Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 15:29:48 (6614)

     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Hv. 14. þm. Reykv. sem hóf þessa umræðu gerði það, að því er mér skildist, á þeim forsendum að hún óttaðist að til þess kynni að koma að ríkissjóður yrði ábyrgðarmaður og þyrfti að greiða þær lífeyrisskuldbindingar sem hér hafa verið til umræðu og þess vegna væri þetta mál borið upp á hinu háa Alþingi.
    Ég vona svo sannarlega að enginn ætli að til þess kunni að koma að ríkissjóður eða skattgreiðendur í landinu þurfi að standa sem ábyrgðarmenn fyrir þessum samningum, sem rekja má allt aftur til ársins 1975 og 1981, heldur hljóti það að vera að litið verði á þessa samninga sem samninga milli einkaaðila og það séu þeir aðilar sem þurfi að ganga frá sínum málum. Bresti viðkomandi lífeyrissjóð getu til að standa í skilum þá hljóti samningsaðilarnir að bera tjónið en því verði ekki varpað yfir á herðar skattgreiðenda eða einhverra annarra. Þetta finnst mér að hljóti að vera kjarni þessa máls og þess vegna sé það rætt í þingsalnum að fá úr því skorið hvort til þess kunni yfirleitt að koma að hið opinbera eða skattgreiðendur eða ríkissjóður verði að einhverju leyti ábyrgur fyrir þessu.
    Að hinu leytinu verð ég að segja að mér finnst það í sjálfu sér nokkuð sérkennilegt, og ætla ekki að lengja mál mitt mjög, að það skuli vera þessi þáttur er varðar hrun Sambands ísl. samvinnufélaga sem verður tilefni til sérstakra umræðna á hinu háa Alþingi. Það hefði mátt ætla að miðað við þau umsvif sem Sambandið hefur haft í atvinnulífi landsmanna yrði það eitthvað annað mál en einmitt þetta atriði, spurningin um þessa samninga, sem gerðir voru á árinu 1975 og 1981 sem væri tilefni til utandagskrárumræðu hér á Alþingi. En málum er nú þannig háttað að þessi umræða er hafin og hún hlýtur að kalla á það án þess að ég ætli að stofna til þess nú að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að á hinu háa Alþingi verði gefið tækifæri til að ræða almennt um framvindu mála hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga og stöðu þess máls alls með hliðsjón af því sem gerst hefur á undanförnum mánuðum og hvort það sé ekki ósanngjarnt í raun og veru að taka þetta eina mál sérstaklega fyrir.
    Ég vildi aðeins varpa þessu hér fram því að ég tel að það kunni ekki síður að vera ástæða til að ræða hér ýmsa aðra þætti sem snerta þetta uppgjör vegna hruns Sambandsins en þessa samninga. Ég held einnig að það sé alveg hárrétt sem segir í Morgunblaðsgreininni, sem hv. 14. þm. Reykv. las úr og er eftir stjórnarformann Sambands ísl. samvinnufélaga. Þar segir hann að þeir hjá Sambandinu hafi litið þannig á að þeir væru ekki að gera neina sérstaka hagstæðari samninga við sína starfsmenn en tíðkuðust. Það hafa orðið miklar umræður um slík mál erlendis, t.d. í Noregi eru þetta kallaðir fallhlífarsamningar. Þegar menn hætta í störfum jafnvel áður en þeir ná fullum starfsaldri er samið við þá um miklar eftirlaunagreiðslur til þess að gera þeim kleift að því er virðist að laga sig að þeim kjörum sem aðrir borgarar í viðkomandi landi búa við. Það kann líka að vera, eins og hér hefur síðan verið rætt um, ástæða til að ræða almennt um lífeyrissjóðakerfið, um lífeyrisréttindin og þau mál almennt en mér finnst svolítið erfitt að blanda þessu tvennu saman með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Þess vegna finnst mér ástæða til að velta því hér upp hvort ekki sé nauðynlegt að taka almennari umræðu um þær skuldbindingar sem kunna að lenda á opinberum aðilum og skattgreiðendum vegna upplausnar Sambandsins en unnt er að hefja hér undir þessum lið þegar rætt er um þá einkasamninga sem gerðir eru innan Sambandsins við einstaka starfsmenn þess. Við vitum það t.d. núna að í Reykjavík er talað um að 400--500 manns séu í óvissu um atvinnu sína vegna þess að Mikligarður er að leggjast niður. Það sama á við um mörg fyrirtæki sem áður störfuðu innan vébanda Sambands ísl. samvinnufélaga.
    Ég er alls ekki að mæla þessum samningum bót sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni, síður en svo. En þetta eru einkasamningar sem gerðir eru á vegum einkafyrirtækis við starfsmenn sína. Það getur ekki komið til álita þegar þetta fyrirtæki leggst niður, fer á höfuðið eða hvernig sem við lýsum örlögum þess, að opinberir aðilar, skattgreiðendur eða bankar verði að hlaupa í skarðið og gera upp við þessa aðila. Það hlýtur að verða að líta þannig á að þessir einkasamningar fylgi þessu einkafyrirtæki og séu hluti af því uppgjöri sem það þarf að gera við sína starfsmenn og ganga frá.
    Ég vildi láta þessi sjónarmið koma fram og ítreka að mér finnst næsta sérkennilegt og kann að líta sérkennilega út þegar litið er yfir söguna á þessum tíma á undanförnum mánuðum og störf Alþingis að þetta atriði skuli vera það eina sem tekið er til umræðu á hinu háa Alþingi í tilefni af því að Samband ísl. samvinnufélaga er að líða undir lok.