Tilraunaveiðar og þróun veiðarfæra vegna veiða á ígulkerum

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 19:12:49 (6598)

     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um stuðning við tilraunaveiðar og þróun veiðarfæra vegna veiða á ígulkerum. Tillögugreinin hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að láta rannsóknastofnanir sjávarútvegsins skipuleggja ráðgjöf og stuðning við þróun veiðarfæra og veiðiaðferða hjá útgerðum sem stunda veiðar á ígulkerum.``
    Í greinargerð með tillögunni segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Veiðar á ígulkerum hafa lítið verið stundaðar hér við land. Að undanförnu hefur áhugi á vinnslu ígulkera farið vaxandi, en markaður fyrir ígulker er bæði í Evrópu og þó sérstaklega í Japan, og þróun veiðarfæra og veiðiaðferða er mikilvægur þáttur í því að gera veiðarnar arðbærar.
    Veiðar á ígulkerum eru nýtt viðfangsefni útgerða og sjómanna. Því er mjög mikilvægt að opinberar rannsóknastofnanir veiti beinan stuðning við þróun veiðarfæra til þess að gera útgerðum kleift að stunda tilraunaveiðar. Telja verður eðlilegt að Hafrannsóknastofnun njóti til slíkra verkefna sérstakra framlaga og stuðnings.
    Samkvæmt botndýrarannsókn í Breiðafirði, sem gerð var í október sl. í samvinnu Hafrannsóknastofnunar og útgerða skelbáta við Breiðafjörð, er grænígull (skollakoppur) og marígull í verulegu magni á

