Vegaframkvæmdir í Vestur-Barðastrandarsýslu

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:48:06 (6638)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil einnig þakka fyrirspyrjanda fyrir að benda á þetta og vekja athygli á þessu máli. Það er staðreynd að ekki var séð fyrir þegar farið var út í byggingu nýrrar ferju á þessari leið sem nauðsyn var orðin á hvaða áhrif það mundi hafa á umferðina þarna yfir. Þær spár sem gerðar höfðu verið um umferð í tengslum við nýja ferju stóðust ekki, þ.e. umferðin varð fimmföld á við það sem spáð hafði verið. Umferðin um þennan veg sem fyrirspyrjandi er hér að nefna jókst alveg gífurlega á síðustu tveimur til þremur árum. Það hefur auðvitað haft það í för með sér að viðhaldi vegarins hefur ekki verið sinnt nægilega vegna þess að ekki var gert ráð fyrir að hann mundi fara svo illa sem hann hefur gert. Það er nauðsynlegt að huga að þessu í framtíðinni og það verður að leggja í þetta talsvert mikið af viðhaldsfé nú í sumar, hjá því verður ekki komist.