Ráðherraábyrgð

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 18:54:37 (6630)

     Flm. (Páll Pétursson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er hræddur um að misskilningurinn sé í þessu tilfelli hjá hv. 3. þm. Reykv. Poul Schlüter, forsætisráðherra Danmerkur, gaf þinginu þær upplýsingar að engu hefði verið sópað undir teppið, eins og hann orðaði það, í Tamílamálinu. Þær upplýsingar reyndust rangar. Niðurstaða dómarans var sú að það hefði verið sópað undir teppið. Forsætisráðherrann kaus hins vegar að reka ekki málið til enda og baðst lausnar. Þar með á hann ekki yfir höfði sér lögsókn sem kannski hefði á hann dunið að öðrum kosti. Hins vegar á dómsmálaráðherra yfir höfði sér að vera sakfelldur, þ.e. fyrrv. dómsmálaráðherra, Erik Ninn-Hansen. Og ég hef þá trú á danska þinginu að það komi sér saman um orðalag á þeirri klögun.
    Hv. 3. þm. Reykv. vitnaði til orða minna um hv. fyrrv. fjmrh. Hann sat ekki lengi með mínum stuðningi eftir að ég flutti þá ræðu sem forsrh. vitnaði til. Það hefði auðvitað verið möguleiki að draga manninn fyrir landsdóm. En ég sé enga ástæðu til að ráðherrum eigi að heimilast að greina þinginu rangt frá. Mér finnst hv. 3. þm. Reykv. líti svo á að það séu einhver pólitísk réttindi ráðherrans að greina þinginu rangt frá. Mér finnst það eiga að vera lögbundinn skylda ráðherra að greina þinginu rétt frá.