ákveðnum svæðum í Breiðafirði. Auk rannsókna í Breiðafirði hafa farið fram rannsóknir í Ísafjarðardjúpi sem tóku yfir heilt ár og bentu til að þar væri nægjanlegt magn til að standa undir vinnslu. Sömuleiðis fóru fram rannsóknir í Hvalfirði sem stóðu yfir í 21 mánuð. Niðurstöður rannsókna í Hvalfirði gáfu ekki óyggjandi vissu um að stofn væri af veiðanlegri stærð. Ljóst er að frekari rannsóknir eru nauðsynlegar á veiðisvæðum, auk þess sem gera þarf tilraunir með veiðarfæri.
    Í fyrstu fóru veiðar á ígulkerum fram með köfun. Einnig hafa útgerðir reynt að þróa veiðitækni með sérstökum plóg þar sem reynsla af veiðum á hörpudiski er nýtt við ígulkeraveiðar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða áhrif veiðarfæri, svo sem plógur, hafa á umhverfi botnsins. Meðal markmiða með rannsóknum veiðarfæra er að þróa veiðarfæri er leiða til sem minnstrar röskunar á umhverfi botnsins.
    Til þess að ná sem bestum árangri er nauðsynlegt að veita stuðning við þróun veiðarfæra og veiðitækni. Í þeim tilgangi er þessi tillaga flutt.``
    Í þessari stuttu greinargerð eru dregin saman aðalatriði er lúta að efni tillögunnar. Ekki liggja fyrir miklar upplýsingar eða gögn um veiðar á ígulkerum. Ég leitaði upplýsinga hjá sjómönnum sem hafa stundað veiðar á Breiðafirði og fékk greinargerð sem Pétur Ágústsson skipstjóri í Stykkishólmi tók saman en hann hefur verið frumkvöðull við veiðar á ígulkerum með plógi úr Breiðafirði. Ég vil vitna hér til þeirrar skýrslu, með leyfi forseta, en þar segir m.a.:
    ,,Eftir að vinnsla ígulkera hófst á Breiðafirði nú sl. haust var hugmyndin að afla eingöngu með köfun. Það kom hins vegar fljótlega í ljós að öflun á þann veg var að mörgu leyti mjög stopul. Þar komu til nokkrir þættir. Þar voru fyrst og fremst til fyrirstöðu kuldi, veðurfar og stuttur dagur á þeim tíma sem öflunin er hagstæðust hvað varðar gæði ígulkera. Vinna sem þessi er mjög erfið að öllu jöfnu, sérstaklega að vetrarlagi. Úthald venjulegs kafara er einungis 4--5 tímar á dag undir yfirborði við normal aðstæður. Þá er átt við dýpi ofan við 5--6 metra. Við erfiðari aðstæður og meira dýpi var þessi tími mun minni. Á dýpi neðan við 10 metra er þetta óframkvæmanlegt með neinum afköstum.
    Við góðar aðstæður getur kafari tínt ca. 300 kg á dag. Miðað við venjulega vetrartíð hér eru síðan miklar frátafir vegna veðurs og kuldatíðar. Á þessu sést að öflunin var byggð á ótraustum grunni þegar út í vinnslu var komið og erfitt að hafa stöðuga og trausta vinnu fyrir starfsfólk. Aðstandendur ígulkeravinnslunnar sáu því brátt að til annarra ráða þurfti að grípa.``
    Þeir aðilar sem höfðu hafið vinnslu óskuðu því eftir að reynt yrði við veiðar með búnaði sem var til staðar á farþegabátnum Hafrúnu sem gerður hefur verið út vegna ferðamannaþjónustu. Síðan segir í greinargerð Péturs Ágústssonar:
    ,,Við komumst fljótt að raun um að veiðitækið sjálft þurfti gagngerðra endurbóta við. Við stóðum síðan í tilraunaveiðum á Hafrúnu fram í janúar sl. og gekk nokkuð vel. 21. jan. sl. hófust síðan tilraunaveiðar á vel útbúnum bát, 40 tonna fiskibáti, með það í huga að kanna hvaða afköstum sé hægt að ná með góðum búnaði. Við höfum síðan stundað þessar tilraunaveiðar af fullum krafti og gerum enn um sinn. Síðan segir:
    ,,Við eyddum að vísu sjö veiðidögum á tímabilinu til leitar víðar í Breiðafirði eftir sérstakri áætlun frá Hafrannsóknastofnun undir stjórn fiskifræðings. Fyrir utan þessa leit höfum við reynt veiðar mjög víða og teljum okkur hafa nú þegar nokkuð mikla reynslu hvað varðar þekkingu á veiðisvæðum og veiðitækni, sérstaklega í sunnanverðum Breiðafirði. Þessar tilraunir okkar hafa að öllu leyti verið kostaðar af útgerðinni ef frá er talinn sá tími sem tilraunasamstarfið stóð við Hafrannsóknastofnun. Þar greiddu opinberir aðilar og vinnsluaðilar hluta kostnaðar. Þegar tímabilið sem veiðarnar hafa staðið yfir, umfang skipa og veiðitækja og mannskapur sem við veiðarnar hafa unnið, eru skoðaðar borið saman við þær tekjur sem útgerðin hefur fengið fyrir afla og þátttöku í leitarkostnaði sér hver maður að sá fórnarkostnaður er langt umfram útgjöld. Auk veiðitímans sjálfs hefur einnig verið eytt miklum tíma og fjármunum í að þróa og smíða veiðarfæri og annan útbúnað. Við teljum nauðsynlegt að fram fari ítarlegri könnun og stofnmæling bæði hér í firðingum sem og annars staðar við landið. Við höfum eingöngu veitt á dýpi neðan við 10 metra og teljum því að kanna verði einnig þau svæði þar sem eingöngu er hægt að ná upp ígulkerum með köfun. Við teljum að ekki verði hægt að byggja upp veiðar og vinnslu eingöngu með plógaveiði.``
    Hér lýkur, virðulegi forseti, tilvitnun í skýrslu skipstjórans, en þessi tilvitnun í greinargerð hans sem hefur stundað tilraunaveiðar ígulkera sýnir að nauðsynlegt er að þróa veiðarfæri og veiðitækni svo nýta megi þessa auðlind á sem hagkvæmastan hátt án þess að ganga á hana eða skaða botn og það vistkerfi sem ígulkerin og önnur botndýr lifa við, en fjölmörg botndýr sem nú eru ekki nýtt gætu orðið nýtanleg sem markaðsvara tækist að þróa veiðar og vinnslu á sem hagkvæmastan hátt.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. sjútvn.