Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 15:15:11 (6612)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 14. þm. Reykv. fyrir að hreyfa þessu máli í þingsölum. Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar ég heyrði að þetta væri svokölluð lengri tegund af umræðu þá var ég nokkuð undrandi en eftir að hafa hlustað á umræðuna og fundið hvaða umræðu hún kveikir út frá sér þá geri ég mér grein fyrir því að það var mjög gott að við tækjum þetta mál til umræðu. Bæði þetta mál afmarkað, eins og þingmaðurinn gerði, að hreyfa við tryggingu á lífeyrisskuldbindingum svo fámenns hóps og hvað það þýðir og hvaða upphæðir er um að ræða, og að draga fram --- og það tel ég að hafi kannski verið að hluta til markmið þingmannsins --- samanburðinn á þessum fámenna hópi og kjörum hans og þess sem viðgengst annars staðar og hjá hinum fjölmennasta hópi í okkar þjóðfélagi. Það er þar sem mig langar að koma inn í umræðuna og ég fagna því ef við þingmenn getum staldrað við án sjónarmiðanna um stjórn og stjórnarandstöðu og rætt það hvar við erum stödd í þessum málum. Það er nefnilega þannig að ríkisstjórnir koma og fara en ákveðin mál halda alltaf áfram að vera í sama farvegi óháð því hvernig ríkisstjórnir voru samsettar og óháð því hverjir eru í forustunni t.d. í baráttuhópum launamanna, verkalýðshreyfingar o.s.frv.
    Hv. 5. þm. Suðurl. sagði áðan að það sem hér væri rætt væri spegilmyndin af okkar þjóðfélagi. Ég get alveg tekið undir það vegna þess að það sem hér er rætt leiðir hugann að tvennu: launakerfinu og lífeyriskerfinu sem við búum við. Þetta tvennt er fullkomlega samofið. Ef ég leyfi mér, hæstv. forseti, að nefna örlítið hvernig ég sé launakerfið okkar þá mundi ég leyfa mér að halda því fram að þar væri hægt að telja upp fjóra liði: Hefðbundna kjarasamninga, kjarasamninga plús --- og þá á ég við að það er byggt á kjarasamningum og það er litið svo á að viðkomandi sé ráðinn upp á kjarasamninga en til viðbótar fylgja með einhvers konar hlunnindagreiðslur, fastir yfirvinnutímar eða annað sem við þekkjum en aldrei er rætt um. Í þriðja lagi sérsamningar ýmiss konar fyrir afmarkaða hópa og helst ráðamenn fyrirtækja og það eru þeir sem þessi fyrirspurn m.a. beinist að. Og það mætti nefna eitt enn þá. Það mætti nefna það að þeir fyrirfinnast enn þá, þó fækkandi fari, sem starfa á tveimur stöðum í tveimur störfum og hafa réttindi á báðum.
    Mig langar líka að nefna að það ágæta fyrirkomulag sem hefur verið í samningamálum hjá okkar þjóð að undanförnu, og ég hef fylgt í trú á að leiði til bættra kjara, og þar er ég að vitna til þjóðarsáttar svokallaðrar, hefur ekki náð til allra. Hún hefur ekki náð til þeirra sem eru með lokaða samninga, e.t.v. væri réttara að segja lokaða hálaunasamninga. Þar erum við líka að ná fram málum einmitt með tilflutningi á hlunnindum. Það er e.t.v. hægt að segja það hér án þess að vera með ,,gjámælgi`` að það sé gjá á milli tekjuhópa. Það verður þar með hyldýpisgjá á milli launa og launa, á milli kjara á eftirlaunaaldri hjá starfsmönnum innan hinna ýmsu hópa. Það er alvarlegt mál og nokkuð sem þarf að taka á. E.t.v. verður ekki hægt að taka á því í þingsölum en það verður hægt að taka á því í þjóðfélaginu ef menn leggja saman og það er ef greidd laun eins aðila eða einhverra útvaldra eru tíföld á við það sem gerist almennt á markaði.
