Samningsveð

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 14:33:19 (6558)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti hv. allshn. sé ég ekki ástæðu til þess að fjalla ítarlega um málið núna. Það er að mínu mati réttara að gera það innan nefndar, en það eru nokkur atriði sem eru meira almenns eðlis en ég tel þó ástæðu til að geta hér við 1. umr.
    Það er í fyrsta lagi spurningin um hverra sjónarhorn hefur ráðið útliti þessara laga sem annarra. Mér sýnist hér þurfi sérstaklega að gæta að jafnvægi milli hagsmuna lántaka og lánardrottna og einnig það að ákvæði laganna varða bæði einstaklinga og fyrirtæki. Það hefur viljað brenna við að það eru fyrst og fremst sjónarmið skuldareigenda og lánardrottna sem ráða ferðinni og það er meira hugað að hagsmunum

fyrirtækja en einstaklinga við lagasetningu. Ég er ekki sérstaklega að taka þetta frv. fyrir heldur að ræða þetta almennt og þetta finnst mér í rauninni miður þar sem mjög oft eiga lagabálkar bæði við einstaklinga og fyrirtæki og það er bæði um að ræða smá og stór lán eða smá og stór atriði, t.d. í húsnæðismálum eða öðrum málum sem eiga ekki nema hluta til samleið.
    Ég vil benda á það að nýlega hafa komið fram hrikalegar tölur um skuldir heimilanna hér á landi og þetta ætti að vekja okkur til umhugsunar um það hvað veðsetning heimila er stórt mál, kannski ekki á þjóðhagslegan mælikvarða og þó, safnast þegar saman kemur, en fyrir hverja og eina fjölskyldu getur þetta skipt sköpum í því hvernig fjölskyldu reiðir af í tilverunni.
    Það hefur komið fram og er í rauninni þekkt stærð í hagfræði heimilanna að það hefur verið mikil tregða kvenna til þess að veðsetja heimili sín og fjölskyldu sinnar og þetta hefur oft og tíðum staðið konum fyrir þrifum í atvinnurekstri. Þeim hefur einfaldlega verið gert það mjög erfitt að geta sett á stofn ný fyrirtæki vegna þess að ávallt og ævinlega er litið til þess hvort hægt er að leggja til veð. Það hefur ekki sem skyldi verið litið til annarra leiða, svo sem bakábyrgða. Hér á ég við ábyrgðir t.d. á borð við þá sem lánatryggingarsjóður kvenna, sem nú er verið að undirbúa stofnun á, hefur upp á að bjóða. Okkur vantar úrræði til þess að hverfa frá þeirri stefnu sem hefur verið ríkjandi hér Íslandi að það sé í rauninni hægt að gera hvað sem er, skynsamlegt og óskynsamlegt, bara ef það er hægt að leggja til veð. Þær kröfur hafa því miður ekki alltaf verið gerðar til banka að kannað sé hvort lántaki hafi nokkuð með að að gera að taka lán svo framarlega sem hann geti útvegað veð, annaðhvort í fasteign sinni eða annarra. Þótt ég telji vissulega til góðs ef hér kemur upp, eins og mér heyrðist í framsögu hæstv. ráðherra, skrá yfir lausafé sem hægt er að veðsetja og það leysi vissulega úr ýmsum málum sem nú þegar eru fyrir hendi, þá held ég að það geti jafnvel orðið til að auka á þessa kröfu að það sé ávallt litið til veða í stað þess að leggja meiri áherslu á skynsamlegar greiðsluáætlanir og greiðslumat og annars konar baktryggingar, t.d. í almennum lánatryggingarsjóðum. Eins tel ég þörf á því að gera þá kröfu að bankar láni ekki nema ætla megi að einhver grundvöllur sé fyrir því að endurgreiða lán með einhverjum öðrum hætti en ganga að veði. Þetta finnst mér að þurfi að athuga sérstaklega.
    Ég tel það tvímælalaust gott að hægt sé að ganga að öllum lagaákvæðum er varða veð á einum stað og ég held að það hljóti að vera til hagsbóta bæði lántaka og skuldardrottna, en ég vil þó geta þess að eflaust væri þörf á því að hafa einnig inni ákvæði annaðhvort á þessum stað eða öðrum um fleiri úrræði varðandi baktryggingu lána.
    Ég gat þess áðan að þarna væri verið að opna fyrir að það væri meiri og fastari skipan á veðsetningu lausafjár og það er út af fyrir sig gott, ekki síst vegna þess máls sem við vorum að afgreiða hér frá Alþingi áðan, þ.e. vegna hjúskaparlaganna, en þar er einmitt í 61. gr. þess bálks sérstaklega tiltekið að annað hjóna geti ekki veðsett lausafé nema með skriflegu leyfi hins. Og þetta tekur þá til þess sem heyrir til bús þeirra beggja, íbúðarhúsnæðis og annars slíks og er nánar sundurgreint í þeirri grein. En það er þá forsenda þess að mögulegt sé að fylgjast með því hverjir séu eigendur og fylgja eftir þeim fyrirheitum sem hér voru gefin við 3. umr. um hjúskaparlögin að það yrði gengið betur frá því hvernig þinglýsingar væru framkvæmdar.
    Ég vil að lokum geta þess séríslenska fyrirbæris að lána veð. Að vísu veit ég ekki hversu séríslenskt það er en ég veit að alla vega er það töluvert meira notað hér en annars staðar ef ekki bara eingöngu. Þetta er mjög algengt og að mínu mati háskalega algengt hér á landi og kemur auðvitað til vegna þess sem ég gat hér um áðan að hér er einatt litið á að hægt sé að útvega veð með einum eða öðrum hætti í stað þess að lán séu veitt á grundvelli góðra greiðsluáætlana. Það er í rauninni þeim mun alvarlegra þar sem það er staðreynd að þeir sem lánað er vita oft ekki af því ef lán fara í vanskil fyrr en á seinustu stigum málsins þegar mikill kostnaður er kominn á og komið er að uppboði þeirrar eignar sem veðið hvílir á. Það hefur gerst hvað eftir annað og ekki síst á undanförnum árum að vinir, vandamenn og jafnvel enn fjartengdari aðilar hafa komist í verulega erfiðleika og jafnvel gjaldþrot og það eru ekki fá dæmi heldur mörg því miður um það vegna þess að þeir hafi lánað veð. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og ég vil vekja athygli á frv. sem nú mun vera til skoðunar að beiðni efh.- og viðskn. en frv. um þetta efni fluttum við kvennalistakonur á sl. vetri, og raunar þá í annað sinn, um grundvöll lánsviðskipta, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna og fleira. En í þessu frv. er einmitt komið að þessum tveimur atriðum sem ég hef nefnt. Annars vegar því að það sé röng stefna að veita lán fyrst og fremst út á veð, heldur eigi að fara mun betur út á þá braut að grundvöllur lánsviðskipta sé greiðslumat, þ.e. raunhæf áætlun um að það sé eitthvert vit í því að vera að taka þetta lán svo að ég tali bara hreinlega skýrt. Og svo hins vegar er í þessu frv. einnig tekið á hinu atriðinu, þ.e. að það sé þá ljóst ef veð er notað og ef veð er lánað, hver staðan er á hverjum tíma, hvað það hefur í för með sér að lána veð og sá sem lánar veð hafi aðstöðu frá upphafi til að fylgjast með því hvernig skuldinni reiðir af. En ég held að þetta sé alveg feikilega mikilvægt að hafa í huga.
    Eins og ég gat um fór efh.- og viðskn. fram á það að þessi mál yrðu athuguð sérstaklega og ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því og ég mun jafnframt halda því til haga og leita fregna af því starfi þegar þetta mál verður til umfjöllunar innan allshn. Ég held að það sé ástæða til þess að taka frv. sem þetta fyrir í þessu víða samhengi sem ég geri hér, ekki síst vegna þess að ég tel að við höfum að mörgu leyti allt of mikið látið það ráða að frumvörp séu samin fyrst og fremst kannski vegna þrýstings frá hinum sterku

