Söluskattur af mannvirkjum loðdýrabúa

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:33:53 (6632)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi segir að það voru miklir annmarkar á almennum notum loðdýrahúsa og átti það við einkum þegar hann lagði fram fyrirspurn sína hér á Alþingi að þetta mál hafði verið í veltingi milli ráðuneyta, en eins og nú er komið hefur greiðst úr þessum málum. Hinn 24. nóv. 1992 ritaði landbrn. bréf til fjmrn. þar sem þess var farið á leit að fjmrn. heimilaði að mannvirki sem reist höfðu verið til loðdýraræktar mætti taka til annarra nota án þess að til endurgreiðslu þess söluskatts þyrfti að koma sem veitt var undanþága til þegar húsin voru byggð. Fjmrn. svaraði þessu erindi með bréfi 18. febr. sl. eða nokkru eftir að fsp. hv. þm. kom fram, þar sem segir m.a.:
    ,,Í framhaldi af frekari athugun á málinu hefur fjmrn. endurskoðað fyrri ákvörðun sína og ákveðið að breyta þeim kvöðum sem um ræðir á þann hátt að um notkun og sölu þessara fasteigna gildi sömu reglur og nú gilda um varanlega rekstrarfjármuni sem keyptir hafa verið eftir gildistöku laga um virðisaukaskatt, sbr. 12.--15. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt. Samkvæmt þeirri reglugerð ber að leiðrétta fenginn innskatt ef eignin er seld, leigð eða tekin til notkunar þar sem skattaðili hefur ekki innskattsrétt. Leiðréttingarskylda hvílir á eigninni í tíu ár og lækkar um 10% með ári hverju. Breyting þessi hefur það í för með sér að eigendur fasteigna sem umræddar kvaðir hvíla á geta nú tekið þær til annarra nota í skattskyldum rekstri án þess að til endurgreiðslu á söluskatti komi. Við sölu slíkrar fasteignar getur kaupandi yfirtekið leiðréttingarskylduna að því leyti sem hann hefur frádráttarrétt vegna hennar. Sala til skattskylds aðila getur því farið fram án þess að söluskatturinn endurgreiðist.``
    Ég vil ítreka það að ég tel að afskipti hv. þm. af þessu máli hafi orðið til gagns og þakka honum fyrir.