    Ég mun ekki halda langa ræðu, virðulegi forseti, og þess vegna þætti mér mjög vænt um það ef það verður nokkurt hljóð í sal. Mig langar að nefna það að á sl. ári reyndi Kjaradómur að raða sínum 300 manna hópi innbyrðis og leitaði leiða til réttlætis. Í sjálfu sér var þetta mjög gott mál eitt sér ef hægt hefði verið að líta á þennan 300 manna hóp einan, afmarkaðan án samanburðar við aðra hópa vegna þess að þarna var reynt að skoða hver er lægstur og á að vera lægstur, hver er hæstur og hver á að vera hæstur. Þarna var reynt að raða í röð, sumir lækkaðir og aðrir hækkaðir. Við vitum öll að það mál náði ekki fram að ganga vegna þess að það var viðkvæmt í samanburði við hópana í þjóðfélaginu sem aldrei fá innbyrðis röðun, sama hver heldur á þeirra málum, sama hver er í forustunni í kjaramálum og sama hver er við stjórnvölinn í ríkisstjórn. Þar sem innbyrðis röðun var til fyrir einhverjum árum síðan, hefur staðan sífellt skekkst og er ekki löguð af því

að málið er svo þungt. Það hefur venjulega verið farið út í prósentukröfur um hækkun og ekki heyrði ég þegar leitað var heimilda til verkfalla fyrir nokkrum vikum síðan að þar ætti t.d. að setja á oddinn innbyrðis röðun. Hver á að vera lægst flokkaður og hver á að vera hæst flokkaður. Þetta er eitt af bannorðunum. Eitt af því sem ekki nær fram að ganga, sama hver heldur um.
    Út frá þessu koma eftirlaunin og lífeyrissjóðirnir. Þeir tengjast launagreiðslunum og það er staðreynd í okkar þjóðfélagi að fólk fær úr lífeyrissjóðum frá nokkrum þúsundum á mánuði og upp í þau 300--600 þús. kr. sem þeir fá sem tilheyra þeim hópi sem hér er gerður að umtalsefni nú. Og það hvernig okkar lífeyrismálum er háttað er algjört hneyksli. En af því að það er algjört hneyksli þá getum við spurt: Af hverju hafið þið ekki gert eitthvað? Það er vegna þess að það er svo mikið álitamál hvernig með skuli fara. Það eru allir sammála um að það á að taka á þessu en menn eru ekki sammála um hvernig.
    Það er eitt sem við erum líka öll sammála um að lífeyrissjóðirnir eru allt of margir og við höfum rekið okkur á að það er engin leið að samræma þá. Við fáum á hverjum vetri fram þingmannafrv., mörg góð og það er gagnlegt að ræða þau, en það er gagnslítið í framkvæmd vegna þess að engin þeirra hafa náð að gera meira en að varpa ljósi á málin. Sama hafa fyrirspurnirnar gert sem hefur verið vísað til t.d. fjmrh., að ég held á hverjum vetri síðan ég kom á þing. Það er nefnilega þannig að það átti að reyna að stíga eitt skref í sameiningu þessara sjóða. Það var einhver svokölluð 17 eða 19 manna nefnd sem náði þó því að fækka sjóðum og samræma kjör að einhverju marki. Það gekk meira að segja svo langt að frv. var sýnt hér sem stjfrv., a.m.k. í tvígang og síðan var stækkuð nefnd, ég held upp í 30 manna. Síðast þegar ég vissi til þá var hún að skoða þessi mál en hvort hún hefur komið saman undangengið ár veit ég ekki.
    Ég hef gert mér grein fyrir því að fyrir þingmenn er nærri óvinnandi vegur að brjóta upp það ægivald sem lífeyrissjóðakerfið er. Þessir u.þ.b. 90 eða 100, það skiptir ekki öllu máli, sjóðir sem eru ráðandi afl ekki bara í eftirlaunamálum þjóðarinnar heldur líka að stórum hluta í almennri framkvæmd efnahagsstjórnar í landinu. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að verkalýðshreyfing, lífeyriskóngar, ef ég nota það orð í almennri merkingu og ekki í gæsalöppum og ekki í neikvæðri merkingu --- þá er það þannig að það eru þessir aðilar sem ræða saman um hvaða leiðir skuli fara í efnahagsmálum ef brjóta á upp þá leið sem viðkomandi ríkisstjórn hefur markað. Ekki við þingmenn sem höfum farið í framboð og boðist til að axla ábyrgð á því að ákveða hvort skattar eigi að vera með þessum hætti eða hinum og hvaða leiðir skuli fara í efnahagsmálum. Þegar að herðir er verið að ræða þau mál annars staðar, ekki hér á Alþingi. Þegar þar að kemur og ef lausn fæst í það mál hjá þeim sem þar eru á ferð þá er komið til okkar og sagt: Nú verðið þið til að standa að þessu. Og oft hafa þau mál verið góð, svo sem þegar þjóðarsáttin var sett á laggirnar en það er samt þannig að það er ægiafl utan veggja þessa húss þar sem er ráðið málum svo sem eins og þeim sem við ræðum í dag.
