Dýrasjúkdómar

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 18:04:36 (6622)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. landbn. Alþingis og brtt. um frv. til laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Eins og nál. ber með sér þá undirrita það allir nefndarmenn, tveir með fyrirvara, þeir Eggert Haukdal og Ragnar Arnalds og er fyrirvara þeirra getið með skýrlegum hætti í niðurlagi nál.
    Það er í annað sinn sem þetta mál kemur til umræðu á þinginu áður en það hefur hlotið lögfestingu en í fyrra var málið lagt fyrir og um það fjallað í landbn. Þar var leitað umsagna um málið og þær bárust frá eftirgreindum aðilum:
    Tilraunastöð Háskólans í meinafræði, Páli A. Pálssyni, fyrrv. yfirdýralækni, Dýralæknafélagi Íslands, búnaðarþingi og stjórn Búnaðarfélags Íslands.
    Þegar þessar umsagnir lágu fyrir var mjög tekið að halla á þingtímann og það varð því að ráði að leita eftir því við landbrh. að hann léti fjalla um málið á milli þinga og taka þá tillit til þeirra umsagna sem þá höfðu borist. Þessi umfjöllun fór fram og var þar nokkurs samráðs leitað við landbn. og málið þannig lagt fyrir að teknu tilliti til þessarar undirbúningsvinnu. Eftir að málinu hafði verið dreift aftur á þinginu og fyrir því mælt bárust enn þá umsagnir um málið frá búnaðarþingi sem nú er fyrir stuttu lokið og frá Keldum þannig að í eitt og allt er búið að fara býsna vel yfir þetta mál. Á grundvelli þessara umsagna leggur nefndin fram brtt. þar sem tekið er tillit til þessara ábendinga allra. Þær eru skýrðar í nál. mjög rækilega þannig að ég sé ekki neina sérstaka ástæðu til þess að tala sérstaklega fyrir þeim en vísa í þeim efnum sérstaklega til nál. ef einhvern tímann skyldi koma til einhverra sérstakra lagaskýringa út af þessari umfjöllun núna.
    Undanfari þessa máls er að landbrh. fól þremur mönnum, Jóni Höskuldssyni, deildarstjóra í landbrn., Brynjólfi Sandholt yfirdýralækni og Guðmundi Jónssyni, bónda á Reykjum, að færa til sömu löggjafar og endurskoða þau lög sem í gildi voru um dýrasjúkdóma. En það voru lög nr. 25/1923, um berklaveiki í nautgripum, lög nr. 11/1928, um varnir gegn því að gin- og klaufaveiki bærist til landsins, lög nr. 23/1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma, og lög um sauðfjárbaðanir nr. 22/1977.
    Hér eru sem sagt þessi lög öllsömul felld inn í þetta frv. og er það náttúrlega augljóslega til mikils hagræðis að hafa lög um sjúkdóma og varnir gegn þeim í einum lagabálki. Þess hefur verið vandlega gætt við umfjöllun þessa máls að með engum hætti væri hrokkið frá þeim vörnum sem lög hafa heimilað né látið hjá líðast að gæta þar ekki allra þeirra þýðingarmiklu ákvæða sem þar voru fyrir.
    Ég sé ekki, virðulegi forseti, ástæðu til þess að fjalla ítarlegar um málið. Ég vitna til þess að hæstv. landbrh. hefur flutt framsögu til skýringar málinu, reyndar bæði í fyrra og núna, og enn og aftur vitna ég til nál. sem skýrir afstöðu landbn.