Stjórnarráð Íslands

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 18:27:43 (6625)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það frv sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir þeirri breytingu að sameina iðnrn. og viðskrn. Nú má vafalaust margt betur fara í Stjórnarráðinu og ég lít svo á að töluverð þörf sé á því að endurskipuleggja þar vinnubrögð og skipulagsþætti en mér finnst ástæðulaust að slíta út úr heildarendurskoðun, sem ég tel að þurfi að fara fram, sameiningu þessara tveggja ráðuneyta. Ég hef það á tilfinningunni að þetta frv. hafi svo að segja verið samið utan um einn mann, þ.e. ráðuneytisstjóra. Það vill að vísu svo til að nú um nokkurt skeið hefur sami ráðherra farið með báða þessa málaflokka sem eru þó ekki náskyldir þannig að það sýnist einboðið að vista þá í einu ráðuneyti. Nú er þessi ráðuneytisstjóri á förum á grænni veiðilendur að því er mér skilst og þá er sú ástæða fallin brott, sú nauðsyn sem kann að hafa verið fyrir því einu sinni að gera þessa skipulagsbreytingu.
    Þrátt fyrir nærri tveggja ára stjórn hæstv. ríkisstjórnar er iðnaðurinn ekki svo illa kominn að ástæða sé til að meina honum að hafa sérstakt ráðuneyti og ég held að raunverulega hafi það verið ógæfa fyrir iðnaðinn í landinu að hann hefur orðið nokkur hornreka í stjórnkerfinu. Ég held að þarna sé um svo mikilvægan málaflokk að ræða að það sé fullt verk fyrir einn ráðherra að stýra þar málum og vaka yfir hagsmunum og þróun iðnaðarins. Á sl. ári töpuðust eitt þúsund störf í iðnaði. Okkur iðnaðarnefndarmönnum gafst tækifæri til þess á stórfróðlegum fundi, sem við áttum í síðustu viku með forsvarsmönnum iðnaðarins, að kynna okkur þá skelfilegu þróun sem orðið hefur innan þessarar greinar. Ég tel að iðnaðurinn sé þannig staddur að það sé ekki verjandi að veikja stöðu hans á nokkurn hátt. Þá þegar af þeirri ástæðu er ég andvígur þessari breytingu eins og hún er til komin.
    Það er heldur ekki reiknað með því í þessu frv. að gera breytingu á verkefnum sem falla til ráðuneytanna. Ég tel alveg einboðið þegar skipulagsbreyting verður gerð á Stjórnarráðinu að Seðlabankinn heyri undir forsætisráðherraembættið. Mér finnst allt annað rökleysa. Forsrh. á að hafa heildaryfirsýn yfir efnahagsmál þjóðarinnar og Seðlabankinn á að vera ríkisstjórninni til aðstoðar og veita ríkisstjórninni allri ráðgjöf, ekki einu ráðuneyti eins og hæstv. forsrh. tók hér nýskeð fram.
    Ég ætla ekki að fara mörgum fleiri orðum um þetta frv. Ég tel ekki ástæðu til að gera þessa breytingu nú. Ég tel rétt að bíða heildarendurskoðunar stjórnarráðslaganna og þá má e.t.v. huga að skipulagsbreytingum. Þessi bráðabirgðaráðstöfun er ekki nauðsynleg lengur og þar af leiðandi tel ég ekki ástæðu til þess að afgreiða þetta mál á þessu þingi.