Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 15:03:37 (6561)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta sjútvn. sem er á þskj. 789 um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins. Minni hluti nefndarinnar er samþykkur því að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag. Minni hlutinn hafði vænst þess að hægt yrði að ná samkomulagi um þau ágreiningsmál sem uppi voru um málið en því miður hefur það ekki tekist. Minni hlutinn flytur því allar sömu breytingartillögur og komu fram frá honum við umfjöllun málsins á síðasta þingi. Þau efnisatriði, sem minni hluti nefndarinnar gerir athugasemdir við, eru eftirfarandi:
    1. Sala eigna. Minni hluti nefndarinnar getur ekki fallist á að veita heimild til að selja allt fyrirtækið. Eðlilegt er að í upphafi sé gefin heimild til að selja allt að 40% af hlutafénu, en ríkisstjórnin þurfi að fá heimild Alþingis til að selja meira og jafnframt til sölu á einstökum verksmiðjum. Verksmiðjurnar skipta miklu máli fyrir afkomu fólks á þeim stöðum þar sem þær eru. Minni hlutinn telur eðlilegt að áður en ákvarðanir eru teknar um að selja meiri hluta félagsins eða einstakar verksmiðjur sé skylt að leita samþykkis Alþingis.
    2. Kjör stjórnar. Minni hlutinn telur að eðlilegt sé að Alþingi kjósi stjórnarmenn fyrirtækisins sem eignarhlutur ríkisins gefur rétt til, svo lengi sem ríkið á meiri hluta í fyrirtækinu.
    3. Efnahagsreikningur og skattaleg staða. Ekkert liggur fyrir um hvert er mat á eignum fyrirtækisins. Eðlilegast hefði verið að áður en málið er afgreitt sé kynntur upphafsefnahagsreikningur hins nýja fyrirtækis. Jafnframt er eðlilegt að félagið yfirtaki rekstrartöp Síldarverksmiðja ríkisins frá fyrri árum. Þótt heimild sé veitt fyrir fjármálaráðherra að yfirtaka hluta af skuldum Síldarverksmiðja ríkisins liggur ekkert fyrir um hvort sú heimild verður notuð. Vonandi getur fyrirtækið greitt skuldir sínar sjálft án þess að ríkið komi þar til. Síldarverksmiðjur ríkisins eiga hafnarmannvirki sem aðrar verksmiðjur hafa ekki þurft að byggja. Ríkið hefur þurft að kosta til þeirra mannvirkja í gegnum tíðina og væri eðlilegt að þessi hafnarmannvirki væru keypt þannig að staða Síldarverksmiðja ríkisins væri svipuð og gerist um aðrar verksmiðjur í landinu.
    4. Samstarf við heimamenn. Ávallt koma upp margvísleg samstarfsmál þar sem staðbundin þekking verður að vera fyrir hendi og því er nauðsynlegt að í samþykktum félagsins séu ákvæði um sérstaka samstarfsnefnd. Það þarf að tryggja að heimamenn komi að stjórn fyrirtækisins og hafi þar eðlileg ítök. Það er ekki aðeins nauðsynlegt vegna byggðarlaganna heldur jafnframt fyrir fyrirtækið sem heild.
    5. Réttindi starfsmanna. Verulegur ágreiningur hefur verið uppi um réttindi starfsmanna. Í því sambandi vísast til greinargerðar sem fylgir með nefndarálitinu. Minni hluti nefndarinnar óskaði eftir því við umfjöllun þess á síðasta þingi að fá að ræða við fulltrúa BSRB áður en frumvarpið væri afgreitt frá nefnd. Því var hafnað og vilyrði gefin um slíkar viðræður síðar. Þær viðræður fóru fram og í þeim kom í ljós alger andstaða fulltrúa BSRB við þessa meðferð á réttindamálum starfsmanna SR. Minni hluti nefndarinnar leggur því til að 7. gr. frumvarpsins falli niður og leitað verði samninga við starfsmenn um þessi ágreiningsmál.
     Minni hluti nefndarinnar flytur breytingartillögur á þskj. 797 og að þeim samþykktum getur hann fallist á að styðja frumvarpið. Fulltrúi Samtaka um kvennalista, Anna Ólafsdóttir Björnsson, er samþykk nefndaráliti þessu.
    Undir þetta rita Jóhann Ársælsson, Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon og Stefán Guðmundsson.
