Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:21:46 (6572)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Guðmundi Stefánssyni að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa malað gull fyrir þessa þjóð og hafa áratugum saman gegnt miklu hlutverki í atvinnulífi landsins. Ég held að það hafi verið mikil framsýni þegar Óskar Halldórsson, Íslandsbersi, fyrstur manna kom fram með hugmyndina um stofnun þeirra ég held árið 1924. Og ég minnist þess að í bók sinni ,,Óveður í aðsigi`` getur Þór Whitehead þess að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi verið ómissandi fyrir íslensku þjóðina á fyrri hluta og miðbik þessarar aldar þegar geysilegar gjaldeyristekjur bárust hingað inn vegna sölu á afurðum verksmiðjanna í Portúgal og Spáni. Verksmiðjurnar hafa þjónað góðum tilgangi og munu væntanlega gera það áfram og út af fyrir sig er ég ánægður með það að hv. þm. Guðmundur Stefánsson kemst að þeirri niðurstöðu að í rauninni sé ekki neinn djúpur efnislegur ágreiningur um þetta mál.
    Mig langar aðeins til þess, virðulegi forseti, af því að til mín hefur verið beint ákveðnum spurningum varðandi brtt. minni hlutans að fara um þær nokkrum orðum í e.t.v. ítarlegra máli heldur en ég hef gert hingað til. Við höfum þegar rætt afstöðu meiri hlutans til tillögu minni hlutans um að einungis verði heimilt að selja 40% hlutafjár en þó ekki fyrstu árin. Síðan vill minni hlutinn að vísu heimila söluna svo fremi sem Alþingi leyfi það. Mín skoðun á þessu máli er einfaldlega sú að ég tel að það eigi ekki með lagasetningu eins og þessari að takmarka svigrúm þeirra manna sem munu fá það verkefni að selja þessar verksmiðjur eða selja þetta nýja hlutafélag. Það kann vel að vera að niðurstaða þeirra verði sú að það verði einungis lítið eða ekkert selt af hlutum í verksmiðjunum til að byrja með. Það kann vel að vera að menn kjósi að fara þá leið sem minni hlutinn leggur til. Aðalatriðið í málinu er þó það að hendur sjútvrh. og þeirra manna sem hann kallar til þess verks verði ekki bundnar með neinum sérstökum lagafyrirmælum. Ég hygg að sala hluta hljóti að ráðast af markaðsaðstæðum hverju sinni. Það er mín skoðun og það kann vel að vera að einmitt núna beri vel í veiði að selja hlut í svona félagi. Það bendir margt til þess að loðnuveiðin verði góð næstu ár og af því sem mér skilst af samræðum við aðila sem eru í svipuðum rekstri utan verksmiðjanna, þá eru menn tiltölulega bjartsýnir um framvindu þessarar atvinnugreinar. En ég tel sem sagt að það eigi ekki að binda hendur þeirra manna sem er falið það verk að selja hlutafélagið eða hluta úr því. Hvort heldur það verður gert á næsta ári eða 10 árum skiptir mig ekki máli svo fremi sem þeir komist að þeirri niðurstöðu að salan fari fram við bestu aðstæður.
    Að því er varðar síðan tillögu hv. minni hluta sjútvn. varðandi kjör í stjórn verksmiðjunnar, þá hefur það margsinnis komið fram í ræðum mínum um efni sem tengist þessu að ég er þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga eigi ekki að vera að vasast í því að kjósa stjórnir í ríkisfyrirtækjum. Ég tel að það skipti miklu meira máli að til stjórnarsetu þar séu kvaddir þeir menn sem hafi ítarlega og góða þekkingu á því sviði sem viðkomandi ríkisfyrirtæki starfar. Og ég verð að segja það varðandi þessa tilteknu verksmiðju að ef Alþingi Íslendinga hefur tekið þá ákvörðun að treysta hæstv. sjútvrh. Þorsteini Pálssyni fyrir yfirstjórn sjávarútvegsmála íslenska ríkisins, hvers vegna í ósköpunum skyldi hún þá ekki treysta honum til þess að velja fimm menn í stjórn slíkrar verksmiðju? Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að tillögur minni hlutans ganga út á takmarkað traust til þess manns sem gegnir þessu embætti, þ.e. um leið og ríkið á orðið minni hluta í hinu tilvonandi hlutafélagi, þá má hann skipa menn í stjórnina. Ég sé ekki alveg rökin fyrir þessu. Ég hef ekki fundið rökin fyrir þessu né heldur fyrir því að það eigi að takmarka sölu hlutafjár við tiltekið magn á tilteknum tíma.
    Hv. þm. Guðmundur Stefánsson gerði heiðarlega tilraun til þess að koma með þá röksemdafærslu en mér fannst það ekki takast og satt að segja fannst mér örla á því að hv. þm. þætti þetta allt saman deilur um keisarans skegg og ég get með vissum hætti tekið undir það.
    Það eru tvö atriði sem mig langar að drepa sérstaklega á sem minni hlutinn gerir að tillögum sínu og hefur kvartað nokkuð undan því að meiri hluti sjútvn. skuli ekki hafa tekið undir. Það er annars vegar meðferð á eftirstöðvum rekstrartapsins og hins vegar meðferðin á hafnarmannvirkjunum.
