Samkeppnisráð

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:01:48 (6645)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að þetta mál snýst ekki um þann einstakling sem hér

á í hlut, Þórarin Viðar Þórarinsson. Hann er hinn mætasti maður og er ugglaust að mörgu leyti góðum kostum búinn til að sinna þessu starfi, en hann er í fullu starfi sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands. Vinnuveitendasamband Íslands er, eins og ég nefndi áðan, samtök bæði félaga atvinnulífsins en líka fyrirtækja því um 60 fyrirtæki eiga beina aðild að Vinnuveitendasambandi Íslands. Þar á meðal nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins sem sum hver hafa einokunar- eða markaðsráðandi aðstöðu á sínu sviði viðskipta. Innan Vinnuveitendasambands Íslands ræðst vægi atkvæða af heildarlaunagreiðslum fyrirtækjanna eða veltuhlutfalli þeirra þannig að því stærri sem fyrirtækin eru þeim mun valdameiri eru þau innan Vinnuveitendasambandsins. Allt þetta skiptir máli þegar það er metið hvort það geti samrýmst þeim kröfum sem gerðar eru í 6. gr. samkeppnislaga að framkvæmdastjóri þessara samtaka sitji þar.
    Ég vil enn fremur nefna að efh.- og viðskn. gerði þá breytingu á frv. og Alþingi féllst á hana að fella út fulltrúa Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og ákveða að þess í stað skuli allt ráðið skipað óháðum fulltrúum á faglegum grunni. Hæstv. viðskrh. er algjörlega að bregðast því hlutverki sínu að efna þessa breytingu, þennan vilja Alþingis í skynsamlegri skipan ráðsins. Það er auðvitað alveg ljóst.
    Eitt af hlutverkum hins nýja samkeppnisráðs á að vera að framkvæma úttekt á eigna- og stjórnunartengslum í íslenskum fyrirtækjum og ganga úr skugga um hvort þar sé að finna skaðleg merki hringamyndunar eða einokunar. Er það virkilega svo að starfsmaður stórfyrirtækjanna í landinu, Þórarinn Viðar Þórarinsson, sé heppilegur fulltrúi í samkeppnisráð sem á að standa að slíkri úttekt? Nei, auðvitað ekki.
    Hæstv. ráðherra tekur að mínu mati stóra áhættu gagnvart því að hann fái í hausinn málaferli um leið og hið nýja samkeppnisráð fer að sekta fyrirtæki eða fella úrskurði af einhverjum toga sem hafa áhrif á hagsmuni fyrirtækja.
    Ég ítreka því, ég tek undir áskoranir um að hæstv. ráðherra endurskoði þessa afstöðu sína og auðvitað væri þeim einstaklingi sem þarna á í hlut fyrir bestu að sjá að sér og biðjast undan því að hafa þennan kross á herðum.