    Að öðru leyti er um málið að segja að mér þykir ákaflega miður að meiri hluti sjútvn. skyldi ekki koma til móts við okkur vegna þess að ég taldi að ýmsum þeim atriðum sem voru rædd í fyrravetur, að nú hefði verið möguleiki til þess að ná betur samkomulagi en þá var gert.
    Ég vil fyrst ræða um eign Síldarverksmiðjanna á hafnarmannvirkjum. Síldarverksmiðjur ríkisins eiga hafnarmannvirki á þremur stöðum, þ.e. á Siglufirði, Seyðisfirði og á Raufarhöfn. Fyrir um þremur árum var gert mat á þeim hafnarmannvirkjum og það mat gaf þá niðurstöðu að mannvirkin væru um 364 millj. kr. virði. Við létum það koma fram í þeirri umfjöllun sem varð um málið að við teldum eðlilegt að ríkið losaði Síldarverksmiðjur ríkisins undan því að reka hafnarmannvirkin. Í raun og veru er fáránlegt að fyrirtæki eins og Síldarverksmiðjur ríkisins eigi og reki hafnarmannvirki en verði á sama tíma að greiða nánast öll gjöld eins og opinberir aðilar ættu hafnarmannvirkin. Raunverulega kemur dæmið þannig út að til viðbótar því sem önnur sambærileg fyrirtæki leggja til þessara mála þurfa Síldarverksmiðjur ríkisins að leggja fram stofnkostnað og viðhald hafnarmannvirkja. Það er mjög undarlegt að á sama tíma og eigandi Síldarverksmiðja ríkisins ákveður að breyta fyrirtækinu í hlutafélag og selja það líka, skuli hann ekki um leið leysa þetta vandamál fyrir fyrirtækið. Ég tel að það sé miður að menn skuli ekki hafa viljað leysa málið og það er undarlegt að hafa inni í frv. ákvörðun um það að fjmrh. sé heimilt að taka úr ríkissjóði 500 millj. á sama tíma og þetta mál er látið óafgreitt. Ég hefði talið að miklu eðlilegra væri að gefa heimild til þess að þessi mannvirki væru keypt af Síldarverksmiðjum ríkisins og þau verði síðan seld þeim sveitarfélögum sem eiga hlut að máli. Auðvitað er þetta annað sem getur verið í samræmi við atvinnulífið allt í kringum landið að öðru leyti.
    Eins og menn vita eru Síldarverksmiðjur ríkisins mjög stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og hefur verið ákaflega mikilvægt í gegnum tíðina sem sjávarútvegsfyrirtæki. Svo að dæmi sé tekið mun hlutur Síldarverksmiðja ríkisins í vinnslu loðnuaflans í vetur verða um 35--36% og það er ekki lítill hluti þeirrar starfsemi sem er rekin á vegum verksmiðjunnar og á landsvísu er þetta auðvitað geysilega stór hluti.
    Margt gerist ef þær hugmyndir ná fram að ganga sem hér eru á ferðinni hjá stjórnarflokkunum. Ef þetta fyrirtæki verður gert að hlutafélagi og engar hömlur settar á stjórn þess í framhaldinu geta ýmsar breytingar orðið og sumar hverjar til hins verra. T.d. er ástæða til að vekja athygli á því að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa í raun og veru orðið til þess að hér er eitthvað sem hægt er að kalla frjáls verðmyndun á loðnu. Ekki verður séð hvernig verður komið í veg fyrir að þetta fyrirtæki muni taka þátt í leiknum með sama hætti og aðrar loðnuverksmiðjur eftir að búið er að breyta því í hlutafélag og fara að gerast meðeigandi eða kaupa hluti í skipum og þar með er sá möguleiki hverfandi að frjálst loðnuverð myndist. Ég tel reyndar að meiri hlutinn hafi gert sér grein fyrir þessu því að eins og hv. frsm. meiri hlutans lýsti áðan þá hafa þeir haft af þessu áhyggjur og í lok nál. síns segja þeir eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Vegna afgreiðslu frumvarps þessa telur meiri hluti nefndarinnar nauðsynlegt að fram fari könnun á því hvernig treysta megi forsendur frjálsrar verðmyndunar á bræðslufiski úr fiskiskipum. Í því sambandi verði kannað sérstaklega hvort slíkt megi gera með opinberri skráningu kaupverðs.``