    Eitt langar mig að nefna enn þá, virðulegi forseti, og það eru lífeyrissjóðsmál heimavinnandi fólks. Það kom í minn hlut að fara í þriggja manna hóp fyrir fjórum árum til að skoða almennt ýmis réttindamál heimavinnandi fólks. Það var mjög áhugavert verkefni og við sem í það fórum gerðum það af lífi og sál. Það var erfitt að ná utan um það og erfitt að nálgast verkefnið en við fengum fjölmarga útreikninga frá Þjóðhagsstofnun varðandi þetta.
    Ég bað um útreikninga á því hver staða tveggja kvenna --- við notuðum aldurinn á okkur tveimur konum í hópnum sem vorum 48 ára gamlar þá --- sem höfðu verið heimavinnandi allt sitt líf, áttu menn búandi við sömu kjör í lífeyrissjóðum og verða ekkjur jafnt. Önnur fer út á vinnumarkaðinn og hin ekki. Hver verður staða þessara tveggja kvenna þegar þar að kemur? Og það voru unnir útreikningar í Þjóðhagsstofnun og niðurstaðan var alveg ótrúleg: Munurinn var nánast enginn. Munurinn hjá þessum tveimur konum þegar önnur væri búin að fara út á vinnumarkaðinn við þau kjör sem við gátum búist við að hún fengi eftir að hafa verið heima öll þessi ár. Við reiknuðum með að hún mundi fara á Iðjutaxta og greiða í svokallaða SAL-sjóði. Hvað mundi hún vinna við það að greiða í lífeyrissjóð af launum sínum, þessum lágu launum, fram að því að hún færi á eftirlaun? Innan við 2.000 kr. Innan við 2.000 kr. mundi það muna á þessum tveimur konum á ævikvöldi.
    Þá getum við sagt: Þetta hlýtur að vera gott mál og sýna hvers lags öryggisnet við erum með í okkar almannatryggingakerfi og það er önnur hlið málsins. Það er gott net þar þó okkur gangi illa að ræða það hvort krónutalan sé nægilega góð en samanburðurinn er þarna.
    Ég geng alltaf út frá því að verkalýðshreyfingin hafi ekki vitað hversu lítill þessi munur var vegna þess að nokkru eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir og við vorum búin að ræða þær víða og setja þær í skýrslu þá kom einn forráðamaður verkalýðshreyfingarinnar í sjónvarp og hafði mjög hátt um það hvernig væri búið að afskræma lífeyriskerfið einmitt með almannatryggingakerfinu og nefndi tölurnar mínar og ég hafði gaman af heima í stofu hjá mér.
    Ég er mjög gagnrýnin á það að verkalýðshreyfingin hefur ekki sýnt því mikinn áhuga að leggja mikið kapp á að skoða hvernig á að taka á málum ef einhvern tímann verður hægt að skoða hvernig launakjörum á að koma fyrir í landinu. Hvernig á að raða og hvernig á að komast út úr þessu hlunnindakerfi og þeirri skekkju sem við búum við vegna þess að það tengist inn í lífeyrissjóðina. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því hverjir það eru sem ráða lífeyrismálunum og er tilbúin að taka þátt í umræðu um öll þau þingmannafrv. sem koma fram og halda áfram að taka þátt í að vera með fyrirspurnir til fjmrh. um hvað líði endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Ég geri mér grein fyrir því að á þessu máli verður að taka ofan frá og það þarf greinilega mikla hörku í ef ekki tekst að fá þá aðila sem ráða til þess að setjast niður með okkur og ákveða að nú sé kominn tími til að breyta lífeyrismálum þjóðarinnar.