Þinglýsingalög

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 14:48:52 (6559)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á þinglýsingalögum. Frv. þetta er lagt fram samhliða frv. til nýrra laga um samningsveð og fylgir því. Það frv. gerir ráð fyrir auknum möguleikum manna til þess að setja lausafé að sjálfsvörsluveði sem ósundurgreind heildarsöfn muna eins og nánar er rakið í skýringum athugasemda við 1. gr. frv. til veðlaga. Þar er á það bent að ýmsar hættur geti verið slíkum veðsetningum samfara og sé því nauðsynlegt að búa svo um hnútana að lánardrottnar eigi auðvelt með að ganga úr skugga um áhvílandi lausafjárveðsetningar væntanlegra viðsemjenda sinna. Til þess að auka öryggi við sjálfsvörslu veðsetningar í lausafé og koma í veg fyrir mistök og misferli við veðsetningu slíkra réttinda er lögð til sú breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, sbr. lög nr. 63/1988, að sett verði á laggirnar lausafjárskrá sem nær til landsins alls, landsskrá, og er það meginefni þessa frv. Ætti með þessu móti að vera dregið úr þeim hættum sem annars geta verið samfara auknum sjálfsvörsluveðsetningum í lausafé.
    Samkvæmt 1. gr. frv. skal við embætti sýslumannsins í Reykjavík halda umrædda landsskrá. Tilkoma landsskrárinnar breytir ekki gildandi reglum þinglýsingarlaga um það hvar skjöl sem varða réttindi yfir lausafé skuli afhent til þinglýsingar. Eiginleg þinglýsing fer því ekki fram við landsskrána.
    Hagkvæmt þykir að sýslumaðurinn í Reykjavík haldi umrædda skrá, enda það embætti best í stakk búið til að annast slíka skráningu og miðlun upplýsinga úr henni. Er hér í raun verið að lögmæla svipað fyrirkomulag og gilt hefur samkvæmt lögum 63/1988, um tilkynningarskyldu þinglýsingarstjóra til Bifreiðaskoðunar Íslands, að því viðbættu að hér er til þess ætlast að skrárhaldari gefi út eignar- og veðbókarvottorð sem vera skuli jafngild vottorðum útgefnum af þinglýsingarstjóra þeim er skjali þinglýsti. Er þá við það miðað ef frumvarp þetta verður að lögum að tilkynningarskylda samkvæmt lögum nr. 63/1988 falli niður, enda þá ekki ástæða til þess að Bifreiðaskoðun Íslands haldi sérstaka skrá um veðsetningar bifreiða.
    Ítrekað skal að skylda þinglýsingarstjóra til þess að tilkynna þinglýsingu skjals, sem varðar ráðstöfun réttinda yfir lausafé, nær ekki einvörðungu til skráningarskylds lausafjár eins og bifreiða, skipa og loftfara, heldur og til þess lausafjár sem ekki er skráningarskylt. Ef frumvarp þetta og frumvarp til veðlaga verða að lögum nær tilkynningarskyldan samkvæmt þessu t.d. til þess þegar stofnað er sjálfsvörsluveð í einstökum lausafjármunum, sbr. 1. mgr. 23. gr. frumvarps til veðlaga; þegar veðsettur er færanlegur vélbúnaður í verktakastarfsemi, sbr. 28. gr. frumvarps til veðlaga; þegar veðsett er búfé, rekstrarvörur landbúnaðar, afurðir og uppskera, sbr. 30. gr. frumvarps til veðlaga; þegar veðsettur er afli, afurðir og rekstrarvörur sjávarútvegs, sbr. 32. gr. frumvarps til veðlaga; þegar veðsettar eru vörubirgðir, sbr. 33. gr. frumvarps til veðlaga, og þegar stofnað er til vörureikningsveðs, sbr. 47. gr. frumvarps til veðlaga. Hins vegar nær tilkynningarskyldan ekki til þeirra tilvika þegar rekstrartæki eru veðsett með fasteign, sbr. t.d. 24. gr. frumvarps til veðlaga.
    Við það er miðað að umrædd skrá nái ekki einvörðungu til sjálfsvörsluveðsetninga í lausafé heldur einnig til aðfarargerða og kvaða sem lagðar eru á lausafé þannig að hún verði tæmandi um öll höft sem hvíla kunna á lausafé. Að svo miklu leyti sem sölu eða annarri yfirfærslu eignarréttar að lausafé er þinglýst ber einnig að færa slíkt í skrána. Færslur, sem snerta fyrst og fremst viðkomandi einstakling en ekki endilega tilteknar eignir, svo sem lögræðissvipting og almennt umboð, geta og átt heima í skrá þessari.
    Í niðurlagsákvæði 1. gr. segir að dómsmálaráðherra skuli með reglugerð setja nánari reglur um tilhögun tilkynninga til landsskrárinnar, færslu í skrána og miðlun upplýsinga úr henni. Þykja ákvæði um slík útfærsluatriði betur eiga heima í reglugerð en í þinglýsingalögunum sjálfum.
    Í 2. gr. segir að lög þessi öðlist gildi 1. október 1993 og er það sami gildistökudagur og í fyrrnefndu frumvarpi til laga um samningsveð. Er af augljósum ástæðum æskilegt að hvor tveggja þessi lög öðlist gildi á sama tíma.
    Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.