Samkeppnisráð

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:51:10 (6641)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja spurningar fyrir hæstv. viðskrh. varðandi skipan samkeppnisráð, þá einkum og sér í lagi það hvernig á því stendur að hæstv. ráðherra kaus að skipa framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands einn af ráðsmönnum.
    Í 6. gr. samkeppnislaga stendur svo:
    ,,Ráðherra skipar fimm menn í samkeppnisráð og jafnmarga til vara. Skulu þeir hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til.``
    Í frv., þegar það var lagt fram upphaflega, var þessu þessu nokkuð öðruvísi farið. Þá stóð í 6. gr., með leyfi forseta:
    ,,Í samkeppnisráði eru fimm menn. Skipar ráðherra þrjá þeirra, þ.e. formann ráðsins án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands. Hæstiréttur Íslands skipar tvo menn í ráðið sem skulu hafa þekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til.``
    Í umsögn með 6. gr. með frv. eins og það var fram lagt stendur eftirfarandi:
    ,,Lagt er til að viðskrh. skipi formann samkeppnisráðs án tilnefningar en Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands tilnefni hvort sinn manninn. Hlutlausa aðild að samkeppnisráði er reynt að tryggja með því að fela Hæstarétti Íslands að skipa tvo menn og með því að krefjast þess að þeir skuli vera óháðir hagsmunum atvinnulífsins.``
    Með öðrum orðum, það er alveg ljóst að eins og frv. var lagt fram á sínum tíma voru það þessir fulltrúar Hæstaréttar sem áttu að vera óháðir samtökum atvinnulífsins en fulltrúum VSÍ og ASÍ var beinlínis ætlað að vera þarna sem fulltrúum þeirra hagsmuna sem þeir gæta í störfum sínum. Það er ljóst af grg. með frv.
    Nú gerðist það í meðförum efh.- og viðskn. að nefndin ákvað að breyta þessari uppsetningu ráðsins og gera þá kröfu, ekki aðeins til tveggja fulltrúa skipaða af Hæstarétti, heldur allra fulltrúa í samkeppnisráði að þeir hefðu þessa sömu stöðu, væru óháðir fyrirtækjum og samtökum atvinnulífsins. Þess vegna eru það vonbrigði, svo ekki sé meira sagt að hæstv. viðskrh. skuli fara þannig að ráði sínu að skipa þrátt fyrir það annan af tveimur hagsmunaaðilunum í samkeppnisráð eins og það var miðað við frv. upphaflega og í raun og veru vanvirða þannig þá breytingu sem efh.- og viðskn. gerði á uppbyggingu ráðsins. Nú vill svo til að VSÍ eru samtök félaga og fyrirtækja, um 60 fyrirtæki eiga beina aðild að Vinnuveitendasambandi Íslands, þar á meðal nokkur stærstu fyrirtæki landsins eins og Flugleiðir og Eimskip ef ég man rétt, þannig að auðvitað er það svo að framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins er að nokkru leyti í vinnu hjá nokkrum stærstu fyrirtækjum landsins og það er með öllu fráleitt að hægt sé að halda því fram að hann falli ekki undir 6. gr. samkeppnislaganna eins og hún stendur nú.
    Þess vegna hef ég spurt hæstv. viðskrh. hvernig í ósköpunum standi á því að hann greip til þessa ráðs að skipa framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins í samkeppnisráð og hvort hann óttist ekki að deilumál muni rísa sökum vanhæfis framkvæmastjórans.