Vegaframkvæmdir í Vestur-Barðastrandarsýslu

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:42:03 (6636)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Fyrirspurnin fjallar um hvað fyrirhugað sé til að bæta akvegasamband þéttbýlisstaðanna í Vestur-Barðastrandarsýslu við ferjuhöfnina á Brjánslæk.
    Sú leið sem spurt er um nær frá Bíldudal um Tálknafjörð, Patreksfjörð og Barðaströnd til Brjánslækjar. Komið er bundið slitlag frá Tálknafirði inn í botn Patreksfjarðar auk nokkurs kafla á Barðaströndinni. Næsti áfangi sem taka átti fyrir var nýr vegur um Hálfdán á milli Bíldudals og Tálknafjarðar. Samkvæmt drögum að langtímaáætlun frá 1991 átti að ljúka honum á tveim fyrri tímabilum áætlunarinnar, þ.e. á árunum frá 1991--1998. Framkvæmdir hófust 1991 og allt útlit er nú fyrir að þeim verði lokið á næsta

ári. Er það mun fyrr en áætlunin gerði ráð fyrir. Ástæður þess eru m.a. þær að Hálfdán var eitt þeirra verkefna sem tiltekið var að njóta skyldu þess viðbótarfjár sem ríkisstjórnin ákvað að verja til vegaframkvæmda á sl. hausti. Það má raunar bæta því hér við að það hefur verið ákveðið að stofna til hafnasamlags á Vestfjörðum hinum syðri, Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Vegur yfir Hálfdán er auðvitað forsenda fyrir að það megi takast og af þeim sökum lagði ég sérstaka áherslu á að því verki yrði hraðað.
    Samkvæmt áðurnefndum drögum að langtímaáætlun átti vegurinn um Barðaströnd að verða næsti áfangi á eftir Hálfdáni og skyldi hann tekin fyrir á öðru tímabili eða á árunum frá 1995--1998. Kleifaheiðin milli Patreksfjarðar og Barðastrandar átti síðan að koma á þriðja tímabili áætlunarinnar eða um aldamótin. Ekki er á þessu stigi unnt að segja nánar til um tímasetningar þessara áfanga. Vegáætlanir næstu ára munu verða ákvarðandi í þeim efnum. En af þessu er ljóst að þessum tveim síðasttöldu vegarköflum verður verður enn um sinn að halda sem malarvegum. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá vegagerðinni var veikasti hluti Kleifaheiðar styrktur árið 1990. Á sl. ári var borið nokkuð ofan í innri hluta vegarins um Barðaströnd og hann rykbundinn. Á þessu ári er fyrirhugað að gera sams konar aðgerð á ytri hluta vegarins.
    Ég vil svo bæta því við það sem ég hef nú sagt að það ber mjög mikið á því í þeim umræðum sem nú eru um viðbótarfjármagn í atvinnuskyni að því er haldið fram að arðsemi vega hljóti að vera komið undir því að sem flestir bílar aki um veginn án þess að tillit sé tekið til annarra þátta. Ég held að það sé mjög skammsýnt sjónarmið og vil leggja á það ríka áherslu að það svæði sem hér er spurt um, suðurhluti Vestfjarða, er einmitt dæmigert svæði þar sem aðgerðir í vegamálum eru afgerandi um það hvort hægt sé að koma við þeirri samvinnu milli sveitarfélaga og innan atvinnusvæðis sem keppt er að með stækkun sveitarfélaga og ég vil raunar segja að sé forsenda fyrir því að blómleg byggð geti eflst á þessu svæði, að það séu greiðar samgöngur milli byggðarkjarnanna Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar og greið leið á Brjánslæk til þess að komast inn á hringvegakerfið. En eins og hv. þm. er kunnugt er enn langt í land að unnt sé að halda vegagerð áfram frá Brjánslæk austur um í Reykhólahrepp. Ég álít því að þessi fsp. hafi átt hinn fyllsta rétt á sér og einmitt vakið athygli á því sem oft gleymist að við eigum enn margt ógert til þess að treysta atvinnusvæðin víðs vegar um landið til að draga þar bæði úr kostnaði við framkvæmdir og raunar heimilishald og um leið til að lækka framleiðslukostnað þeirra fyrirtækja sem starfa á þessum stöðum.