Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 15:39:42 (6566)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það hafa nú þegar farið fram töluvert ítarlegar umræður um þetta mál, bæði innan nefndar og í sölum Alþingis, og sjálfsagt hætt við að einhverjar endurtekningar verði ef hér er enn og aftur reynt að glíma við efnið. En ástæðan fyrir því að enn er þó verið að ræða þetta mál er sú að það er alveg hreint með ólíkindum að ekki skuli hafa tekist að ná saman um þetta mál. Það er ekki það mikið sem ber á milli og það getur ekki undrað nokkurn mann, ekki einu sinni hv. 17. þm. Reykv. sem þó er oft ótrúlega undrandi á alveg ótrúlegustu hlutum, þó að það læðist að manni sá grunur að hér ráði eitthvað annað ferðinni en bara hrein og klár skynsemi og samstarfsvilji. Það er eins og ákveðin mál séu mjög viðkvæm og nánast á trúarbragðastigi. Eitt þeirra er einkavæðing með einum eða öðrum hætti. Og þá er ekki svo óskaplega mikilvægt hvort í raun og veru er um það að ræða að verið sé að breyta rekstri fyrirtækja og einkavæða eða bara að hægt sé að segja að hér hafi ríkisstjórnin farið út í einkavæðingu. Þá er ekki spurt um skynsemi heldur bara það að einhver haldi andliti.
    Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það hvaða hvatir lágu til þess að þessi tvö mjög svo umdeildu mál um Síldarverksmiðjur og Sementsverksmiðjuna fóru á nákvæmlega þeim tíma út úr nefnd sem raun ber vitni en það er ekki hægt að álasa okkur þótt við höfum ákveðnar grunsemdir. Ég ætla ekki að fara að nefna nein fleiri átakanleg dæmi um það að metnaður ræður för frekar en skynsemi.
    Það eru tvö efnisatriði sem ég sé ástæðu til að geta hér sérstaklega um. Ég stend að sjálfsögðu við það sem fram kemur í nál. minni hlutans. Ég stend að því eftir því sem hægt er fyrir áheyrnarfulltrúa í sjútvn. Þau atriði sem mér finnst sérstaklega ástæða til að gefa gaum eru annars vegar réttindi starfsmannanna, sem er hið mikla ágreiningsefni þarna, og gildir þá einu hvort maður er sáttur við þau ákvæði laga sem fjalla um biðlaun. En ég held að það sé ekki síst ástæða til að gefa gaum að því að það hefur verið reynt að teygja og toga það hvort í raun væri um rétt til biðlauna að ræða eða ekki. Mig langar til þess að tala sérstaklega um það en ég held að það hafi verið tekið af skarið, svo að ekki verði um villst, að réttur til biðlauna er fyrir hendi. Það þarf að komast að samkomulagi og taka á þessum málum með réttum hætti en ekki í sérlögum um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins ef menn á annað borð eru ósáttir við laganna hljóðan. Í áliti Almennu málflutningsstofunnar sf. frá 7. apríl sl. stendur í 3. lið, með leyfi forseta:
    ,,3. Sambærilegt starf. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 gerir einungis ráð fyrir að ráðning eða höfnun ráðningar í sambærilegt starf á vegum ríkisins upphefji rétt til biðlauna. Af því leiðir að launuð atvinna hjá einkaaðila hefur eigi áhrif til biðlaunagreiðslna.
