Staðsetning björgunarþyrlu

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:18:58 (6582)


     Flm. (Jón Kristjánsson) :
    Frú forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls um tillöguna fyrir góðar undirtektir og stuðning við hana. Það eru örfá atriði sem komu fram í þeirra máli sem ég vildi fjalla örlítið nánar um. Hv. 14. þm. Reykv. taldi tillöguflutninginn byggja á nokkrum misskilningi og það væri sjálfgefið þegar ný björgunarþyrla kæmi að tvær þyrlur yrðu í rekstri fyrir Landhelgisgæsluna. Ég geri mér alveg grein fyrir að það er óskastaðan en hins vegar liggur ekkert fyrir um það enn þá hvort Landhelgisgæslan fær fjárveitingar til að standa undir rekstri tveggja björgunarþyrlna og starfsemi hennar verði efld að því marki.

Ef hv. þm. standa í þeirri meiningu að það sé tryggt þá held ég að þar sé um svolítinn misskilning að ræða. Það liggur ekkert fyrir um það á þessari stundu. Ég vildi að svo væri og mun styðja það. Það liggur í hlutarins eðli.
    Hins vegar þarf ekki annað en lesa skýrsluna frá 1991 til þess að sjá að það eru hugmyndir uppi um nánari samvinnu við varnarliðið í þessum efnum sem rekur fjórar þyrlur og ég held að þeir eigi von á þeirri fimmtu. Ég sé ekki að það sé niðurstaða í því á þessari stundu hvor leiðin verði farin. Ef sú leið verður farin að semja við varnarliðið, eins og stjórnarstefnan virðist vera, þá vona ég, og á því byggist þessi tillöguflutningur, að það sé ekki ætlunin að hafa um alla framtíð fimm eða sex þyrlur á þessu landshorni en bæta ekki úr hinu. Það er þess vegna sem þessi tillaga er flutt, m.a. til að ýta á eftir því að þessari staðsetningu verði breytt. En það er auðvitað óskastaðan ef Landhelgisgæslan verður efld til þess að halda úti tveimur slíkum tækjum.
    Ég geri mér alveg grein fyrir því líka að ný björgunarþyrla með afísingartækjum hefur miklu meiri möguleika en sú þyrla sem núna er og þarf ekki að fljúga með ströndum fram í öllum tilfellum. Það hefur ekki áhrif á þetta mál. Flugtími austur fyrir land og norðaustur fyrir land er á annan klukkutíma þó flogið sé beint. Það er náttúrlega alveg ljóst að viðbragðstíminn er tiltölulega langur þrátt fyrir það. Það hefur því engin sérstök áhrif í þessu máli og engin úrslitaáhrif þó það hafi vissulega mjög mikil áhrif á getu Landhelgisgæslunnar til þess að koma bjargar í misjöfnum veðrum og það styttir vissulega viðbragðstímann ef hægt er að fljúga yfir öræfi í misjöfnum veðrum með afísingartækjum. Það er alveg ljóst og enginn misskilningur á ferðinni varðandi það.
    Um það að við séum of snemma á ferðinni með þennan tillöguflutning og það liggi ekkert á vegna þess að afgreiðslutími björgunarþyrlu sé svo langur þá kemur það mér --- því miður er hv. 5. þm. Reykv. farinn --- á óvart að heyra það úr þessum ræðustól að það liggi ekkert á varðandi mál sem snerta björgunarþyrlur og staðsetningu þeirra. Hér hefur eðlilega verið talað þannig að það lægi á í þessum málum. Ef slík áætlun liggur fyrir áður en ný björgunarþyrla kemur þá er það vel. En því miður er reynslan sú af þessum málum í gegnum árin að margar skýrslur hafa verið framleiddar og margar nefndir hafa verið að störfum en það eina sem áþreifanlegt er í sambandi við Landhelgisgæsluna er að það hefur verið skorið niður fjármagn til hennar ár eftir ár. Í þeirri stöðu eru málin. ( Gripið fram í: Sagði einhver að það lægi ekkert á?) Hv. 5. þm. Reykv. sagði að tillagan væri kannski heldur snemma á ferðinni. (Gripið fram í.) Hv. 5. þm. Reykv. fagnaði því að hún hefði komið en hann sagði eigi að síður að sér fyndist hún vera heldur snemma á ferðinni. En ég þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir öflugan stuðning við tillöguna og reyndar hv. 5. þm. Reykv. einnig.
    Ég þarf í rauninni ekki að bæta miklu við þetta mál. Ég vona að þessi tillaga fái framgang. Það er rétt sem hv. 6. þm. Norðurl. e. benti á að ég flutti á Alþingi tillögu um könnun á stofnun alþjóðlegrar björgunarsveitar. Það mál var samþykkt og vísað til meðferðar hjá ríkisstjórninni. Þar var sett í gang einhver skoðun á því máli sem því miður virðist hafa dagað uppi. Sérhverju strandríki ber, samkvæmt hafréttarsáttmálanum, skylda til að stunda björgunarstörf á sínu hafsvæði. Það hafsvæði er mjög stórt, svo ekki sé meira sagt, hér á Norður-Atlantshafi. Ég held að reynslan af björgunarstörfum okkar Íslendinga við hinar verstu aðstæður sýni að við getum haft forustu um þau mál og tekið að okkur veigamikið hlutverk í því efni ef við fengjum um það samstöðu meðal nágrannaþjóða.
    Það væri hugnanleg framtíðarsýn að geta leyst öll þessi mál á borgaralegum grunni en þurfa ekki að hafa samstarf við varnarliðið um málið þó þeir hafi unnið ágætt starf. Þeirra forgangsverkefni tengjast auðvitað hernum og hernaðarstarfsemi ef eitthvað slíkt væri uppi. Það er því auðvitað miklu ákjósanlegra að hægt væri að leysa þessi mál á borgaralegum grunni. Að því miðaði sú tillögugerð á sínum tíma en því miður er það svo með hana, eins og svo margt um þessi mál, að framkvæmdin gengur seint.