Staðsetning björgunarþyrlu

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:52:47 (6577)


     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það er sannarlega ástæða til þess að þakka hv. flm. fyrir þessa ágætu till. til þál. sem hér liggur fyrir til umræðu og vekja þar með athygli á því að það er nauðsyn á að úttekt fari fram um það hvar staðsetning björgunarþyrlu mundi þjóna best skipulagi björgunarmála hérlendis. Það er nú svo að jafnan þegar ný og mikilvirk tæki eru keypt til þess að þjóna fólkinu í landinu betur, þá þykir það oft sjálfgefið að þau séu staðsett í Reykjavík. Það hefur gilt t.d. um Landhelgisgæsluna og alla þá aðstöðu sem Landhelgisgæslan þarf á að halda til að gegna þjónustu sinni. Hingað til hafa umræður um nýja björgunarþyrlu fyrst og fremst tekið mið af því að slík þyrla mundi hafa aðsetur í Reykjavík eða nágrenni. Það er rétt sem kemur fram í grg. með þessari tillögu að viðbragðstími til fjarlægra landshluta er mismunandi langur eftir því hvar þessi eina þyrla yrði staðsett. En þá vaknar sú spurning þegar ný þyrla kemur hvort skapist nýjar aðstæður til þess að Landhelgisgæslan geti komið sér upp aðstöðu á landinu víðar en á einum stað. Það er án efa hægt að nefna fjölmörg tilvik sem hafa átt sér stað fjarri Reykjavík þar sem þyrla hefði ekki komið að gagni vegna þess hversu langt í burtu hún er staðsett frá þeim stað þar sem slys hefur orðið. Eigi að síður hefði þyrla getað bjargað ef sá atburður hefði átt sér stað í næsta nágrenni við staðsetningu þyrlunnar.
    Hér er verið að hreyfa mjög brýnu máli og þetta mál er svo brýnt að það þarf jafnmikla og jafnnákvæma skoðun og t.d. hvers konar þyrla er keypt, hverrar tegundar og hvað hún kostar. Þetta gildir ekki einvörðungu um þá þjónustu sem Landhelgisgæslan er að veita, þetta gildir um þá þjónustu slysavarna sem fram fer í landinu og þar er vel að verki staðið. Björgunarsveitirnar í landinu, Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg, reyna að þjóna öllu landinu sem best og óháð því hvar fólkið býr, reyna að byggja upp nauðsynlega þjónustu, nauðsynlegar varnir á hverjum einasta stað í næsta nábýli við fólkið þar sem það býr. Björgunarsveitirnar eiga einmitt þakkir skildar fyrir það hvernig þær hafa skipulagt starf sitt og hvernig þær hafa skipulagt björgunarnet sitt um landið allt og eru alltaf í viðbragðsstöðu sem næst vettvangi hverju sinni. Það er náttúrlega spurning þegar starfsemi Landhelgisgæslunnar er til umræðu hvort hún verði ekki að taka mið af þessum aðstæðum í skipulagi og starfsháttum sínum. Ég trúi því að hæstv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. dómsmrh. muni einmitt skoða þetta mjög gaumgæfilega þegar ný þyrla kemur til landsins og taki til endurskoðunar þessa staðsetningu. Nú veit ég að Landhelgisgæslan vinnur mjög gott starf við erfiðar aðstæður. En það sem skiptir máli er staðsetning eða heimahöfn björgunartækjanna.
    Ég vil aftur ítreka þakklæti mitt til flm. fyrir það að leggja fram þessa tillögu og hreyfa þessu máli. Ef Alþingi gefst ekki tími til að afgreiða þetta mál frá sér fyrir þinglok þá trúi ég því að þessar umræður muni verða til þess að hæstv. dómsmrh. muni hafa forustu um að þessi úttekt, að þessi endurskoðun fari fram og það verði ekki sjálfgefið að ný björgunarþyrla sem kemur til landsins verði staðsett í Reykjavík eða næsta nágrenni.