    Ég vil biðja hv. frsm. að hlusta aðeins á mig ef hann má vera að því því að mig langar til að spyrja hann að því, hvað er átt við með þessu: ,,Í því sambandi verði kannað sérstaklega hvort slíkt megi gera með opinberri skráningu kaupverðs.`` Ætlar ríkisstjórnin að gefa út loðnuverð öðru hverju eða meiri hlutinn í sjútvn.? Hver ætlar að ákveða þetta verð? Hvaða hugmyndir eru það sem meiri hlutinn er að kokka um hvernig eigi að verðleggja loðnuna? ( Gripið fram í: Þetta er miðstýring.) Já, er þetta ekki miðstýring? Er þetta ekki eitthvað að austan? Hvað eru menn eiginlega að hugsa í þessum meiri hluta? ( Gripið fram í: Þú þekkir betur til fyrir austan.) Nei, því miður hef ég lítið verið þar á ferð og get ekki upplýst neitt um það hvernig þeir ákveða loðnuverð þar. En ég hef mikinn áhuga á að vita hvernig meiri hlutinn lítur á málið og hvernig hann hugsar sér að frjálst loðnuverð verði í framtíðinni ef allar verksmiðjur, sem starfa á markaðnum, eru komnar með sömu möguleika á því að taka þátt í útgerð og aðrar verksmiðjur en Síldarverksmiðjurnar hafa haft fram að þessu. Það er kannski rétt að vekja athygli á því að á árinu 1991 var skiptingin á loðnukvótanum þannig, þ.e. á vertíðinni 1991--1992, að þeir bátar sem voru ekki bundnir verksmiðjum höfðu um það bil 300 þús. tonna veiðiheimildir en þeir sem voru bundnir verksmiðjum höfðu um það bil 430 þús. tonna veiðiheimildir. Þetta getur því breyst á stuttum tíma ef Síldarverksmiðjur ríkisins taka þátt í útgerð skipa.
    Hv. frsm. meiri hlutans lýsti stöðu Síldarverksmiðjanna og hvernig hefði hallað á þær í rekstri undanfarin ár. Ég ætla ekki að fara yfir þau mál hérna. Ég tel að þar verði að taka ýmislegt með í reikninginn og þar er kannski fyrst ástæða til þess að vekja athygli á tveimur stórum atriðum: Annars vegar að Síldarverksmiðjur ríkisins lögðu í mikla fjárfestingu í nýrri verksmiðju á Seyðisfirði sem hefur sýnt sig frá því að hún hóf starfsemi að var heillaspor og sú verksmiðja framleiðir mjög góða vöru sem hátt verð fæst fyrir og er í raun og veru ávísun á framtíðina fyrir þetta fyrirtæki. En hitt er ekki síður ástæða til að minna á að þær ákvarðanir sem voru teknar um það hvað óhætt væri að veiða mikið af loðnu á undanförnum árum hafa skipt sköpum fyrir þessa verksmiðju ekki síður en aðrar í landinu. Það að bera saman einhver meðaltöl fyrir síðustu ár til þess að átta sig á því hverjar rekstrarhorfur þessa fyrirtækis eru er ekki rétt að gera að mínu viti. Ég held að menn verði að horfa á þetta með gagnrýnni hætti og vanda sig miklu meira við það að skoða framtíðarmöguleika verksmiðjanna. Ég er sannfærður um að þetta stóra fyrirtæki á okkar mælikvarða á mjög góða möguleika í framtíðinni og það eru í rauninni ekki nein fyrirtæki á þessu sviði á Íslandi sem geta keppt við Síldarverksmiðjur ríkisins ef þeim verður haldið í því formi sem þær hafa verið, þ.e. að stærð fyrirtækisins og möguleikar á að taka á móti hráefni á þeim stöðum sem nú eru fyrir hendi og möguleikarnir á því að stýra hráefninu til hinna ýmsu staða gefa Síldarverksmiðjum ríkisins forskot fram yfir önnur fyrirtæki. Það er undarlegt að heyra það á þessum tímum þar sem sameining og hagræðing er lausnarorðið, á sama tíma heyrir maður því fleygt að menn telji einna skynsamlegast að hluta fyrirtækið niður.
    Áður en ég hverf alveg frá því að tala um hluta Síldarverksmiðja ríkisins í þeirri miklu starfsemi sem er í kringum loðnuveiðarnar og reyndar síldveiðar að hluta til líka, ætla ég að nefna það að 22. mars hefur veiðst af heildarloðnukvótanum 650 þús. tonn. Heildarloðnukvótinn var 820 þús. tonn og það var sem sagt eftir þá um það bil 170 þús. tonn af kvótanum. Nú eru litlar líkur á því að það takist að veiða allan þennan kvóta og engar líkur á því að sá frægi EB-kvóti nái nokkurn tíma landi. Við verðum því miður að fara að horfast í augu við það að þessi loðnuvertíð er að verða liðin, en eins og ég sagði áðan munu Síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið með um það bil 35% af þessari starfsemi þegar þessar tölur voru skoðaðar.
