Stjórnarráð Íslands

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 18:21:16 (6624)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingu á lögum nr. 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum. Þetta frv. var lagt fyrir á Alþingi 1992 og er einfalt að allri gerð. Í 1. gr. segir:
    ,,Í 1. mgr. 4. gr. laganna falli orðin ,,iðnaðarráðuneyti`` og ,,viðskiptaráðuneyti`` brott, en á eftir orðunum ,,heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti`` komi: iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að lög þessi öðlist þegar gildi.
    Texti frv. sem nú er flutt er óbreyttur frá fyrri texta en jafnframt er greint frá þeirri heimild sem veitt var með stoð í stjórnarráðslögunum sl. sumar til að samnýta eins og kostur er starfslið og skrifstofuhúsnæði ráðuneytanna. Þá er að þessu sinni prentað sem fskj. með frv. kostnaðarmat fjmrn. og drög að reglugerðarbreytingu um Stjórnarráðið, sem lögð yrði fyrir forseta Íslands til staðfestingar yrði frv. að lögum.
    Við upphaf 1. umr. um málið á 115. löggjafarþingi 1991 varð málinu ekki lokið. Gerðar voru ýmsar athugasemdir í þeirri umræðu. M.a. var vitnað til umsagnar fjmrn. við frv. til nýrra heildarlaga um Stjórnarráð Íslands þar sem gert hafði verið ráð fyrir samruna iðnrn. og viðskrn. Þessi tilvitnun sem var í útdrætti úr umsögn þáv. ráðuneytisstjóra er þess eðlis að það er ástæða til að vekja athygli á henni. Hún birtist í bréfi til forsrn. hinn 23. nóv. 1989 og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Samruni iðnrn. og viðskrn. virðist einnig vera spor í rétta átt, en með því er færð til baka að hluta sú breyting sem gerð var árið 1969 þegar atvinnumálaráðuneytið var klofið upp í frumþætti sína. Ef til sameiningar atvinnuvegaráðuneytanna tveggja kemur virðist liggja í augum uppi að mál er varða yfirstjórn peninga- og fjármála eiga þar ekki lengur heima og rökrétt að þau hverfi aftur til fjmrn., eins og reyndar var áður en sérstakt viðskrn. var stofnað á haftaárunum fyrir stríð. Þannig er málum fyrir komið í flestum löndum.``
    Síðar segir í sama bréfi um yfirstjórn peningamála:
    ,,Í langflestum löndum fellur yfirstjórn peningamála undir fjmrn. og hefur þróunin undanfarna áratugi ótvírætt hnigið í þá átt. Tímabært virðist að færa þetta í svipað horf hér á landi nú þegar gjaldeyrishöft hafa verið afnumin og innlendur sparnaður hefur þróast. Sama gildir um seðlaútgáfu og yfirstjórn gjaldeyrismála og samskipti við erlendar fjármálastofnanir. Sameining iðnrn. og viðskrn. kallar beinlínis á þetta. Lagt er til að þessi málaflokkur færist til fjmrn.``
    Þáv. settur hagsýslustjóri, Indriði H. Þorláksson, sendi ráðuneytinu einnig athugasemdir, dags. 24. nóv. 1989:
    ,,Málefni Seðlabankans og mál sem honum tengjast varðandi gjaldmiðla, myntsláttu og samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, ætti eðli málsins samkvæmt að vera hjá fjmrn.``
    Þetta er nefnt hér vegna þess að þetta var sérstaklega rætt af hv. 8. þm. Reykn., Ólafi Ragnari Grímssyni, þegar mál þetta var fyrst flutt í þinginu. Það er ekki gert ráð fyrir breytingum varðandi yfirstjórn á Seðlabanka í frv. Gert er ráð fyrir því að sú yfirstjórn verði áfram hjá viðskrn.
    Út af fyrir sig má segja að það séu gild rök til þess að yfirstjórn Seðlabankans gangi til annarra ráðuneyta en viðskrn. eftir slíka breytingu og jafnvel fyrir hana. Það má um það deila hvort slíkur tilflutningur ætti að vera til fjmrn. þó að ýmis rök mæli vissulega með því og hægt er að vitna til aðstæðna og aðferða í öðrum löndum en einnig mætti nefna, og hefur verið nefnt, að ef menn vildu gera breytingu, þá væri hugsanlegt að yfirstjórn Seðlabankans færðist til forsrn. Þá hafa menn haft í huga þá sérstöðu sem hér er að forsrn. fer jafnframt með yfirstjórn efnahagsmála og í lögum um seðlabanka er sérstaklega tilgetið að seðlabanki eigi að vera ríkisstjórn, ekki einstökum ráðuneytum heldur ríkisstjórn, til ráðuneytis um stjórnun og ýmsa innri þætti efnahagslífsins. Eins og þetta frv. ber með sér er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum í þessum efnum við flutning frv. nú.

    Ég tel ekki ástæðu til að endurtaka þau atriði sem fram komu er mælt var fyrir málinu hið fyrsta sinn. Það hefur að vísu legið alllengi fyrir og ekki verið fyrir því mælt en ég hygg að hv. þm. þekki allvel til málsins og sögu þess.
    Ég vil, hæstv. forseti, leggja til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allshn.