þá gert grein fyrir öllum helstu aðalatriðum þessa frv. og þeim helstu breytingum sem samþykkt þess mundi fela í sér.
    Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.