    Ég vil lýsa sérstakri óánægju með eitt atriði sem meiri hluti sjútvn. hefur ekki komið til móts við okkur með. Það er 7. gr. í frv. sem snýr að starfsmönnunum og hv. frsm. meiri hlutans nefndi að við höfum í höndum umsagnir lögfræðinga um málið. Ég held að ég neyðist til þess að rifja upp fyrir mönnum um hvað var verið að ræða hér í fyrra og lesa upp úr niðurstöðu Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns þar sem hann fjallar um 7. gr. í frv. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Er verið að gera tillögu um að lögfesta reglu sem ætlað er að taka lögbundin og áunnin réttindi af tilteknum hópi einstaklinga og á reglan einmitt að koma til framkvæmda þegar áunnu réttindin eiga að verða virk. Að mínu mati er rétturinn til biðlauna hjá núverandi starfsmönnum Síldarverksmiðjum ríkisins einstaklingsbundinn, réttindi þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og þau verða ekki tekin af þeim án fullra bóta vegna ákvæða 67. gr. stjórnarskrárinnar.``
    Þarna eru hlutirnir sagðir alveg skýrt og skorinort. Ég held að full ástæða sé til þess að halda því fram að það hafi verið rökstutt það vel í þeim álitum sem hér liggja fyrir og í umræðum sem fóru fram í fyrravetur um þessi mál að það sé okkuð vafalaust að bótaréttur þeirra, sem eiga hlut að máli, mun myndast ef þessi lög verða látin taka gildi eins og hér er gert ráð fyrir. Mér finnst að ástæða sé til þess að vitna annars staðar í greinargerð Gests. Þar segir undir lokin:
    ,,Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á orðalagi 7. gr. Þar kemur fram að tryggja á starfsmönnum starf hjá nýja félaginu við stofnun þess. Nýja félaginu yrði samkvæmt þessu heimilt að láta starfsmennina víkja hvenær sem er eftir að félagið hefur verið stofnað. Atvinnuöryggi starfsmanna hjá nýja félaginu yrði ekkert.``
    Miklar umræður urðu um þetta í fyrravetur og mig langar til að vitna í framsögu hv. formanns

sjútvn., Matthíasar Bjarnasonar, fyrir áliti meiri hluta sjútvn. þar sem hann lætur koma fram að hann telji að þeir séu nauðbeygðir, þ.e. meiri hlutinn, til að láta málið fara þannig fram vegna þess að ríkisstjórnin hafði skrifað undir yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga. Ef hann hefði getað haft áhrif á málið þá hefði hann talið að það ætti að fara aðra leið. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í ræðu hv. 1. þm. Vestf.:
    ,,Persónulega hefði ég talið að réttara hefði verið að breyta ákvæðum 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, bæði hvað varðar þetta mál sem og önnur. Ég er þeirrar skoðunar að þeir aðilar, sem eiga rétt á að halda störfum sínum þó breyting verði úr ríkisreknu félagi í hlutafélag, og þiggja það ekki, eigi ekki líka fá biðlaun, eða tvöföld laun. Um þetta held ég að ekki þurfi að vera skiptar skoðanir. Hins vegar kom það greinilega fram í þeirri yfirlýsingu, sem ríkisstjórnin gaf í síðustu kjarasamningum, að ríkisstjórnin hét því að breyta ekki lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. En hins vegar lá fyrir að það ákvæði sem var í 7. gr. þessa frv. sem og ákvæði í frv. til laga um Sementsverksmiðju ríkisins, gerði ráð fyrir þessari breytingu. Þó að ég hefði sætt mig frekar við að þessi breyting hefði verið gerð með sérstakri breytingu á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna tel ég að úr því sem komið var hafi ekki verið um annað að ræða en halda þessu ákvæði óbreyttu.``
    En nú eru hlutirnir breyttir. Nú eru kjarasamningarnir runnir út. Hvers vegna í ósköpunum stendur á því að meiri hluti sjútvn. hefur ekki farið að ráðum formanns síns, sem er að vísu í veikindafríi, og lagt fram tillögu um að breyta lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Í stað þess leggur hann fram óbreyttar hugmyndir um lagasetninguna. Það er nokkuð ljóst að það mun auðvitað kosta það að ríkið verður að greiða fullar bætur fyrir þá réttarskerðingu sem felst í því að láta 7. gr. standa óbreytta. Satt að segja átta ég mig ekki almennilega á því hvað kemur til að menn hafa ekki viljað skoða þetta betur.
