Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 14:54:42 (6560)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta hv. sjútvn. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins. Í sem skemmstu máli, virðulegi forseti, vill meiri hluti hv. sjútvn. styðja frv. í lítt breyttri mynd. Við teljum eðlilegt að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag og fjárhagsþróun fyrirtækisins hefur raunar verið þannig að nauðsynlegt er að taka sem fyrst ákvörðun um samþykkt frv. til þess að skapa vissu um framtíð Síldarverksmiðja ríkisins.
    Segja má að frv. sé í rauninni tvíþætt: Annars vegar er óskað heimildar til þess að breyta Síldarverksmiðjunum í hlutafélag og hins vegar til að selja hlutina einn eða alla. Rökin fyrir því að breyta Síldarverksmiðjunum í hlutafélög eru margvísleg.
    Í fyrsta lagi er meiri hluti sjútvn. þeirrar skoðunar að ríkið eigi sem mest að draga úr þátttöku sinni í starfsemi sem er í beinni samkeppni við almennan atvinnurekstur. Þær fiskimjölsverksmiðjur sem eru nú reknar hér á landi starfa langflestar á grundvelli hlutafélagalöggjafar og þess vegna teljum við að það sé rökrétt að Síldarverksmiðjum ríkisins, sem eru í eigu ríkisins, verði breytt í hlutafélag og búi þar með við sama samkeppnisform og samkeppnisaðilarnir. Með þeirri breytingu eru í rauninni öllum aðilum sem standa að rekstri í þessari grein búin sambærileg starfsskilyrði hvort sem fyrirtækin eru þá í eigu einstaklinga, ríkis eða annarra aðila.
    Í öðru lagi er sú staðreynd sterk í okkar huga að skipulag opinberrar stjórnsýslu hentar illa til framleiðslustarfsemi eins og hér um ræðir og hlutafélagsformið gefur fyrirtækinu miklu meiri sveigjanleika, til að mynda sveigjanleika til þess að gerast þátttakandi í öðrum nýjum fyrirtækjum sem kunna að tengjast starfsemi fyrirtækisins.
    Í þriðja lagi gefur hlutafélagsformið fyrirtækinu aukið svigrúm til þess að verða sér úti um aukið fjármagn en eins og allir vita hefur rekstur Síldarverksmiðja ríkisins gengið mjög erfiðlega árum saman og það vegur mjög ungt í okkar huga að hlutafélagsformið eykur möguleika á því að fyrirtæki geti með hlutafjárútboði aflað sér aukins eigin fjár. Við teljum að nauðsynlegt sé fyrir fyrirtæki eins og hér um ræðir að geta varið þannig stöðu sína.
    Í fjórða lagi breytist ábyrgð ríkissjóðs á rekstri verksmiðjanna með að færa þær yfir í hlutafélag frá því að vera ótakmörkuð ábyrgð yfir í að takmarkast einungis við hlutafjáreign ríkisins í verksmiðjunum.
    Í fimmta lagi er síðan í hlutafélagalögunum að finna ákvæði sem skapa almennar leikreglur og stuðla að vissum aga í atvinnurekstri. Slík ákvæði taka auðvitað sjálfkrafa gildi um leið og rekstrarformi verksmiðjunnar er breytt yfir í hlutafélag. Síðan má benda á það, virðulegi forseti, að sökum þeirra ávinninga sem menn í atvinnulífinu telja fólgna í hlutafélagaforminu, er hér á landi nokkuð ör þróun frá öðrum formum í atvinnurekstri yfir til hlutafélagaformsins. Gott dæmi og tiltölulega nýlegt sem allir þekkja er Samband ísl. samvinnufélaga, sem hefur einmitt kosið að hluta fyrirtæki sín í sundur og færa yfir á hlutafélagaformið.
    Virðulegi forseti. Vert er að benda á að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur sjálf orðið sammála, eða a.m.k. meiri hluti hennar, um að rétt sé að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins yfir í hlutafélag. Í umsögn stjórnarinnar til hv. sjútvn. segir eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Með tilliti til þess að um áratugi hafa Síldarverksmiðjur ríkisins búið við úrelt lög og þess vegna orðið að vinna eftir eigin starfshefðum þá fagnar stjórn SR því að nú liggur fyrir frv. til laga um nýtt og nútímalegra rekstrarform fyrir fyrirtækið. Það mun gera stjórnendum þess auðveldara að reka það og fást við hin margþættu verkefni sem koma upp hjá því, ekki hvað síst hinar breytilegu kröfur sem orðið hafa og eru á döfinni varðandi framleiðslu og markaðssetningu afurða.``
    Með öðrum orðum er sagt hér klárt og kvitt af hálfu þeirra manna sem fara með stjórn þessarar verksmiðju að æskilegra sé til þess að svara kröfu markaðarins að hafa þann sveigjanleika í fyrirtækinu sem felst í því að hafa það í formi hlutafélags.
    Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að fjárhagsþróun Síldarverksmiðja ríkisins hefur verið afar lakleg undanfarin ár. Af sl. 10 árum hefur tap orðið á rekstri 9 ár. Sem dæmi um þessa þróun má nefna það að árið 1989 nam tapið 160 millj. kr. Árið 1990 157 millj. kr. og árið 1991 hvorki meira né minna en 325 millj. kr. Á sl. ári var tap upp á 48 millj. kr. Milliuppgjör frá 30. júní sl. hafði sýnt verulegan rekstrarbata enda loðnuveiði mjög góð á árinu. Gengisbreytingar seint á árinu leiddu hins vegar til gengistaps upp á 145 millj. kr. en án þess hefði hagnaður verið um 100 millj. kr. af rekstri. Í dag eru heildarskuldir Síldarverksmiðja ríkisins í kringum 1.800 millj. en voru við árslok 1991 um 1.440 millj. Meiri rekstur á árinu 1992 en árið áður hefur leitt til þess að skammtímaskuldbindingar eru hærri og þess vegna er e.t.v. betra að líta til langtímaskuldbindinga til þess að sjá hvernig þróunin í skuldastöðu fyrirtækis hefur orðið.
    Við árslok 1991 voru langtímalánin 1 milljarður en þau eru núna 1,3 milljarðar. Þessi þróun speglast vitaskuld í eiginfjárstöðu fyrirtækisins sem á árum fyrri var mjög sterk. Árið 1986 var eigið fé fyrirtækisins 800 millj. kr. Við árslok 1991 var það bókfært 68,7 millj. og hafði þá lækkað um röskar 300 millj. kr. frá árinu 1990. Nú er það hins vegar neikvætt samkvæmt efnahagsreikningi um 117 millj. kr. Þar skiptir raunar miklu að eftirlaunaskuldbindingar, sem voru ekki færðar áður, eru nú reiknaðar 138 millj. kr. Með sama reikningshaldi og í fyrra væri því eigið fé jákvætt um einhverjar milljónir kr. Þetta sýnir hins vegar, virðulegi forseti, að það er alveg ljóst að framtíð fyrirtækisins er óviss. Miðað við rekstraráætlanir þess virðist sem afkoman í meðalári nægi ekki til þess að standa undir greiðslubyrði fyrirtækisins af langtímaskuldbindingum. Þess vegna er nauðsynlegt að taka ákvörðun um framtíð fyrirtækisins, skapa vissu um það og meiri hluti hv. sjútvn. telur að frv. sem liggur fyrir til 2. umr. þjóni einmitt þeim tilgangi.
    Sjútvn. fjallaði ítarlega um málið, bæði á þessu löggjafarþingi og síðasta og hún fékk á sinn fund Jón Reyni Magnússon, framkvæmdastjóra Síldarverksmiðja ríkisins. Hún studdist jafnframt við umsagnir sem bárust á 115. löggjafarþingi frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda, hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps, hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Síldarverksmiðjum ríkisins, Sjómannasambandi Íslands, Starfsmannafélagi ríkisstofnana og Vélstjóra félagi Íslands, svo og álitsgerð frá Hróbjarti Jónatanssyni hæstaréttarlögmanni.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með nokkrum breytingum.
    1. Heimili og varnarþing Síldarverksmiðjanna verði á Siglufirði.
    2. Stjórn félagsins verði skipuð fimm mönnum.
    3. Stofnun hlutafélagsins og niðurfelling laga um Síldarverksmiðjur ríkisins verði seinkað um þrjá mánuði vegna þess hve langt er liðið á þetta löggjafarþing.
    Þessar brtt. er að finna á þskj. 747.
    Vegna afgreiðslu frv. þessa telur meiri hluti nefndarinnar nauðsynlegt að fram fari könnun á því hvernig treysta megi forsendur frjálsrar verðmyndunar á bræðslufiski úr fiskiskipum. Í því sambandi verði kannað sérstaklega hvort slíkt megi gera með opinberri skráningu kaupverðs.
    Undir þetta nál. ritar frsm. Össur Skarphéðinsson, varaformaður, Árni Ragnar Árnason, Guðjón A. Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson og Hjálmar Jónsson.