Könnun á nýtingu ígulkera

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 19:36:49 (6602)


     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram áðan í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar að þetta hefur að mörgu leyti verið skemmtilegur dagur og mörg nokkuð merkileg mál sem hafa verið flutt, en vissulega veldur það okkur vonbrigðum sem hér höfum setið hversu fáir hafa verið hér til þess að taka þátt í þeim umræðum sem hér hafa verið um þessi merku mál, en við verðum að vona að það verði þá þeim mun betur um þau fjallað í þingnefndum.
    Ég vil segja það í sambandi við þessar tvær þáltill. sem hafa verið bornar fram og eru býsna líkar, að mér hefur aðeins gefist tækifæri til þess að kynnast þessum málum og ég hef trú á því að þar sé á margan hátt um álitlegan kost að ræða, en það er mikið vandaverk hvernig um þetta verður gengið, þessa auðlind sem við skulum vona að sé einhver hjá okkur.
    Ég vil sem sé lýsa því yfir að ég mun gera allt sem ég get sem nefndarmaður í sjútvn. til þess að verða að liði í því að flýta afgreiðslu þessara mála því að engin spurning er í mínum huga að báðar þessar tillögur eru þarfar og ég flyt flm. þeirra bestu þakkir fyrir það að hafa flutt þær.