    Kannski er rétt undir lokin að minna á það sem sú nefnd, sem var skipuð af sjútvrh. á sínum tíma 1989 og gerði tillögu um að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag, sagði í niðurstöðum sínum. Ég ætla einungis að nefna þrjú atriði sem komu fram í niðurstöðum hennar.
    1. Ekki er rétt að skipta Síldarverksmiðjum ríkisins upp í minni einingar. --- Það tel ég að verði best tryggt með því að þegar búið er að breyta verksmiðjunum í hlutafélag hafi ríkið meiri hluta í því fyrirtæki um einhvern tíma meðan menn eru að sjá hvaða áhrif breytingin muni hafa og að stjórn fyrirtækisins muni þá fara eftir þeirri forskrift sem eigandinn hefur gefið, þ.e. að Síldarverksmiðjum ríkisins eigi ekki að skipta upp í minni einingar.
    2. Ekki er mælt með því að Síldarverksmiðjur ríkisins hefji útgerð fiskiskipa. --- Þetta lagði nefndin áherslu á og ég tel að full ástæða sé til þess að gefa gaum að þeirri ráðleggingu nefndarinnar af því sem ég sagði hér áðan um frjálsa verðmyndun á þeim afurðum sem eru unnar í þessum verksmiðjum.
    3. Rétt er að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag. Ríkið verði eigandi allra hlutabréfanna. Setja skal lög um þessa breytingu og feli þau í sér þau frávik frá hlutafélagalögunum sem nauðsynleg eru og önnur ákvæði sem rétt þykir að slá föstu að tekin séu inn í samþykktir félagsins.
    Þetta var niðurstaða þeirrar nefndar sem gerði tillögu um það að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag. Þeir sem skrifuðu undir þessar tillögur voru Helgi Bergs, Gunnar Hilmarsson, Hörður Þórhallsson, Ísak Ólafsson, Jón Ingi Ingvarsson, Þorsteinn Gíslason og Þorvaldur Jóhannsson. Tveir þessara manna skrifuðu undir með fyrirvara, þ.e. Jón Ingi Ingvarsson og Þorsteinn Gíslason, og sá fyrirvari laut að því að þeir létu bóka: Ríkissjóður er eigandi allra hlutabréfanna í hinu nýja félagi. Til sölu þeirra eða hluta þeirra þarf samþykki Alþingis.
    Þeir vildu sem sagt að það væri fyrir hendi að selja hlut í félaginu og það hefur minni hlutinn líka fallist á að mætti gera, en telur að ástæða sé til þess að halda í meirihlutaeign ríkisins í einhvern tíma til þess að sjá hvernig til tekst með framhaldið og rekstur Síldarverksmiðjanna.
    Meiri hluti nefndarinnar vaknaði upp fyrir nokkru og rauk þá til að kippa frv. út úr nefndinni. Svo einkennilega vildi til að það var einmitt á sama tíma og það komst í loftið að nú væru menn endanlega búnir að gefast upp á því að breyta bönkunum í hlutafélag. Ég hef ákveðinn grun um að þeir sem voru óánægðastir með það að ekki skyldi takast að ná samkomulagi í stjórnarflokkunum um það að breyta í hlutafélag og selja hluti í Búnaðarbankanum a.m.k., það hafi átt að róa þá aðila svolítið með því að gera þó eitthvað, klára þetta með Síldarverksmiðjurnar og Sementsverkmsiðjuna. Ég held að ekki hafi verið tilviljun að einmitt daginn eftir að það komst í loftið að Búnaðarbankinn yrði ekki gerður að hlutafélagi og seldur á næstunni þá vöknuðu upp bæði iðnn. og sjútvn. og skiluðu frumvörpunum um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðju ríkisins.
    Ég ætla ekki að halda lengri ræðu um málið núna. Ég vonast til þess að brtt. minni hlutans verði samþykktar og þá mun ég að sjálfsögðu samþykkja þetta frv. um að gera Síldarverksmiðjur ríkisins að hlutafélagi.