Málaferli vegna kjarasamninga

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:13:45 (6649)


     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör. Mér þykja þetta athyglisverðar upplýsingar sem hér koma fram en samkvæmt þessu hefur ríkið átt aðild að 19 málum fyrir dómstólum á átta árum. Það er matsatriði hvort það er mikið eða lítið, en ef samskipti ríkisvaldsins við sína starfsmenn væru með eðlilegum hætti og aðra þá sem koma að launamálum ríkisins, þá ættu ekki nein málaferli að eiga sér stað.
    Nú veit ég að það er erfitt að skilgreina það hvað snertir kjarasamninga. Ég komst að samkomulagi um það við þann sem vann þetta svar í fjrmn. að við slepptum dæmum þar sem menn hafa verið að deila við ríkið út af biðlaunum, eftirlaunum og ýmsu slíku. Það sem fyrst og fremst vakti fyrir mér var að fá yfirlit yfir þau dæmi þar sem einstaklingar eða félög hafa ekki séð aðra leið en leita til dómstóla vegna deilna af ýmsu tagi við ríkisvaldið. Í málum einstaklinga hefur það iðulega verið svo að það verður að heyja einkamál til þess að hægt sé að ná fram leiðréttingu. Heilu félögin geta ekki farið í mál og þannig var það í BHMR-deilunni. Það vekur að sjálfsögðu athygli hver niðurstaða BHMR-deilunnar varð því að á endanum var það ríkið sem beið stórskaða af þessum framgangi málsins, enda var þar um fráleita málsmeðferð að ræða af hálfu ríkisins með bráðabirgðalögum í því styrjaldarástandi sem ríkti milli ríkisins og BHMR.
    Það komu margháttaðar upplýsingar fram í svari hæstv. fjmrh. Það þarf að skoða þetta nánar og eflaust vakna fleiri spurningar eftir þá skoðun.