í samfélaginu en sjónarmið einstaklinga og fjölskyldna séu ekki kannski að ráða ferðinni. Ég efast ekki um góðan hug þeirra sem semja slík frumvörp sem taka það með í reikninginn, en það verður að segjast eins og er að möguleikar almennings til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri eru ekki ýkja miklir. Aftur á móti hafa samtök í einstökum atvinnugreinum, fyrirtækja og samtök hinna sterku í samfélaginu, hvort sem eru atvinnugreinar sem sækja mikið í lánsfé eða þeirra sem veita lán, þau sjónarmið komast á framfæri. Ég held að það sé alveg augljóst, bæði á þessu frv. og öðrum. Við verðum að gæta vel að því að það er þá löggjafans að gæta hagsmuna hinna ekki síður.
    Að lokum sé ég að það er hér eitt lítið minnisatriði sem hefði átt heima fyrr í ræðu minni sem ég ætla að halda til haga og ég geri svo sem ráð fyrir að sé einmitt verið að glíma við hér í þessu frv. en það er verðmæti eigna. Þá er ég sérstaklega að tala um verðmæti eigna þeirra fyrirtækja sem hafa tekið há lán og fengið þau út á veð sem síðar hafa reynst mismunandi verðmikil, en það hefur löngum þótt hér nokkuð ljóst að ef menn hafa nóg af steinsteypu, þá geta þeir fengið nokkuð ótakmarkað af lánum, en því miður eru dæmi um feikilega margar verðlausar eða verðlitlar fasteignir vítt og breitt um landið. Einnig hefur verið rætt um þetta á annan hátt, þ.e. að ekki hafi verið hægt að fá lán út á t.d. verðmæti, svo sem aflaréttindi.
    Nú tek ég það fram að mér finnst að það eigi ekki nokkur maður að geta ráðstafað sameign þjóðarinnar, t.d. í aflaréttindum og fá út á þau lán, en engu að síður er það staðreynd að þetta er mjög í umræðunni núna að það eigi að fara að veita lán út á fleira en steinsteypu og þess gætir mjög bæði í framkvæmd núna á undanförnum árum og ekki síður í þessu frv. Ég sé það enduróma hér og það er að sjálfsögðu ekkert undarlegt út frá því sem ég sagði hér áður.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að svo stöddu. Ég tel að þarna sé verið að hreyfa máli sem áreiðanlega hefur verið orðið tímabært að bæði samræma og líta á, en engu að síður býst ég við að við munum komast að raun um það innan allshn. að þarna hafi hinir hagsmunir og ábendingar hinna stóru kannski frekar ráðið en hinar smáeiningar, þ.e. fjölskyldnanna og einstaklingana í landinu.