    Í tilviki starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins sýnist mér ótvírætt að allir starfsmenn þeirra eigi rétt til biðlauna í samræmi við starfstíma sinn á vegum stofnunarinnar enda þótt þeir kunni að þiggja starf hjá hinu nýja hlutafélagi ef frv. verður að lögum.``
    Í lögfræðiáliti Gests Jónssonar, frá 15. febr. 1992, er þessi tilvitnun, með leyfi forseta:
    ,,Hvað er sambærilegt starf? Þessari spurningu verður ekki svarað með fáum orðum. Þó má fullyrða á grundvelli dómafordæma Hæstaréttar, t.d. í Landssmiðjumálinu, í máli Guðrúnar Ágústsdóttur og málum starfsmanna flugumsjónardeildar ríkisins á Keflavíkurflugvelli, sem dæmd voru 1964, að boð um starf hjá hlutafélagi geti aldrei talist sambærilegt við starf hjá ríkinu í skilningi 14. gr. starfsmannalaganna. Hér þarf að hafa það í huga að 14. gr. er einmitt ætlað að tryggja ríkisstarfsmanni bætur í því tilviki að hann missi starf sitt sem ríkisstarfsmaður.``
    Það er í rauninni þessi ákvæði og þessi túlkun sem hefur valdið þeim vandamálum sem verið hafa og eru óleyst. Það er í rauninni afskaplega slæmt að það skuli vera skilið eftir opið og 7. gr. skuli vera haldið í frv. Ég held að þetta sé slæm leið til þess að takast á við þennan vanda vegna þess að hún eykur á hann frekar heldur en minnkar hann og ég held að við sitjum óhjákvæmilega uppi með að það geti mjög auðveldlega komið til málaferla.
    Hitt atriðið sem ég ætla að ræða er varðandi sölu eigna. Það hefur komið fram í máli bæði frsm.

meiri hluta og minni hluta sjútvn. sá skilningur og sú skoðun að það hafi ótvíræða kosti að halda Síldarverksmiðjum ríkisins saman sem einni heild. Ég veit að þetta er eitt af þeim atriðum sem mikið hefur komið til umræðu og eins og heyra mátti á ræðunum sem hér hafa verið fluttar. Ég vil taka það fram að m.a. í umsögn Sjómannafélagsins, og í áliti nefndar er gerði tillögur um endurskoðun laga um Síldarverksmiðjur ríkisins, kom þessi skoðun mjög eindregið fram einnig. Eftir því sem hv. frsm. meirihlutaálitsins sagði, þá er þetta skoðun nánast allra. Samt sem áður má segja að það hafi æ ofan í æ komið fram að ýmsir óttast að þrátt fyrir þetta séum við að taka óþarfa áhættu og við séum í rauninni að opna fyrir það að þetta fyrirtæki verði hlutað niður í einingar. Það er dálítið undarlegt vegna þess að jafnframt er ljóst að ef eignir, og ég tala nú ekki um viðskiptavild, færi á fullu verði er ekki hægt að ætla að einstaklingar eða sveitarstjórnir á þeim stöðum, þar sem Síldarverksmiðjurnar eru, séu í stakk búnar til að kaupa á fullu verði. Einhverra hluta vegna er það æ ofan í æ að koma upp í þessari umræðu að eitthvað slíkt geti gerst. Ég tel fulla ástæðu til þess að taka mark á þessum varnaðarorðum og mér er í rauninni óskiljanlegt hvers vegna meiri hlutinn í sjútvn. var ekki reiðubúinn til að nýta sér þá leið sem minni hlutinn býður upp á. Enn á eftir að fara fram atkvæðagreiðsla og vera má að menn vitkist á seinustu stundu. Reynslan hefur ekki sýnt manni að ýkjamikil ástæða sé til þess að vera svo bjartsýnn en í þessu tilviki þegar í rauninni er um að ræða meira og minna samdóma álit allra, þá sé ég ekki annað en það ætti að vera gráupplagt að nýta sér leiðir til þess að fylgja þessu áliti eftir.
    Það eru þessi tvö efnisatriði sem ég vel að gera að umræðuefni. Það mætti áreiðanlega taka fleira fyrir hér. Ég tek undir orð hv. frsm. minni hluta sjútvn. er hann bendir á atriði eins og hafnarmannvirki o.fl. Þetta var mjög nákvæmlega rætt innan nefndarinnar en til þess að forgangsröðunin sé örugglega ljós, þá læt ég hér staðar numið við þessi tvö atriði við þessa umræðu málsins.