Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 18:51:20 (6594)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrsta spurning mín til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar: Hvar fer fram umræða um mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu? Eftir því sem við lesum í blöðum þá er tvíhöfða nefndin strand og því væri mjög æskilegt að það yrði upplýst hérna.
    Ég vil taka það skýrt fram til að forða öllum misskilningi að mér er ekkert gleðiefni að athafnamenn og menn í fiskvinnslu og sjávarútvegi séu komnir langt fram úr stjórnvöldum varðandi þessa þróun, síður en svo. En ég ætla ég ekki að fara í pólitískt karp út af þessu og út af því hver er í utanrrn. á hverjum tíma. Því miður sýnist mér ekki að þar hafi menn þann mannafla eða annað að það sé mjög mikils að vænta nema þá í mjög náinni samvinnu við athafnalífið. Eins og ég hef skynjað það er það sú þróun sem er að verða bæði í rannsóknum nema þá algerum grunnrannsóknum, frumrannsóknum, bæði í rannsóknum og markaðsstarfi á vegum stjórnvalda að það sé að færast í það horf að um sé að ræða mjög náið samstarf, að það sé í raun atvinnulífið sem sé hið leiðandi afl en stjórnvöldin veiti þjónustu og aðstoði eftir því sem menn telja æskilegt á hverjum tíma að fé skattborgara renni til slíkrar starfsemi. Ég vildi fyrst og fremst koma á framfæri spurningu um hvar stefnumótunin færi fram.
    Síðan bara rétt að lokum, ég hef ekki trú á að það hafi verið nokkur tilviljun að hv. þm. var staddur á þingi sjö þúsund indíána.