Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 18:53:36 (6595)

     Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara þeim skætingi sem hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson hefur um rauða kynstofninn en ég verð að segja það að af mínum takmörkuðu kynnum af honum þá sýnist mér að hann taki langt fram ýmsum þeim ágætu hvítingjum, sem fylla nú Framsóknarflokkinn, án þess að ég fari út í að nefna nein nöfn. Varðandi spurningu hv. þm. um hvar umræðan fer fram um tillögu að nýrri sjávarútvegsstefnu er ljóst að hún hefur farið fram innan tiltekinnar nefndar sem kölluð hefur verið tvíhöfði. Að vísu hefur nú einn af uppáhaldsbankastjórum hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar kallað það fjórhöfða nefnd enda skíni þar við sólu skalli Kristjáns Ragnarssonar og sjái á sléttkembdan koll Þorsteins Pálssonar hæstv. sjútvrh. Þar fer þessi umræða fram. Henni er lokið. Fyrir liggja tillögur nema um það eina atriði sem enn er ágreiningur um og við höfum ekki lagt neina dul á að það er ágreiningur milli stjórnarflokkanna um eitt tiltekið atriði í því frv. sem samið hefur verið af sjútvrh. og varðar þróunarsjóð sjávarútvegsins. Ég á von á því að sá ágreiningur verði jafnaður innan nokkurra daga og hv. þm. Jóhannes Geir fái þá ánægju að ræða það í þessum sölum og kannski fram á sumar.
    Hv. þm. gat þess enn fremur að sú þróun færist nú í vöxt að atvinnulífið ráði ferð, bæði hvað varðar rannsóknir og þá væntanlega menntun og ýmislegt fleira. Það er rétt hjá honum og það er að ýmsu leyti

gott en það eru líka gallar á þeirri þróun. Ég tel að varðandi þetta tiltekna mál sem við höfum til umræðu, þ.e. öflun veiðiheimilda í lögsögu erlendra ríkja, væri æskilegt að atvinnulífið hefði forgöngu, legði fram óskir sínar og utanríkisþjónustan og þess vegna stjórnmálamenn legðu þar hönd á plóg. Þeir mundu sinna þeim óskum sem þar kæmu fram. Ég tel sem sagt ekkert óeðlilegt við það að atvinnulífið taki forustu í þessum málum. Ég tel það þvert á móti gott.