    Það er auðvitað ljóst að í uppsöfnuðu tapi felst ákveðin eign og það er spurning hvernig á að fara með það. Ég vek athygli hv. þm. á því að í frv. er tekið skýrt fram að það eigi að fara fram mat á eignum og skuldum verksmiðjunnar til viðmiðunar um upphæð hlutafjár og eiginfjárstöðu. Og það er sagt skýrt í 8. gr. að sjútvrh. muni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúa stofnun félagsins, m.a. með skipan matsnefndar. Það er mín skoðun að það sé réttast að sú matsnefnd taki til mats þetta tap og meðferð þess. Auðvitað geta menn deilt um þetta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé betra að matsnefnd véli um þetta heldur en við förum að setja hér einhver fyrirmæli. Og það sama gildir um hafnarmannvirkin. Það er alveg rétt

að hafnarmannvirkin í eigu SR eru metin held ég á 370--380 millj. kr. og ríkið í gegnum SR hefur einungis haft kostnað af þessu í gegnum gjöld, í gegnum rekstur og viðhald. Engar tekjur. Verksmiðjurnar hafa samt sem áður þurft að greiða talsverðar upphæðir af hverju lönduðu tonni sem mig minnir að sé í kringum 200 kr. Auðvitað kemur það til greina að létta þessari byrði af hinu nýja hlutafélagi og það er mín skoðun að það sé matsnefndin sem eigi einmitt að meta það með hvaða hætti er tekið á því. Það kann vel að vera líka að hinu nýja hlutafélagi þyki réttast að selja ríkinu þessar eigur fyrir einhverja tiltekna upphæð. En þetta er ástæðan fyrir því að meiri hluti sjútvn. hefur ekki fallist á að taka þetta inn í sínar tillögur.
    Að því er varðar síðan sérstaka samstarfsnefnd, þá segi ég: Ég er þeirrar skoðunar að slík samstarfsnefnd sé af hinu góða. En ég held að það hljóti að vera mál hins nýja hlutafélags að taka ákvörðun um það. Ef sveitarfélögin á þeim stöðum þar sem þessar verksmiðjur eru staðsettar telja að það sé best fyrir framvindu samstarfs, fyrir framvindu reksturs verksmiðjanna að koma upp slíkri samstarfsnefnd þá munu þau væntanlega koma þeim óskum á framfæri við hlutafélagið og það verður þá á valdi stjórnar þess að taka ákvörðun um það. Ég mundi sjálfur telja að það væri æskilegt en eins og ég sagði áðan, þá tel ég ekki að það eigi að binda það í lög. Það sama gildir um ýmislegt annað sem þarna var um rætt af þeim þingmönnum sem töluðu áðan.
    Það kemur líka fram í tillögum hv. minni hluta sjútvn. að Alþingi þurfi að heimila sölu einstakra verksmiðja. Ég hef áður lýst mínum skoðunum í þessu máli. Ég tel að eðli starfseminnar og dreifing verksmiðjanna sé þess eðlis að það sé affarasælast fyrir hlutafélagið að hafa þær allar innan sinna vébanda. Ég tel að það gefi besta arðsvon og ég tel að einmitt arðsvonin muni knýja menn til þess að gera þetta svona. Menn hafa lýst því hérna hvernig fjárfestingar í nýrri verksmiðju á Seyðisfirði hafa leitt til þess að fyrirtækið hefur getað framleitt vöru sem er af meiri og betri gæðum heldur en áður, m.a. vegna þess að fyrirtækið hefur haft aðrar verksmiðjur sem það hefur getað stýrt lélegra hráefni til að geta einbeitt verksmiðjunni á Seyðisfirði að vinnslu besta fáanlega hráefnis í það gæðamjöl sem þar er framleitt. Ég held sem sagt að það muni verða þessi lögmál, lögmál hagnaðarvonarinnar sem hv. þm. Stefán Guðmundsson mun væntanlega nota sem tilefni til að kalla mig einhvern óðabelg frjálshyggjunnar. En ég tel að hún muni knýja hina nýju eigendur til þess einmitt að halda verksmiðjunum á einni hendi. Og ég vek eftirtekt á því að enginn maður með sæmilegu viti hefur mælst til að verksmiðjurnar eða fyrirtækið verði hlutað í sundur nema bæjarfulltrúi Sjálfstfl. á Siglufirði. ( ÓÞÞ: Er hann með sæmilegu viti?) ( Gripið fram í: Er þetta forsjárhyggja hjá þingmanninum?) Vegna þessa frammíkalls hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni vil ég láta það koma fram að Alþfl. hefur ekki látið fara fram sérstaka rannsókn á þeim manni en ég hygg af þeirri grein sem ég las eftir hann að hann sé með góðu viti. Hann hefur þessa skoðun og hann um það. Ég tel einfaldlega að þetta þjóni hvorki hagsmunum SR sem hlutafélags né heldur hagsmunum Siglfirðinga.
    Ég tel sem sagt ekki rétt að binda þetta í lög. Ég verð síðan að segja að auðvitað eru menn í hjarta sínu sammála um að það er rétt stefna sem flestir hafa tekið hér undir, sumir með hálfum hug og ekki mjög heitu hjarta að það sé rétt fyrir framtíð þessarar verksmiðju að breyta henni í hlutafélag. Mér vitanlega hefur einungis einn maður talað í aðra veru í umræðum um þessi mál. Hann hefur ekki talað í dag.