Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 15:52:43 (6619)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil nú þakka öllum þeim fjölmörgu hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu í dag. Ég vil alveg taka undir það með hv. 11. þm. Reykn. að mönnum fannst mikið í lagt að hafa þetta ótímasetta umræðu eða af lengri gerðinni, en mér sýnist nú að full þörf hafi verið á að ræða þetta. En ég skal reyna mjög að stytta mál mitt svo að ég geti lokið því kl. 4, en ég vil fyrst af öllu segja við hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason: Þessi umræða var af minni hálfu ekki um Samband ísl. samvinnufélaga. Fyrirtækið gat verið hvaða fyrirtæki sem er. Tilefni minnar fyrirspurnar var það að Landsbanki Íslands, sem Alþingi Íslendinga hefur verið að láta 4 milljarða til til að efla bankann, hefur án efa skaða af þessum miklu lífeyrisskuldbindingum Sambands ísl. samvinnufélaga í þessu tilviki, beint eða óbeint eins og hér hefur komið fram. Vitaskuld hlýtur það að rýra gildi hlutabréfa í fyrirtæki sem hefur tekið við slíkum skuldbindingum. Varðandi það hvernig rétt slíkar skuldbindingar hafa við gjaldþrot, þá fullyrðir hæstv. viðskrh. hér að Landsbankinn viðurkenni slíkar skuldbindingar ekki sem forgangskröfu. En hæstv. fjmrh. sagði að um það gæti hann ekkert sagt, það hefði aldrei fallið dómur í því máli. En það er eins og önnur tjáskipti og samskipti milli þeirra hæstv. ráðherra að þeir hafa nú ekki beinlínis verið alveg samstiga í þessari umræðu.
    Hæstv. fjmrh. talaði um stuðning ríkissjóðs við Landsbankann sem pappírsgagn og það mátti skilja að slíkt framlag þyrfti ekki að koma fram á fjárlögum. Í morgun í fjárln. var einmitt spurst fyrir um í hvaða formi þessi greiðsla yrði, þessir 4 milljarðar --- enn og aftur 4 milljarðar. Þar kom fram að það væri ekki búið að ákveða neitt um það. Síðan líður klukkutími. Þá stígur hér í pontu hæstv. viðskrh. og les samninginn um það sem hæstv. fjmrh. greinilega hefur ekki fengið að sjá. Ég verð nú að segja, hæstv. forseti, að mér er til efs að annað eins og þetta væri borið fram í nokkru öðru þjóðþingi. Að tveir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar tali annar í austur og hinn í vestur og geri ekki einu sinni tilraun til þess að leiðrétta það. En það er önnur saga.
    Niðurstaða þessarar umræðu er sú að það veit enginn hvort Landsbanki Íslands verður fyrir umtalsverðum skaða vegna skuldbindinga á lífeyrissjóðsgreiðslum til 20 manna, það

veit enginn hvað sá skaði gæti orðið stór. Það veit hreinlega enginn neitt um það eins og kom fram í samtölum mínum við menn bæði í Landsbanka og Seðlabanka. En það er fullkomlega óskiljanlegt að nokkur aðili, Landsbanki eða aðrir, taki við fyrirtækjum með svo óljósum atriðum sem þessum lífeyrissjóðsskuldbindingum. Það þykir mér hreint ekki verjandi. Það tekur engin sæmilega skynsöm manneskja við skuld frá annarri manneskju án þess að vita hvað í henni felst þannig að ég held að fyrirspurn mín hafi verið fullkomlega verðugt umræðuefni hér.
    En öll þessi umræða fjallar um það hróplega óréttlæti sem viðgengst í okkar landi. Þetta fjallar um að einn forstjóri í einu fyrirtæki hefur á mánuði 529.667 kr. Annar hefur 453.768 kr., á mánuði, á meðan hjón sem ég þekki, kona sem hefur verið heimavinnandi allt sitt líf, alið upp 10 börn --- og eins og hv. 11. þm. Reykn. kom inn á áðan, lífeyrissjóður enginn, það var engin vinna að ala upp 10 börn --- maðurinn hennar var 54 ár á sjó. Það væri gaman að vita hversu marga fiska hann dró. Við andlát hans hafði hann 26 þús. kr. á mánuði í lífeyri, 26 þús. á meðan annar forstjórinn hefur 529 þús. Finnst hv. þm. ekki þess virði að ræða annað eins og þetta? Svo þykjumst við vera að reka hér þjóðfélag sem byggist á jafnrétti og lýðræði.
