Samkeppnisráð

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:04:25 (6646)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrst vil ég taka það fram að sú breyting sem gerð var í hv. efh.- og viðskn. á frv. til samkeppnislaga á 6. gr. frv. sem síðar varð 6. gr. laganna var gerð í góðu samkomulagi og reyndar að hluta til með tillögusmíð frá viðskrn. Þar er enginn meiningarmunur. Við erum vel sáttir við það og ánægðir með þá niðurstöðu sem þar fékkst.
    Ég vil líka leggja á það mjög ríka áherslu að sá maður sem hér hefur komið til umræðu sem einn ráðsmanna er ekki fulltrúi sinna samtaka í þessu ráði, hann er þar skipaður í krafti eigin verðleika. Hann eins og allir ráðsmennirnir fimm og varamenn þeirra uppfyllir þá kröfu sem gerð er í 6. gr. að þeir hafi sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og séu óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til, eins og orðrétt segir í 6. gr., en að sjálfsögðu verður að lesa þá grein við hlið 2. gr. laganna þar sem segir fortakslaust, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lögin taka ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum.``
    Það eru þessar tvær greinar laganna sem þarf að lesa saman þegar menn meta það sem hér er rætt.
    Ég vil að endingu segja það að hér er í raun og veru verið að efna til umræðu að ástæðulausu. Þessi ágæti ráðsmaður uppfyllir öll skilyrði laganna eins og hinir fjórir gera og varamenn þeirra.