Könnun á nýtingu ígulkera

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 19:34:03 (6601)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 17. þm. Reykv., 1. flm. þessarar tillögu, fyrir ágæta tillögu sem hér er til umræðu. Það fer ekki á milli mála eins og kom nú reyndar fram í umræðu hér um tillögu er varðar ígulkeraveiðar og rannsóknir á þeim, tilraunaveiðar, að það er afskaplega mikilvægt að kanna hvaða möguleikar eru á veiðum á ígulkerunum. Það er að sjálfsögðu viðfangsefni og á að vera viðfangsefni stjórnvalda og þeirra stofnana sem lúta að sjávarútvegi að styðja við rannsóknir og reyndar eðlilegt að opinberar stofnanir vinni að rannsóknum á stofnum þessara botndýra.
    Það hefur komið fram í þessari umræðu að það hafa farið fram nokkrar athuganir á ígulkerastofninum, en afar litlar enn sem komið er. Á Breiðafirði fóru fram nokkrar rannsóknir á hörpudiskinum sl. haust og hefur reyndar mörg undanfarandi ár verið gert. Þá var einnig litið til ígulkera, en það er alveg augljóst að það eru engan veginn nægjanlegar rannsóknir sem hafa farið fram á þeim möguleikum sem þessi stofn e.t.v. gefur. Þess vegna ber að fagna þessari tillögu og það er afar mikilvægt að hraða afgreiðslu hennar hér í þinginu og ég legg á það mikla áherslu að hv. sjútvn. vinni vasklega að framgangi þessa máls. Það eru mjög margir sem hafa hug á veiðum og e.t.v. vinnslu. Það hefur sýnt sig og þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld verði ekki á eftir þeirri þróun sem hér á sér stað. Þess vegna fagna ég þessari tillögu og vænti þess að hv. sjútvn. afgreiði hana sem fyrst og Alþingi afgreiði sem þáltill. þannig að rannsóknastofnanir sjávarútvegsins geti unnið í samræmi við þá tillögu sem hér liggur fyrir.