Launakjör alþingismanna

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:18:54 (6651)

     Fyrirspyrjandi (Lilja Rafney Magnúsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég ber hér fram fsp. til hæstv. fjmrh. um launakjör alþingismanna. Fsp. hljóðar svo:
    ,,Hvaða reglur gilda um launakjör ríkisstarfsmanna sem verða alþingismenn og halda sínu fyrra starfi á launum?``
    Tilefni þessarar fsp. er sú kjararýrnun og atvinnuleysi sem almenningur í landinu býr við. Ríkið og vinnuveitendur hafa lýst því yfir að ekki sé svigrúm til neinna kjarabóta í núverandi efnahagsástandi. Við þessar aðstæður finnst mér rétt að reynt sé að varpa ljósi á hve víða í þjóðfélaginu það viðgengst að þetta fólk þiggi laun fyrir tvö eða jafnvel fleiri störf samtímis. Mér finnst rétt að það sé upplýst hvernig þessum málum er háttað á hinu háa Alþingi. Þó fsp. mín snúi eingöngu að launakjörum ríkisstarfsmanna sem taka sæti á Alþingi, þá vil ég að sjálfsögðu vekja athygli á hvort það sé algengt og þyki sjálfsagt að þingmenn starfi jafnhliða í fullu starfi úti á hinum almenna vinnumarkaði. Mér finnst rétt að ríkið og vinnuveitendur fari að líta til þeirra þjóðfélagshópa sem hafa haft svigrúm til að auka tekjur sínar mikið með því að gegna tveimur störfum samtímis og skapa sér þar með einnig meiri lífeyrisréttindi en almenningur getur gert. Þetta á auðvitað við um fleiri en alþingismenn en þeir eiga að vera fyrirmynd okkar hinna í starfi og sýna gott fordæmi.