Endurreisn urriðastofns í Efra-Sogi og Þingvallavatni

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 18:57:57 (6597)

     Flm. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðna Ágústssyni og Gunnlaugi Stefánssyni um endurreisn urriðastofns í Efra-Sogi og Þingvallavatni. Till. sjálf hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að setja á fót nefnd til að meta með hvaða hætti er kleift að endurreisa urriðastofninn og urriðaveiði í Efra-Sogi og Þingvallavatni.
    Nefndin skal m.a. meta hvort unnt sé að opna aftur fyrir rennsli Sogsins í hinum náttúrulega árfarvegi milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns að hluta eða öllu leyti en í farveginum og aðdraganda hans voru áður mikilvægustu hrygningar- og uppeldissvæði urriðans í vatnakerfi Þingvallavatns.
    Ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að þessi tillaga er flutt er þríþætt.
    Í fyrsta lagi er mönnum sífellt að verða ljóst hvílík umhverfisspjöll voru unnin með byggingu Steingrímsvirkjunar á sínum tíma en hún leiddi til hruns hins stórkostlega urriðastofns í Efra-Sogi og Þingvallavatni og drap jafnframt niður sterkan bitmýstofn sem var mikilvægur hlekkur í fæðukeðju fiska í Þingvallavatni. Sterkar vísbendingar eru jafnframt að koma í ljós sem benda til að röskunin sem varð með Steingrímsvirkjun hafi leitt til breytinga á vistkerfi vatnsins sem ekki birtust fyrr en áratug síðar, þ.e. á síðasta áratug eins og ég vík að síðar ef tími vinnst til. Þess vegna er enginn vafi á því í mínum huga að í dag hefði ekki nokkrum lifandi manni dottið í hug að byggja Steingrímsvirkjun. Á þeim tíma, sem hún var reist, voru hins vegar viðhorf til umhverfisverndar allt öðruvísi en þau eru í dag. Virkjunin laskaði vistkerfi vatnsins og okkur ber að skila náttúrunni aftur því sem við höfum af henni tekið ef þess er nokkur kostur. Vatnið og hið upprunalega lífkerfi vatnsins er mikilvægur hluti af þeirri arfleifð sem landið hefur skilað okkur og það er partur af ómetanlegri náttúru og við eigum að gæta þess ekki síður en menningararfsins.
    Í öðru lagi hafa komið fram hugmyndir um að endurreisa stofninn með stórfelldum sleppingum á urriðaseiðum. Ég tel það afar gáleysislega og varhugaverða hugmynd. Þess vegna er ekki síst nauðsynlegt að setja niður nefnd hinna bestu manna til að meta með hvaða hætti er hægt að skila Þingvallavatni aftur urriðastofninum. Tillagan gengur í sjálfu sér mjög skammt. Hún lýtur einungis að því að nefnd manna verði sett á laggirnar til að kanna alla möguleika. M.a. mun hún þá fjalla um þessar sleppingarhugmynd og ég er viss um að hún kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé fráleit.
    Í þriðja lagi hafa skapast þær aðstæður í raforkuframleiðslu landsmanna að fyllilega er komið á dagskrá að athuga hvort ekki sé hægt að opna aftur mynni Sogsins með því að leggja Steingrímsvirkjun af að öllu leyti eða að hluta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé kostur sem menn eigi að hugsa í fullri alvöru. Það mundi lyfta grettistökum fyrir endurreisn hins gamalgróna urriðastofns. Ég vil líka að fram komi að alltaf er að koma betur og betur í ljós hversu afleitar afleiðingar sveiflur í vatnsborði Þingvallavatns hafa haft

fyrir búsvæði annarra fiska, einkum kuðungableikjunnar, sem er alveg sérstök bleikjugerð í Þingvallavatni og er í kreppu vegna þessara yfirborðssveiflna. Með því að opna fyrir rennsli Sogsins og koma á stöðugu streymi um það, þó það þurfi ekki að vera fullt streymi, væri hægt að eyða þessum sveiflum.
