Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:07:30 (6570)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Stefán Guðmundsson byrjaði þennan dag málefnalega og vel. Hann er hins vegar á dapurlegri braut og ég get ekki annað en sagt: Guð forði þessari þjóð ef hann og hans nótar komast til valda aftur.
    Hver er munurinn varðandi sölu hluta í fyrirtækinu í tillögum annars vegar meiri hlutans og hins vegar minni hlutans? Hann er einungis spurning um tíma. Hann er spurning um nokkur ár. Þeir vilja í fyrstu að ekki verði seldur neinn hlutur. Það má selja 40% síðan og eftir það má Alþingi ráða því hvort þetta verður selt eða ekki. Með öðrum orðum er hv. þm. Stefán Guðmundsson og hans félagar í minni hlutanum ekki í grundvallaratriðum á móti því að allir hlutirnir verði seldir heldur er það einungis spurning um tíma. Ég spyr þá: Hvar er frjálshyggjan? Hvar er meiri frjálshyggja í tillögum okkar og hins vegar í tillögum hins hv. og góða þm. Stefáns Guðmundssonar?
    Varðandi síðan töpin var það svo að hv. þm. Stefán Guðmundsson barði sér á brjóst fyrir hönd verksmiðjunnar og sagði: Ríkið hefur ekki tekið á sig nein töp. En núna í sinni síðustu ræðu benti hann á það og viðurkenndi að staða fyrirtækisins er orðin þannig að hvert sem rekstrarformið er, þá þarf eigi að síður að koma til allveruleg aðstoð. Það er hann búinn að viðurkenna. Hann velti sér upp úr rökleysunum og þverstæðunum. Það kemur mér á óvart vegna þess að ég þekki þennan hv. þm. að allt öðru.