    Síðan kemur hér hæstv. fjmrh. sem var reyndar óvenjubljúgur í þessari umræðu og það fór honum vel, og segir að hann kannist ekki við neitt þessu líkt í stjórnkerfinu. Hann sagði þetta. Hann mundi ekki eftir Landsvirkjun, hann mundi ekki eftir Seðlabankanum, hann mundi ekki eftir landsbankastjóranum með milljón á mánuði. Það hefur nú eitthvað alvarlegt komið fyrir toppstykkið í sumu fólki ef þetta er alveg gersamlega gleymt og grafið. Sannleikurinn er sá að það er alveg rétt sem Sigurður Markússon segir. Þessar greiðslur frá Sambandinu eru ekkert verri heldur en þær sem viðgangast í stjórnkerfinu og þess vegna er það rangt, hæstv. forseti, og ég bið um að hæstv. fjmrh. heyri það, það er rangt að þetta viðgangist ekki í stjórnkerfinu.
    Ég skal, hæstv. forseti, ekki segja mikið meira. En ég vil leggja áherslu á það aftur að það voru alger aukarök að þetta væri svo sem eitthvert málefni Sambands ísl. samvinnufélaga. Það hefði getað verið hvaða fyrirtæki sem var. Tilgangur minn var að vekja á því athygli að Landsbankinn kynni að taka óvarlega við hlutafélögum af öllu tagi, eignast þau kannski að fullu með umtalsverðum skuldbindingum upp á hundruð millj. og ég læt ekki segja mér að það hafi engin áhrif til eða frá. Auðvitað getur bankinn auðveldlega skaðast á því. Og það getur vel verið að menn kippi sér ekki upp við hundruð millj. þegar um er að ræða peninga almennings. En það er tekið afskaplega alvarlega ef við, launþegarnir í landinu, greiðum ekki hverja krónu af okkar aumlegu lánum sem eru nú ekki nema eins og smápeningar í sambandi við það sem hér er verið að tala um. Við erum einfaldlega að tala um skuldbindingar upp á 800 millj. kr. til þess að 20 manns geti vaðið í peningum. Svo einfalt er þetta mál. Ég mótmæli því að Landsbanki Íslands taki minnstan þátt í þeim greiðslum, ég leyfi mér að mótmæla því. Ég efast hins vegar um að við höfum nokkurt vald til að banna honum það. Hann hefur þegar yfirtekið hlutafélög og fyrirtæki sem eru gjaldþrota eða við það að verða gjaldþrota. Þessum fyrirtækjum fylgja þessar skuldbindingar og ég á eftir að sjá, hæstv. forseti, að þessir 20 virðulegu forstjórar og framkvæmdastjórar verði látnir bera skaðann. Það ber þá eitthvað nýrra við. En það kynni að vera að saumakonan sem er búin að sitja í verksmiðju hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga sl. 40 ár og hefur 21 þús. kr. í lífeyri, það getur vel verið að hún yrði látin skaðast. Það væri nær sanni. Þess vegna var farið af stað með þessa umræðu, hæstv. forseti, að þetta óréttlæti í okkar hart keyrða þjóðfélagi sem horfir nú ekki beinlínis fram á góða daga í augnablikinu, í þess konar þjóðfélagi má þessi ójöfnuður ekki eiga sér stað lengur og það á ekki að ræða það á flokkspólitískum grundvelli. Við hljótum öll að taka höndum saman og spyrna við fæti. Einhvers staðar verður að stöðvast við. Menn eiga ekki að geta haft á aðalfundi Íslandsbanka vegna eigin fjármagns 3 milljarða í atkvæði. Fyndinn maður spurði á fjárlaganefndarfundi í morgun hvað Kínverjar væru margir. En maður les í blöðunum að menn koma á fund í Íslandsbanka með 3 milljarða af atkvæðum.
    Hæstv. forseti. Þessu gríni verður að ljúka. Launþegar í landinu geta ekki lengur

sætt sig við að þeir fjármunir sem þeir vinna fyrir séu notaðir til þess að örfáar manneskjur leiki sér með þá.