    Virðulegi forseti. Þingvellir og vatnið sjálft eru efalítið ein dýrmætasta perla íslenskrar náttúru. Í líffræðilegu tilliti hefur vatnið aðþjóðlegt gildi fyrir þá sök að það er hið eina í heiminum þar sem fjögur vel aðgreind afbrigði af heimskautableikju hafa þróast. En auk bleikjunnar var Þingvallavatn áður þekkt fyrir mjög sterkan urriðastofn sem snemma á nítjándu öldinni varð víðfrægur um Evrópu og veiðimenn hvaðanæva að úr álfunni sóttu til veiða. Rannsóknir hafa ekki verið gerðar á því en margt sem ég hef séð bendir eigi að síður til þess að urriðinn í vatninu hafi skipst í nokkra staðbundna stofna. Langmikilvægustu riðstöðar og uppeldissvæði tegundarinnar var að finna í þrengslunum í Kaldárhöfða þar sem Sogið féll úr Þingvallavatni enda var urriðinn sem veiddist í Efra-Sogi frægur fyrir stærð og fjölda. Hann náði fáheyrðri stærð.
    Veiðidagbækur Jóns Ögmundssonar frá Kaldárhöfða á fyrri hluta aldarinnar sýndu að urriðar á milli 20 og 30 pund voru tíðir í veiðinni og í Þingvallabók sinni getur Björn Th. Björnsson þess að til séu staðfestar heimildir um tvo 36 punda urriða. Ástæðurnar fyrir því að stofninn náði svo góðri afkomu við Sogið eru að við útfallið var mjög góður og margbreytilegur straumur og þar var jafnframt að finna möl af heppilegum grófleika fyrir hrygningu urriðans og þrátt fyrir stríðan straum í útfallinu er líklegt að stórgrýti í árfarveginum hafi víða skapað nægilegt skjól fyrir árangursríka hrygningu. Straumurinn við útfallið skapaði jafnframt kjörskilyrði fyrir bitmýið sem var að öllum líkindum mjög mikilvæg fæða fyrir urriðann og raunar bleikjuna einnig einkum á yngri stigum. Urriðinn gekk líka til hrygninga í Öxará og þar er líklegt að staðbundinn stofn hafi tengst ánni. Sömuleiðis er urriða enn þá að finna í ýmsum straumvötnum sem falla til Þingvallavatns víðs vegar að. Að vísu er Þingvallavatn sérstakt fyrir þá sök hvað fá straumvötn falla til þess.
    Nú er hins vegar svo að skilyrði fyrir hrygningu og vöxt urriðans hafa gjörbreyst til hins verra. Það virðist sem landsig við Öxará hafi breytt straumlagi á hefðbundnum riðstöðvum urriðans þar til hins verra og framleiðsla árinnar á urriðaseiðum er fyrir vikið miklu minni en áður. Árið 1959 var Steingrímsstöð reist í þrengslunum í Kaldárhöfða og útfall Sogsins var þá þvergirt. Þar með var urriðinn sviptur helstu riðstöðvum sínum en eins og ég gat um áðan þá er farsæl hrygning þessa sprettharða fisks háð réttum straumi og réttum grófleika malar og hvort tveggja var þar til staðar.
    Á þjóðhátíðardaginn 1959 urðu síðan enn kaflaskil. Þá brast stíflan í þrengslunum og Sogið flæddi niður í tvöföldu vatnsmagni og svipti með sér mjög þykku magni af riðmöl sem var utan við útfall virkjunarinnar. Þessi riðmöl hefði mögulega nýst til að halda uppi einhverjum hluta stofnsins sem áður hélt til við mynni Sogsins. En með þessu var þeim möguleika svipt á brott. Ég tel því engan vafa leika á því að með virkjun Steingrímsstöðvar og stíflun Sogsins hafi orðið röskun á vistkerfi hins náttúrulega útfalls Þingvallavatns. Það bókstaflega hvarf. Þar með hvarf undirstaðan fyrir hrygningu og uppeldi hins sterka urriðastofn í Soginu og eins og ég sagði áðan bendir margt til þess að áhrif þessarar íhlutunar í vistkerfi Þingvallavatns hafi ekki komið fram fyrr en miklu síðar. Vert er að geta þess að urriðinn í Þingvallavatni er sérstakur að því leyti að hann er feikilega gamall stofn, hann er af svokölluðu fyrsta landnámi en þeir stofnar rekja rætur sínar til forfeðra sem urðu innlyksa í vötnum þegar ísaldarjökullinn hopaði fyrir níu til tíu þúsund árum. Einungis eru örfáir stofnar eftir í Evrópu af þessum uppruna og það undirstrikar enn þýðingu þess að varðveita þennan hluta af arfi þjóðarinnar.
