Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:05:53 (6569)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Aðeins örstutt. Það sem skilur á milli okkar, hv. þm., er að minni hlutinn er tilbúinn að selja allt að 40% af hlutafé í þessu fyrirtæki. Það sem umfram er viljum við að komi til Alþingis og þurfi að samþykkjast hverju sinni.
    En í sambandi við töpin og það fjármagn sem hv. þm. er að segja að þurfi í þessi fyrirtæki, þá spyr ég: Þarf ekki þetta fjármagn, hver sem eigandinn er? Þarf ekki þetta fjármagn? Hv. þm. veit að það eina sem getur tryggt það eða a.m.k. gæti komið í veg fyrir og minnkað þetta tap er að það komi hér önnur ríkisstjórn. Meðan við höfum þig við völd, hv. þm., og þá aðra sem starfa með þér, þá er það vita vonlaust að reka hvort sem það eru Síldarverksmiðjur ríkisins eða aðra atvinnustarfsemi í landinu réttu megin við núllið. Svoleiðis hafið þið gengið um að það er vita vonlaust verk og þykjast ætla að kenna einhverjum stjórnum einhverra fyrirtækja um sem hafa lagt nótt við dag við það að reyna að halda þessari atvinnustarfsemi gangandi. Það er alveg vita vonlaust að reka atvinnufyrirtæki með slíka ríkisstjórn sem nú er.