Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 15:33:51 (6563)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 17. þm. Reykv. var að reyna að bera það af sér að það að drífa þessi mál út úr nefndunum hefði tengst nokkuð þeim fréttum, sem komu í fjölmiðlum um það að nú væri ekki lengur möguleiki á að ná saman í ríkisstjórnarflokkunum um það að breyta Búnaðarbankanum í hlutafélag og selja hann. Ég held að það sé enginn vafi á því að þetta hafi tengst og það hafi átt að friða einhverja með því að rjúka fram með bæði málin í einu og akkúrat á þessum tíma. Ég er ekki í vafa um það.
    Hann sagði að það lægi í eðli hlutafélaga að ekki væri hægt að setja á þau kvaðir. Þetta fyrirtæki sem við erum að tala hér um hefur haft á sér verulega miklar kvaðir. Það hefur samt getað verið með góðan rekstur oft og tíðum og ég tel að meirihlutaeigandi hlutafjár í þessu fyrirtæki geti vel haft á því þær kvaðir sem hér er verið að tala um. Þó svo við tölum hér um að hafa kannski þriggja ára aðlögunartíma með þessa meirihlutaeign, þá kæmi það auðvitað til endurskoðunar ef menn sæju einhver hættumerki eftir að reksturinn hefði farið fram í þennan tíma. Þá gætu menn beðið með að selja meiri hluta ríkisins í fyrirtækinu. Ég held að það sé rétt að menn hafi forsjá í svona málum því að þarna er á ferðinni alveg gífurlega mikið hagsmunamál, sérstaklega þeirra byggða þar sem verksmiðjurnar eru núna. Mér finnst að það eigi ekki að bjóða heim neins konar óvissu í sambandi við rekstur þessa fyrirtækis. Það er þess vegna sem ég tel að eigi að fara varlega í þessa hluti.