    Til eru dagbækur, og þá fyrst og fremst dagbækur Jóns Ögmundssonar úr Kaldárhöfða, sem veita mjög fróðlega innsýn í veiðina og gefa ljóslifandi mynd af því hversu gjöfullt vatnið var. Mig langar að grípa niður á tveimur stöðum í dagbækur Jóns Ögmundssonar til að gefa af þessu nokkra mynd. 9. mars skráir Jón í dagbók sína að hann hafi þann dag veitt 14 punda urriða í net undir ís í Skútavík. Fimm dögum síðar veiðir hann það sem hann kallar allgóðan urriða á dorg og enn tekur hann 11 punda urriða á dorg tveimur dögum síðar. Haustveiðin var ekki síðri þetta ár. 30. september skráir Jón í bók sína, með leyfi forseta: ,,Við fengum þrjá stóra urriða í sama netið við efri skúrinn. Þeir voru 8 pund, 15 pund og 19 pund að þyngd. Auk þess fengum við einn 6 punda við hornið fyrir ofan skúrinn. Urriðarnir sem við fengum þann 27. þessa mánaðar voru 13 punda og 22 punda.`` Vikuna á eftir veiðir Jón Ögmundsson enn nokkra urriða sem losa 10 pund og 7. október skrifar hann um veiði sína og félaga síns Ragnars, með leyfi forseta. ,,Í gær fengum við Ragnar 22 urriða í Soginu á stöng, sá þyngsti var 14 pund og fékk Ragnar í Arnarhyl. Ég fekk þyngst 6 punda urriða í Aðhaldinu. Í dag renndi ég aftur í Sogið og fékk 12 urriða, einn af þeim var 18 pund.`` En veiðidagar Jóns Ögmundssonar í Káldárhöfða voru ekki taldir. Í ágústlok árið eftir veiðir Jón Ögmundsson 26 punda urriða á stöng en ,,það er langþyngsti urriðinn sem ég hef dregið`` segir Jón sínum ágætu minningum.
    Á grundvelli veiðitilrauna hafa menn reiknað út að um 700 tonn eru af bleikju í vatninu og miðað við hlutfall hennar og urriða, sem er ránfiskur efst í fæðukeðjunni, þá hafa menn talið að fyrir virkjunina hafi verið um 60--70 tonn af urriða í vatninu. Í vatninu er jafnframt eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, að finna fjórar bleikjugerðir og það er ekkert vatn í heiminum sem hefur slíkt úrval bleikjugerða.     Þarna er á ferðinni mjög merkileg tegundarþróun sem sést óvíða og stafar af því hversu lengi bleikjan hefur fengið að vera í vatninu og fæðuskilyrði hafa verið góð og jafnframt hefur verið lítill samkeppnisþrýstingur frá öðrum tegundum.
