Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 14:25:10 (6606)

    Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið voru þeir eftirlaunasamningar 20 starfsmanna hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga sem hv. 14. þm. Reykv. gerir hér að umtalsefni gerðir á árinu 1981. Ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um það hvers eðlis þessir samningar voru en samkvæmt þeim skyldu viðkomandi starfsmenn greiða iðgjöld í Samvinnulífeyrissjóðinn en samkvæmt samningnum skyldi Sambandið greiða þeim viðbótarlífeyri umfram það sem Samvinnulífeyrissjóðurinn mundi greiða þeim samkvæmt almennum reglum og skyldu greiðslur úr sjóðnum og frá Sambandinu samtals nema heildarlífeyri sem hlutaðeigandi voru búnir að vinna sér rétt til að hámarki 90% af launum eftir 15 ára starf. Þá voru í þessum samningum ákvæði þess efnis að lífeyrir sem eftirlaunahafi kynni að eiga eða eignast rétt til frá öðrum aðilum verði til þess að draga úr greiðslum frá Sambandinu. Með þessu ákvæði í samningunum var ætlunin að girða fyrir skörun í lífeyrisgreiðslum og réttindum.
    Það er ástæða til að fara nokkrum orðum um þær fjárhæðir sem hér er verið að ræða. Ég vil rifja það upp að í árslok 1991 taldi Bjarni Þórðarson tryggingafræðingur að heildarskuldbindingar gagnvart 20 samningshöfum væru 688 millj. kr. Þar af komu 228 millj. kr. í hlut Samvinnulífeyrissjóðsins, en 460 millj. kr. í hlut Sambandsins og fyrirtækja þess. Af þeirri fjárhæð, þ.e. þessum 460 millj. sitja 147 millj. kr. eftir hjá Sambandinu en 313 millj. færast yfir til þeirra átta fyrirtækja sem tengdust því og var það hluti af samningsgerð við þau nýju fyrirtæki sem voru stofnuð upp úr deildum Sambandsins áramótin 1990/1991 að hvert fyrirtæki skyldi taka að sér þær lífeyrisskuldbindingar sem áunnist hefðu í viðkomandi deildum.
    Þessar fjárhæðir sem ég hef hér stuttlega rakið, eru allar miðaðar við 3% árlega afvöxtun á framtíðarskuldbindingum samkvæmt samningunum og má fullyrða að þar sé varlega í sakirnar farið, þ.e. fjárhæðirnar séu hátt metnar. Ég tek sem dæmi að væri miðað við 5% árlega afvöxtun framtíðarskuldbindinga má ætla að 460 millj. kr. heildarfjárhæðin mundi lækka í 330--340 millj. og hlutur Sambandsins þar með úr 147 í 105 millj. eða eitthvað þar um bil.
    Ég vil hér að lokum, virðulegi forseti, víkja að þremur atriðum þar sem mér finnst skýringa þörf.
    Í fyrsta lagi, eins og hæstv. fjmrh. vék að, er það misskilningur að eftirlaunasamningar þessir geti beinlínis rýrt fjárhagsstöðu Samvinnulífeyrissjóðsins og leitt til skerðingar á lífeyrisgreiðslum til annarra sjóðfélaga. Svo er alls ekki. Staðreyndin er sú að umræddir 20 menn munu aðeins fá greitt úr sjóðnum í samræmi við það sem greitt hefur verið fyrir þá í þann sjóð.
    Í öðru lagi hefur hér verið hreyft þeirri spurningu hvort Sambandið og þau átta fyrirtæki sem greiðslur samkvæmt samningunum áttu að falla á muni geta staðið við þær greiðslur. Ég treysti mér ekki til að svara því en vil nefna það hér að verði eitthvert þessara fyrirtækja gjaldþrota má leiða að því bæði líkur og lagarök að með eftirlaunasamningana, sem við erum hér að ræða, verði farið eins og hverja aðra almenna kröfu í búið en ekki eins og forgangskröfu. En eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh., þá verður að sjálfsögðu ekki um það fullyrt því á slík mál hefur ekki reynt. Mér virðist líklegt að dómstólar mundu núvirðisreikna svona kröfur hjá þeim einstaklingum sem eru komnir á eftirlaunaaldur en eingöngu hjá þeim, því fyrir einstaklinga sem enn eru á besta starfsaldri og eiga eftir að ávinna sér lífeyrisréttindi allt til starfsloka á öðrum vinnustöðum, hjá öðrum fyrirtækjum, er ómögulegt að segja til um hvort og þá hve mikið greiðslur Sambandsins og fyrirtækjanna átta þyrftu að vera til þess að standa við samningana. Um það verður því alls ekki fullyrt á þessari stundu hvort þessi heildarfjárhæð sem ég lýsti áðan mundi reynast krafa við búslit.
    Ég nefni svo í þriðja lagi og ekki síst vegna þess að hv. málshefjandi hreyfði því hvort Landsbankinn, sem hefur yfirtekið nokkur þessara fyrirtækja sem hér koma við sögu, hafi þar með yfirtekið eftirlaunasamningana. Svarið við þeirri spurningu er hiklaust nei. Það hefur hann ekki gert. Bankinn lítur á þessa eftirlaunasamninga eins og hverja aðra almenna kröfu og skuldbindingu á hendur viðkomandi fyrirtæki. Þess vegna get ég svarað því alveg hiklaust að engu af þeirri eflingu eigin fjár Landsbankans sem Alþingi hefur nýlega ákveðið verður varið til þess að standa straum af þeim skuldbindingum.
    Með þessum orðum, virðulegi forseti, vona ég að ég hafi svarað þeim spurningum sem hv. málshefjandi hefur hér hreyft um leið og þetta mál hefur verið skýrt að nokkru.