Launakjör alþingismanna

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:20:51 (6652)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Spurt er: Hvaða reglur gilda um launakjör ríkisstarfsmanna sem verða alþingismenn og halda sínu fyrra starfi á launum?
    Því er til að svara að þetta er lagaatriði og regluna er að finna í 11. gr. laga nr. 75/1980, um þingfararkaup alþingismanna, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nú gegnir alþingismaður starfi hjá ríki eða ríkisstofnun með þingmennsku. Skal hann þá njóta launa hjá ríki eða ríkisstofnun samkvæmt mati viðkomandi ráðuneytis, þó aldrei hærri en 50%.``
    Þetta er orðrétt úr gildandi lögum sem hv. Alþingi hefur sett.
    Framkvæmdin á þessari grein er sú að þegar tilkynning berst frá skrifstofu Alþingis um að einstaklingar hafi tekið sæti á Alþingi, þ.e. ríkisstarfsmenn, eru föst laun hans felld út á móti þingfararkaupi. Greiðsla fastra launa getur síðar komið til berist skrifstofunni mat viðkomandi ráðuneytis í samræmi við lagagreinina. Með öðrum orðum er framkvæmdin á reglunni sú að launin eru felld út sjálfkrafa en ef ráðuneytið skrifar hins vegar bréf og segist hafa fallist á að viðkomandi ríkisstarfsmaður haldi launum allt að 50%, þá er farið að þeim úrskurði. Þetta gildir einnig um kostnaðargreiðslur, húsaleigu, bílapeninga og þess háttar sem tengist viðkomandi starfi ríkisstarfsmannsins og er þá sömuleiðis samkvæmt ákvörðun viðkomandi ráðuneytis.
    Varðandi aðra starfsmenn, þ.e. fólk sem kemur úr öðrum starfsgreinum og er ekki ríkisstarfsmenn, gilda þær almennu reglur að hið opinbera lætur sig málið ekki varða. Það er aðeins mál þingmannsins og

kjósendanna hvort þeir halda launum annars staðar. Um slíkt hefur verið deilt víða um lönd og þekkt dæmi um það. Einnig er þetta gömul umræða um það hvort þingmennska sé í eðli sínu fullt starf eða ekki og ætla ég ekki að hefja þá umræðu hér, en það er alþekkt að margir þingmenn njóta tekna annars staðar en af þingmennskunni. Ég þori varla að nefna nokkuð í því sambandi en meðal þingmanna eru sem betur fer ýmsir listamenn sem hafa m.a. skrifað sögur og leikrit og fá tekjur af því og ég tel að það sé einungis þinginu til mikillar sæmdar.
    Einn þáttur þessa máls er líka sá að nokkrir starfsmenn ríkisins hafa haldið stöðum sínum á meðan þeir sitja á þingi en mér sýnist að á undanförnum árum hafi sú þróun átt sér stað að það sé erfiðara fyrir þá sem kosnir eru á Alþingi að halda viðkomandi stöðum, og t.d. prófessorsstöðu svo ég nefni dæmi og aðrar slíkar stöður sem menn hafa verið í. Þar er uppi verulegt vandamál því að við verðum að átta okkur á því að það er kannski stærsta vandamál þjóðarinnar að fá inn á Alþingi fók sem er tilbúið til þess að láta af störfum fyrir það óöryggi sem þingmenn þurfa að búa við. En eins og allir vita er þeim sagt upp störfum í kosningum og það eru einungis kjósendur sem kveða upp slíkan dóm.
    Ég veit að fsp. er ekki ætlað að láta umræður hefjast um þessi atriði en ég tel þó ástæðu til að nefna þau í tengslum við svar við þessari sjálfsögðu fsp.