    Mig langar, virðulegi forseti, lítillega til að drepa á samspil urriðans og murtunnar í vatninu. Vistkerfið hefur þróast um árþúsundir og samspil tegundanna er afskaplega flókið og margþætt. Ef ein þeirra laskast kann það að hafa áhrif á aðra. Og ég tel því --- og fleiri heldur en ég --- að urriðastofnarnir hafi án efa sveiflast í takt við sveiflur murtustofnsins. Þegar sterkir seiðaárgangar murtunnar komu fram jókst framboð á fæðu fyrir urriðann sem að sama skapi óx bæði að stærð einstaklinga og fjölda. Þegar dró síðan aftur úr murtustofninum er líklegt að það hafi speglast í verri afkomu urriðans á eftir. Þannig hefur urriðastofninn að líkindum temprað sveiflur í murtustofninum og samspil tegundanna haldið þannig vistkerfi vatnsins í því horfi sem féll best að ástandi þess hverju sinni.
    Virðulegi forseti. Svo virðist sem þróun murtunnar hin seinni ár renni stoðum undir þessi tengsl murtu og urriða. Eins og kunnugt er hrundi veiðin á murtu á síðasta áratug. Eftir að 60 tonn veiddust í net árið 1983 dró mjög snögglega úr veiðinni uns henni var næstum því hætt árið 1986. Ekkert benti til þess að stofninn hefði minnkað heldur sýndu rannsóknir þvert á móti að lífþyngd hans hefði aukist nokkuð hratt. Hins vegar kom í ljós að á sama tíma minnkaði meðalstærð murtunnar verulega, lengd hænga féll úr 18 sm 1984 niður í 13 sm 1989. Á sama tíma smækkuðu hrygnurnar úr 19 sm niður í 15 sm. Þessi þróun hafði afgerandi áhrif á nytjaveiðina í netin. Netin taka ekki minni fisk en 17,5 sm þannig að hrun netaveiðinnar orsakast fyrst og fremst af smækkun meðalmurtunnar. Athuganir á gögnum úr rannsóknum benda til að í upphafi síðasta áratugar hafi einmitt komið fram sterkir árgangar og fjöldi einstaklinga í veiðistofni murtunnar hafi því aukist verulega þegar kom fram yfir miðjan áratuginn. Fæðuframboð í vatninu er hins vegar takmarkað og það leiðir til hægari vaxtar. Meðalstærð murtunnar við kynþroskann verður þar með minni og þegar hún verður kynþroska þá dregur enn úr vextinum og enn minnka líkurnar á að hún nái veiðanlegri stærð fyrir netaveiðar. Þessi atburðarás var einmitt staðfest með samanburði á dýrasvifi milli áranna 1984 og 1989. Hann leiddi í ljós mikla fækkun svifkrabba sem viðgangur murtunnar á allt sitt undir. Það er þess vegna litlum vafa undirorpið, virðulegi forseti, að hvarf urriðans úr Þingvallavatni vegna virkjunarinnar í Kaldárhöfða á mikinn þátt í þessari þróun. Með honum hvarf sá hemill sem vistkerfið í vatninu hafði öldum saman notað til þess að draga úr óhóflegri fjölgun murtunnar í árum þegar saman fór vel heppnuð hrygning og gnótt fæðu fyrir murtuseyðin. Afleiðingarnar birtust sem sagt í mikilli fjölgun murtunnar á síðasta áratug samhliða verulegri smækkun hennar. Það blandast því engum hugur um, sem skoðar þetta mál til hlítar, að íhlutun mannsins í hið dýrmæta vistkerfi Þingvallavatns hefur leitt til mjög óæskilegra breytinga á lífríki vatnsins og það er þess vegna eðlilegt að leiða sé leitað til að bæta þennan skaða. Það koma ýmsir möguleikar til greina í því sambandi en ég tel að á þessu stigi sé eðlilegast að nefnd sé falið að kanna og meta þessar leiðir og gera síðan tillögur til úrbóta.
    Virðulegi forseti. Það má e.t.v. halda því fram að efni tillögunnar falli undir svið landbrn. Áhersla hennar er hins vegar á vistfræðilega og líffræðilega verndun. Þess vegna leggjum við tillögumenn það til að það verði umhvrh. sem skipi þessa nefnd þó að það sé vitaskuld mála sannast að það þarf að nást víðtæk og góð samvinna allra viðkomandi aðila um þetta mál.
    Ég vil því leggja til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. umhvn.